Heimssýn opnar skrifstofu og nýja heimasíðu

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum opnar í dag fimmtudag 22. jan. kl. 17:00 skrifstofu í húsinu Nýhöfn í Hafnarstræti 18, 2 hæð. Við sama tækifæri verður ný heimasíða samtakanna opnuð á slóðinni www.heimssyn.is.

Heimssýn er hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Samtökin sem voru stofnuð árið 2002 eru þverpólitísk og sitja fulltrúar allra flokka í stjórn þeirra. Vegna aukinnar umræðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) teljum við afar mikilvægt að samtökin láti í auknum mæli að sér kveða í opinberri umræðu og veiti þar mótvægi þeim fjölmörgu sem í dag tala fyrir aðild Íslands að ESB. Skrifstofa okkar í Reykjavík er hluti af því verkefni.

Blekkingarleikur ESB-sinna

Ég hef margoft á opinberum vettvangi hvatt til þess að málefnalegar umræður fari fram um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ég tel slíkar umræður nauðsynlegar og gagnlegar. Það er hins vegar skoðun mín að um þessar mundir séu önnur mál brýnni. Við Íslendingar eigum við að stríða mikinn efnahagsvanda og lausnirnar við honum felast ekki í aðild að ESB eða upptöku evrunnar eftir allmörg ár. Mikill þrýstingur frá aðildarsinnum úr ýmsum áttum hefur hins vegar leitt til þess að málið er nú í brennidepli stjórnmálaumræðunnar og við því verðum við andstæðingar aðildar að sjálfsögðu að bregðast, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Margt í málflutningi hörðustu aðildarsinna kallar á andsvör, ekki síst þegar röksemdafærslan byggir á misskilningi, hálfsannleik eða jafnvel hreinum blekkingum.

Óðagot og meint tímahrak
Stuðningsmenn aðildar láta í veðri vaka að við verðum að sækja um aðild sem fyrst. Ganga eigi til verka á ógnarhraða, hefja aðildarviðræður jafnvel strax í næsta mánuði, klára stjórnarskrárbreytingar og löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur á örfáum vikum, rumpa svo sjálfum aðildarviðræðunum af á sem skemmstum tíma og láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram sem allra fyrst. Það megi engan tíma missa. En á sama tíma segjast sömu menn auðvitað vilja vanda til verka og standa vörð um hagsmuni Íslands. Er þetta trúverðugur málflutningur? Er þetta eðlilegt vinnuferli við að afgreiða stærstu og mikilvægustu ákvörðun sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir í áratugi? Ákvörðun sem er líka ætlað að standa í áratugi – að minnsta kosti. Eigum við að taka slíka ákvörðun í einhverju óðagoti út af heimatilbúnu tímahraki? Er rétt að útkljá mál af því tagi á tíma þar sem stjórnmálamenn, embættismenn, fyrirtækjastjórnendur og almenningur allur er enn í losti eftir bankahrunið í haust og þau efnahagslegu áföll, sem hafa fylgt í kjölfar þess?

Leysir aðild og upptaka evru efnahagsvandann?
Í þessu sambandi er auðvitað látið eins og ESB aðild muni bjarga okkur úr efnahagsþrengingunum, einkum vegna evrunnar. Samt vita allir að jafnvel þótt allt gengi hratt fyrir sig varðandi ESB aðildina er langur tími, í stysta lagi 4 ár, líklega þó frekar 6 eða 8 ár þangað til við gætum tekið upp evruna. Það er líka ljóst að við þyrftum að koma efnahagsmálunum í lag áður en við tækjum upp evruna, annars uppfylltum við einfaldlega ekki skilyrðin til þess. Sem stendur uppfyllum við ekki neitt þeirra fimm efnahagslegu skilyrða sem Maastricht-sáttmálinn setur fyrir aðild að myntbandalaginu og upptöku evrunnar og allar spár gera ráð fyrir því að það muni taka okkur mörg ár að vinna okkur út úr þeirri stöðu.

Því er haldið fram að evran – eða jafnvel bara ESB-aðildin eins og sér – hefði bjargað okkur frá þeim efnahagslegu þrengingum sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum. Er það svo? Eru menn búnir að greina orsakir efnahagshrunsins? Eru öll kurl komin til grafar í þeim efnum? Nei, öðru nær. Þar er mikið verk óunnið og alls engar forsendur til að draga slíkar ályktanir á þeim þessum tímapunkti. Við eigum líka eftir að sjá hvernig efnahagskreppan leikur ESB ríkin – bæði þau sem nota evru og hin. Í þeim efnum er erfitt að fullyrða nokkuð á þessari stundu. Sumt vitum við þó nú þegar, eins og til dæmis að bæði Ungverjar og Lettar hafa þurft að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þrátt fyrir ESB-aðild sína og Írar velta þeim möguleika fyrir sér í alvöru. Væri ekki nær að skoða þessi mál af yfirvegun og taka afstöðu þegar meiri upplýsingar liggja fyrir?

Aðildarviðræður í alvöruleysi?
Það er gefið í skyn að það sé einhver valkostur að fara út í aðildarviðræður í einhverju tilraunaskyni eða jafnvel alvöruleysi. Sumir sem leggja til aðildarviðræður taka jafnframt fram að þeir séu á móti aðild. Er það trúverðugt? Og er það trúverðugt gagnvart mótaðilanum í samningunum, ESB sjálfu og raunar líka gagnvart öllum 27 aðildarríkjunum, að fara út í aðildarviðræður ef menn eru ekki vissir um að þeir vilji aðild? Kæri sig jafnvel ekkert um hana. Væri ekki meira vit í því að bíða með aðildarviðræður þangað til menn eru búnir að gera það upp við sig hvort þeir sækist raunverulega eftir aðild? Hvort þeir eru tilbúnir að ganga í Evrópusambandið eins og það er, með öllum þeim kostun og göllum sem því fylgja? Tilbúnir til að laga sig að kröfum sambandsins eins og öll aðildarríkin 27 hafa gert?

Getur Ísland samið sig frá sjávarútvegsstefnunni?
Í þessu sambandi er oft talað eins og Íslendingar – einir þjóða – eigi möguleika á því að semja sig undan grunnreglum ESB, einkum í sjávarútvegsmálum. Að Ísland geti haldið fullum yfirráðum yfir sjávarauðlindinni þrátt fyrir aðild. Þetta er meðal annars gefið í skyn þegar talað er um að nauðsynlegt sé að fara í aðildarviðræður til að sjá hvað kemur út úr þeim. Það er látið eins og um eitthvað sé raunverulega að semja að þessu leyti. Ekkert sem heyrst hefur frá ESB á undanförnum árum gefur til kynna að það sé hægt. Ekkert í reynslu annarra þjóða bendir til að við munum fá varanlegar undanþágur sem máli skipta. Það sem í boði er eru takmarkaðar, tímabundnar undanþágur og aðlögunarferli – ekkert meira en það. Það er raunar umhugsunarefni að á sama tíma og sumir vilja fara í aðildarviðræður og segjast þar ætla að standa fastan vörð um óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindunum – sem ekki er hægt miðað við grunnreglur ESB – þá eru aðrir ESB sinnar sem halda því fram að það verði ekkert mál fyrir Íslendinga að búa við forræði ESB í sjávarútvegsmálum. Hafa þessir hópar rætt saman? Hafa þeir reynt að komast að niðurstöðu um það hvorn málflutninginn þeir ætla að nota til að fá þjóðina á sitt band? Hvor hópurinn skyldi vera marktækari? Dæmi hver fyrir sig.

Verulegt framsal fullveldis
Því er haldið fram að ESB aðild muni ekki fela í sér framsal fullveldis þjóðarinnar. Þess í stað er notað orðalag eða merkingarlaust orðskrúð eins og að með aðild værum við einungis að deila fullveldi okkar með öðrum þjóðum. Jafnvel er gengið svo langt að halda því fram að eina leiðin til að þjóðin geti notið fullveldis síns sé að færa yfirþjóðlegum stofnunum meiri völd. Svona málflutningur byggir á einhverju allt öðru en skýrri hugsun og hugtakanotkun. Skyldu þeir sem tala á þennan veg hafa velt því fyrir sér hvers vegna allir stjórnskipunarfræðingar landsins eru sammála um að breyta þurfi stjórnarskrá áður en til ESB aðildar kemur? Svarið við því er einfalt. Það er vegna þess að í ESB aðild felst svo mikið framsal fullveldis að það er engan veginn samrýmanlegt stjórnarskrá Íslands. Þar er um að ræða verulegt framsal löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds á fjölmörgum sviðum. Heyrst hafa sjónarmið um að við höfum þegar gengið of langt að þessu leyti með EES-samningnum og aðild okkar að Schengen. Jafnvel þótt svo væri er vandséð hvernig þessi kenning felur í sér rökstuðning fyrir því að ganga lengra á fullveldið. Í þessu sambandi er líka rétt að benda á, að bæði við lagasetningu og réttarframkvæmd árum saman hefur verið gengið út frá því að þessir samningar standist stjórnarskrá, þannig að vangaveltur um þetta atriði hafa eingöngu gildi sem fræðilegt álitamál en ekki raunverulega þýðingu. Enginn fræðimaður sem um þessi mál hefur fjallað hefur hins vegar dregið í efa að breyta þyrfti stjórnarskránni vegna ESB-aðildar. Er það bara einhver misskilningur?

Úrsögn ekkert mál – eða hvað?
Að lokum má nefna, að því er stundum haldið fram að það sé alveg óhætt fyrir þjóðina að gerast aðili að Evrópusambandinu vegna þess að ekkert mál yrði að ganga úr því ef reynslan yrði ekki góð. Þetta er að vissu marki rétt. Ekki eru líkur á að ESB myndi með valdbeitingu koma í veg fyrir að Ísland segði sig úr sambandinu og ef Lissabon-sáttmálinn nær fram að ganga verður jafnvel gert ráð fyrir úrsagnarmöguleikum í regluverki sambandsins. Hins vegar geta afleiðingar úrsagnar verið alvarlegar. Ólíklegt er að stofnanir ESB eða önnur aðildarríki tækju úrsögn vel. Það myndi áreiðanlega hafa veruleg áhrif á viðskipti og önnur samskipti milli Íslands og sambandsins ef til úrsagnar kæmi. Fráleitt er að ímynda sér að mikill vilji yrði til þess af hálfu ESB að endurlífga EES-samninginn gagnvart Íslandi eftir úrsögn. ESB gerir ekki samninga af því tagi lengur. Ekki er heldur ástæða til að búast við því að möguleikar yrðu á hagstæðum tvíhliða samningi við slíkar aðstæður. ESB myndi auðvitað stilla dæminu þannig upp gagnvart Íslandi að annað hvort yrði landið áfram aðili með öllu því sem því fylgir, kostum og göllum, eða fengi að öðrum kosti stöðu þriðja ríkis. Slíkt myndi leiða til mun óhagstæðari stöðu fyrir Ísland heldur en við búum við í dag með aðild okkar að EES-samningnum og Schengen.

Eldri tilraunir til að villa mönnum sýn
Vafalaust má bæta ýmsum atriðum við þessa upptalningu. Þetta eru þó sennilega veigamestu atriðin þar sem áróðursmenn Evrópusambandsaðildar reyna að villa fólki sýn í þeim umræðum sem fara fram um þessar mundir. Hér er sleppt ýmsum eldri áróðurspunktum, sem menn kannast við frá undanförnum árum, en ekki einu sinni æstustu ESB-sinnar halda lengur á lofti. Má þar nefna punkta eins og að EES-samningurinn væri orðinn úreltur og hefði runnið sitt skeið á enda. Einnig að Norðmenn væru á leiðinni inn í ESB og það neyddi okkur til að gerast aðilar líka. Þessu var haldið stíft fram af hálfu stuðningsmanna aðildar fyrir fáeinum árum en reynslan sýndi að þar voru á ferðinni hreinar blekkingar. Sömu sögu má reyndar segja um þann málflutning að eini kostur Íslendinga í varnarmálum eftir brotthvarf Bandaríkjahers væri varnarsamstarf við ESB. Þróunin á sviði varnarmála hefur líka afsannað þessa kenningu.

Með þessa reynslu í huga er full ástæða til að taka málflutningi ESB-sinna með miklum fyrirvörum. Það á ekki síst við þegar jafn mikill þrýstingur er settur á að hefja aðildarferlið eins og raunin er þessa dagana. Með skemmri tíma til ákvörðanatöku eru auðvitað meiri líkur á að málið verði afgreitt án þess að eðlileg umræða fari fram. Umræða, sem er forsenda þess að hægt sé að fletta ofan af blekkingunum og afhjúpa vafasamar fullyrðingar þeirra, sem harðast ganga fram í málinu.

Birgir Ármannsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

(Birtist áður á fréttavefnum Amx.is)

Framsókn: Evrópumálin ekki forgangsmál

Nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði í viðtali við Mbl.is í gær að það sem væri brýnast nú væri að koma efnahagsmálum þjóðarinnar aftur í lag. Eftir það væri hægt að ræða um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Ekki væri hægt að fara í viðræður við sambandið eins og staðan væri í dag í efnahagsmálunum. Evrópumálin eru m.ö.o. ekki forgangsmál að mati nýs formanns og í raun má segja að stefnan sé að því leyti sú sama og Jón Sigurðsson boðaði í formannstíð sinni í flokknum, þ.e. að ef hefja ætti viðræður við Evrópusambandið yrði það að vera gert í styrk en ekki veikleika. Gera má ráð fyrir að viðunandi aðstæður verði ekki fyrir hendi fyrr en í fyrsta lagi eftir eitt til tvö ár.

Eins og bent hefur verið á var formannskjör Framsóknarflokksins annars athyglisvert. Frambjóðandinn sem fékk langfæst atkvæði var sá sem jákvæðast hafði tjáð sig um aðild að Evrópusambandinu. Sá sem sigraði að lokum var sá sem mesta fyrirvara hafði á slíkri málaleitan.

Heimild:
Vill færa flokkinn frá hægri (Mbl.is 19/01/09)

Segir Íra eiga að hóta því að yfirgefa Evrópusambandið

Írski hagfræðingurinn David McWilliams segir að Írar eigi að hóta því að yfirgefa Evrópusambandið ef Evrópusambandið geri ekki meira til þess að styðja við bakið á efnahag Írlands. McWilliams, sem er fyrrum starfsmaður írska seðlabankans og forstöðumaður hjá svissneska stórbankanum UBS, segir að sambandið hafi gert lítið til þess að hjálpa Írum í alvarlegum efnahagserfiðleikum þeirra. Stríð sé í gangi innan evrusvæðisins á milli stærri og minni ríkja þess þar sem stóru ríkin fari sínu fram án tillits til þeirra minni.

McWillams segir Íra hafa tvo kosti ef ekki komin stóraukin aðstoð frá Evrópusambandinu, að yfirgefa evrusvæðið eða lýsa yfir gjaldþroti. Írland sé þegar nálægt því að verða gjaldþrota og verði sú niðurstaðan muni það hafa skelfilegar afleiðingar um allt Evrópusambandið, sérstaklega suðurhluta evrusvæðisins. Verði Írar gjaldþrota sé líklegt að Spánn, Ítalía og Grikkland fylgi í kjölfarið.

McWillams segir að aðild Íra að Myntbandalagi Evrópusambandsins komi í veg fyrir að efnahagur Írlands nái sér á strik á nýjan leik. Eina leiðin til þess sé að landið verði aftur útflutningsland. Bretar geti þetta með því að láta gengi pundsins falla svo útflutningsgreinar þeirra styrkist, en það geti Írar ekki þar sem þeir hafi afsalað sér sjálfstæðum gjaldmiðli með upptöku evrunnar. Hann segir Íra vera að greiða tvöfalt gjald fyrir evruna, fyrst í gegnum hátt gengi hennar og síðan í gegnum stýrivextina.

Heimildir:
Help Ireland or it will exit euro, economist warns (Telegraph.co.uk 19/01/09)
Hætta í ESB eða verða gjaldþrota segir írskur hagfræðingur
(Amx.is 19/01/09)
Segir Íra eiga að hóta að draga sig út úr evrusvæðinu
(Vísir.is 19/01/09)
,,Hjálpið Írlandi eða það hættir evrusamstarfi” (Vb.is 18/01/09)

Áhættulausar aðildarviðræður?!

Í þúsund ár sátu margvísar langömmur við hlóðaeldinn og sögðu okkur sögur af vitgrönnum skessum sem í lífsleiða sínum og heimsku köstuðu milli sín fjöreggi. Mátti þá ekkert útaf bera að þær ekki misstu eggið ofan í hellisgólf og fordjörfuðu þar með lífi sínu. Líkt er þeim farið ráðamönnum þeim sem ósköpin öll langar til að setjast við tröllaborðið í Brussel og kasta þar í milli sín og hinna stóru sjálfstæði þjóðarinnar, sumir í veikri von um að koma samt með það fjöregg óskaddað heim aftur.

Sjálfstæðisþingmennirnir Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson og Illugi Gunnarsson hafa nýlega bæst í þann tröllahóp sem ólmur vill komast í skessuleik þennan þar sem fyrir voru þær Ingibjörg Sólrún, Þorgerður Katrín og Valgerður Sverrisdóttir. En skyldi fjöregginu sjálfu, fullveldi og frelsi þjóðarinnar einhver hætta búin af leik þessum?

Icesave deilan lærdómsrík
Nýleg uppákoma Íslendinga vegna svokallaðra Icesave reikninga í London kallar á nokkurt endurmat í samskiptum okkar við stórþjóðir. Þar er ljóst að herraþjóðirnar skirrast ekki við að leika þá leiki við hinn litla og veika sem aldrei er boðinn þeim stóra og sterka. Enginn ráðamanna í Englandi hefur farið fram á ríkisábyrgð Bandaríkjamanna af tapi enskra fjármagnseigenda vegna Lehmans bræðra eða stórsvindlarans Madoffs en í samanburði við þessa tvo verða þeir Björgúlfsfeðgar þó sem börn ein. Af hverju erum við ábyrg fyrir Icesave en Bandarísk yfirvöld ekki vegna Madoffs. Ástæðan er einföld,- í leik þjóðanna gilda enn sömu reglur og gilt hafa í árþúsund að hinir stóru kúga þá litlu en fara af varkárni gagnvart leikbræðrum sem þeir ekki hafa í fullu tré við. Slíkur kaldrani er aldrei meira ráðandi en einmitt á krepputímum.

Það eru því gæfusnauðir stjórnmálamenn sem nú beint ofan í Icesave deiluna leggja til að Íslendingar gangi að samningaborði ESB og kanni í aðildarviðræðum hvað fást kunni. Rómarsáttmálinn liggur fyrir og er ekkert leyniplagg og sama má segja um yfirlýsingar stækkunarstjóra ESB um að auðvitað fái Íslendingar enga sérmeðferð þegar kemur að fiskimiðum þjóðarinnar. Sem og hitt að til aðildarviðræðna fer enginn með hálfum hug og meira að segja harðir ESB sinnar meðal vinaþjóða okkar í Skandinavíu hafa varað Íslendinga við að setjast að samningaborðinu í svo þröngri og veikri stöðu sem þjóðin er nú.

Hlekkjaðir við samningaborðið
Þetta segja þeir vitandi um það sem ekki liggur fullkomlega fyrir, en má geta sér til af viðbrögðunum í Icesave deilunni. Vinir okkar í Skandinavíu vita fullvel hversu trauðla auðlinda-hungraðar stórþjóðir ESB muni sleppa svo vænum bita sem Íslandi af borði sínu þegar það væri einu sinni komið þangað.

Það eru víðar dyr inngöngu í konungsríkinu en þröngar útgöngu. Þegar samningaviðræður væru á annað borð hafnar og að þeim tímapunkti kæmi að Íslendingar vildu standa þar upp og þakka fyrir sig er eins víst að skilyrðin verði þau að aðildarsamningurinn verði lagður fyrir þjóðina til samþykktar. Ekki samþykktar eða synjunar eins og gerist í leik hinna litlu heldur til endanlegrar samþykktar í fyrstu, öðrum eða þriðju kosningum eins og gerist hjá hinum stóru og við íslenskir sveitamenn þekkjum vel þegar ráðuneytismönnum dettur í hug að afleggja hjá okkur aldagamla hreppa. Virðingin fyrir kosninganiðurstöðum okkar yrði síst meiri en gagnvart lýðræðislegri niðurstöðu Íra við Lissabon sáttmála.

ESB hefur hér ótal leiðir til að beita okkur þrýstingi. Ein er kúgun vegna skulda, önnur er að hóta okkur vegna EES samningsins og sú þriðja gæti einfaldlega legið í meinleysislegum tæknilegum hindrunum í markaðsaðgangi. Með EES samningi komust þjóðir þessa hálfa leið þar sem við glöptumst í framhaldi af honum til að setja eggin mörg mjög í sömu körfu. Ef okkur dettur í hug að fela fyrrnefndum þingmönnum Brusselferð með þau öll í körfu og þar á meðal gulleggið sem geymir sjálfstæði þjóðarinnar þá er gæfuleysi þessarar þjóðar meira en tárum taki.

Bjarni Harðarson,
bóksali

(Birtist áður á fréttasíðunni Amx.is)

Meirihluti Norðmanna andvígur aðild að Evrópusambandinu

Meirihluti Norðmanna er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Í nýrri skoðanakönnun fyrir norska ríkisútvarpið kemur fram að fimmtíu og einn af hundraði er því andvígur að Noregur gangi í sambandið., tæplega 36 prósent eru því fylgjandi og rúmlega þrettán prósent eru óviss. Í könnun fyrir Klassekampen og Nationen í síðasta mánuði reyndust enn fleiri vera andvígir ESB-aðild, eða hátt í fimmtíu og sex af hundraði. Skoðanakannanir í Noregi hafa sýnt mikinn meirihluta Norðmanna andvígan Evrópusambandsaðild allar götur síðan franskir og hollenskir kjósendur höfnuðu fyrirhugaðri Stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem nú gengur undir nafninu Lissabon-sáttmálinn, sumarið 2005.

Heimild:
Noregur: Meirihluti andvígur ESB (Rúv.is 12/01/09)

Bretar vilja draga úr tengslunum við Evrópusambandið

Tæplega tveir þriðjuhlutar breskra kjósenda vilja losa um tengsl Bretlands við Evrópusambandið, þar á meðal við Evrópudómstólinn,  samkvæmt nýrri skoðanakönnun þar í landi. Mikill meirihluti þeirra er einnig andvígur evrunni, þrátt fyrir mikið gengisfall breska pundsins að undanförnu. Niðurstöður könnunarinnar eru birtar í The Sunday Telegraph í dag. Alls vilja 16% kjósenda að Bretland slíti sig einfaldlega frá Evrópusambandinu með öllu, en 48% vilja að tengslin á milli séu minnkuð verulega. Þ.e. að bresk yfirvöld taki aftur við völdum sem hafi verið framseld til Brussel og bresk lög þurfi ekki að vera háð túlkunum Evrópudómstólsins.

Samanlagt eru það því 64% þjóðarinnar sem vilja draga úr samneyti við ESB, en aðeins 22% Breta segjast styðja áframhaldandi samvinnu þar á milli. Örlítið fleiri, eða 24%, eru hlynnt upptöku evrunnar en sami fjöldi, 64%, eru andstæðir því að skipta út pundinu fyrir evru samkvæmt sömu könnum, þrátt fyrir að staða pundsins gagnvart evrunni hafi veikst verulega í vetur. Þær niðurstöður eru á svipuðum nótum og sambærileg skoðanakönnun BBC fyrr í mánuðinum sýndi. Athygli vekur að á sama tíma segja 45% kjósenda að enginn stærstu stjórnmálaflokkanna þriggja í Bretlandi  hafi stefnu í Evrópumálum sem höfði til þeirra persónulegu skoðanna.

Það var rannsóknarfyrirtækið YouGov sem framkvæmdi könnunina dagana 6. – 8. janúar síðastliðinn.
 
Heimildir:
Bretar vilja snúa baki við ESB (Mbl.is 11/01/09)
Tæplega 64% Breta vilja minnka eða slíta tengsl við ESB (Amx.is 11/01/09)
Bretar vilja úr ESB (Vísir.is 11/01/09)
Loosen Britain’s ties with European Union, say two-thirds of voters (Telegraph.co.uk 11/01/09)

Fjölsótt og velheppnað málþing um sjávarútveginn og ESB

Tæplega eitt hundrað manns mættu á málþing um sjávarútveginn og Evrópusambandið sem Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, stóð fyrir í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í gær sunnudag. Sérstakur gestur fundarins var Peter Ørebech, þjóðréttarfræðingur við Háskólann í Tromsö í Noregi og sérfræðingur í EES rétti og sjávarútvegsreglum Evrópusambandsins. Var málþinginu gerð góð skil í fjölmiðlum.

Margt áhugavert kom fram í máli Ørebech og m.a. að regla sambandsins um svokallaðar hlutfallslega stöðugar veiðar, sem margir stuðningsmenn aðildar að því hér á landi hafa sagt að myndi tryggja Íslendingum allan kvóta á Íslandsmiðum ef til slíkrar aðildar kæmi, er í raun aðeins munnleg vinnuregla sem hefur enga lagalega þýðingu. Engin trygging felist því í henni fyrir einu eða neinu og henni megi breyta á tiltölulega einfaldan hátt hvenær sem er.

Á málþinginu fluttu einnig erindi Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fiskvinnslustöðva (SF). Öll erindin voru hljóðrituð og er stefnt að því að birta þær hljóðritanir á netinu innan skamms og verður það auglýst sérstaklega.

Frétt Mbl.is um málþingið

Málþing: Sjávarútvegurinn og ESB

Heimssýn stendur fyrir málþingi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins undir yfirskriftinni “Sjávarútvegurinn og ESB” nk. sunnudag 11. janúar frá kl. 15 – 17.

Ræðumenn verða Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Peter Ørebech, þjóðréttarfræðingur við Háskólann í Tromsö, Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), og Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fiskvinnslustöðva (SF).

Á fundinum verður leitað svara við ýmsum brennandi spurningum sem upp kynnu að koma í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið (ESB):

  • Hafa verið gerðar undanþágur frá meginreglunni um “alger yfirráð” (“exclusive competence”) ESB yfir auðlindum sjávar í aðildarríkjum?
  • Er hugsanlegt að vikið verði frá viðmiðunarreglu ESB um veiðireynslu (“relative stability”) á næstu árum?
  • Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á samningsstöðu Íslendinga um deilistofna?
  • Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á hæfni yfirvalda til að taka skjótvirkar ákvarðanir um verndun veiðisvæða?
  • Stafar íslenskum sjávarútvegi aukin hætta af kvótahoppi á erfiðleikatímum eftir hugsanlega ESB-aðild?
  • Yrði breyting á kvótakerfinu við ESB-aðild?

Frjálsar umræður og fyrirspurnir úr sal eftir því sem tími gefst til. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Stjórn Heimssýnar

Verkefni handa háskólahagfræðingum

Gjaldmiðilsfræði, eins og háskólahagfræðingar fjalla um þau nú, eru eins og kartöflufræði búfræðinga fyrir 80-90 árum. Ef leitað var til búfræðings á fyrstu áratugum 20. aldar til að fá ráð um kartöflurækt hafði hann lítið að styðjast við annað en eigið hyggjuvit. Sumir búfræðingar voru glúrnir, aðrir virtust vera glúrnir, en hvort sem var gátu þeir ekki vísað til rannsókna. Nú getur búfræðingur, sem spurður er ráða um kartöflurækt, vísað til greinar í blaði, sem aftur vísar til tímaritsgreinar, sem aftur styðst við rækilegar rannsóknarskýrslur, og kartöflurnar verða góðar. Þessu ætti að vera líkt farið um gjaldmiðilsmálið, en því er ekki að heilsa.

Háskólahagfræðingar vísa ekki til rækilegrar greinargerðar, þar sem lesendur með ólík viðhorf um stöðu Íslands geta metið sjálfir, hvernig hugmynd hvers og eins um æskilega stöðu landsins fellur að hugmyndum um gjaldmiðil fyrir Ísland. Reyndar segir Thomsen, sem hér hefur verið á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), að hér fari fram beinskeytt umræða um þessi mál. Sú umræða hefur ekki birst almenningi, en skot hafa vissulega verið mörg.

Ég set fram spurningar og óskir. Fyrst: Verður því yfirleitt svarað, hvernig megi koma gjaldmiðilsmálum Íslands vel fyrir, fyrr en heimurinn hefur mótað nýjar leikreglur um flutning fjármagns milli landa eftir þá raun, sem heimurinn er í?

Þó að þessu verði ekki svarað af raunsæi fyrst um sinn má fjalla um ýmsa reynslu. Meginkenningin hefur verið, að myntbandalag verði ekki farsælt, nema hlutar þess séu samstiga í efnahagssveiflum. Háskólahagfræðingar mættu gera grein fyrir því, meðan beðið er eftir því, að reglur mótist um gjaldmiðilsmál heimsins, hversu samstiga eða ósamstiga Ísland hefur verið evrubandalaginu. Evrubandalagið fullnægir reyndar ekki skilyrðinu um að vera samstiga innbyrðis, enda hefur því farnast lakar en hinum hluta Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Sömuleiðis þarf að vita vegna hugmyndar um að tengja krónuna við BA-myntina dollar, hversu samstiga Ísland hefur verið Bandaríkjum Ameríku (BA), og vegna trúar sumra á, að farsælt væri að gera norsku krónuna að gjaldmiðli hér, þarf að vita, hvort Ísland sé yfirleitt samstiga Noregi í efnahagsbylgjum.

Því er stundum haldið fram, að íslenska hagkerfið sé of lítið. Of lítið fyrir hvern er þá átt við? Var ef til vill helst að, nú þegar illa fór, að kvöð var á samkvæmt EES-samningnum, að ríkið skipti sér ekki af fjármagnsflutningum úr landi og til landsins? Það vildi ég, að fjallað væri um í greinargerð háskólahagfræðinga. Þá hefur verið talað um áhlaup á krónuna. Hvaða tök þarf að hafa til að varast þau? Mundu slík tök leyfast í nýjum alþjóðlegum reglum, þótt þau yrðu ekki leyfð samkvæmt EES-samningnum? Mætti þá ekki semja við Evrópusambandið um frávik? Dýrkeypt reynsla ætti að nægja til að fá að semja þannig. Þetta þarf að taka fyrir, meðal annars með tilliti til þess, að hér megi stunda fjármálastarf af viti.

Nefnd eru dæmi um farsæl myntbandalög, Hongkong með BA-dal og Ekvador sömuleiðis. Er reynslan í þessum löndum háð skipulagi kjaramála? Skyldu vera almennir kjarasamningar í löndunum? Skiptir það máli, ef vantar þann sveigjanleika, sem fæst með eigin gjaldmiðli, að kjarasamningar eru sveigjanlegir, jafnvel léttvægir? Er þá æskilegt, til að myntbandalagið heppnist, að aðilar vinnumarkaðarins séu lítils megnugir, sem sagt ekki neitt Alþýðusamband, sem skiptir máli?

Nú kom til álita, að Lettland, sem hafði tengt gjaldmiðil sinn evru, aftengdi hann og felldi gengið. Ekki varð af því, heldur fékk Lettland mikið evrulán til að bjarga sér úr vandræðum. Fróðlegt væri að fá það dæmi metið í víðtækri greinargerð, sömuleiðis muninn í núverandi þrengingum á Bretlandi með sitt pund og Írlandi með evru. Þá má ekki gleyma Færeyjum. Hagstofustjóri Færeyja var í opinberri heimsókn hér í haust og lýsti vandræðum þar fyrir hálfum öðrum áratug. Þar vantaði illa eigin gjaldmiðil til að leysa vandann, hélt hann fram. Hvað er til í því?

Þá vildi ég hafa með umfjöllun um myntráð; um það eru alþjóðlegar reglur. Loks hlýt ég að vænta þess, að menn meti, hvers virði sjóðval mætti verða til að draga úr hagsveiflum, sem aftur tengist gjaldmiðilsstjórn, sbr. grein mína „Að loknum fjármálasviptingum“ í Mbl. 16. október síðastliðinn.

Hér er því margs að gæta, og ekkert vit að ætla háskólahagfræðingunum nauman tíma. Hagfræði getur leitt til skarprar greiningar og úrræða, en getur líka orðið einfeldningslegt trúboð, jafnvel hjá sama manni. Háskólahagfræðingarnir stóðu heiðursvörð í þeirri hrakför, sem þjóðin er í, með glýju í augum (það er spurt, hvenær ferðin hófst). Samt verður ekki komist hjá því að setja þá í verk. Þegar þeir hafa skilað vandaðri álitsgerð í gjaldmiðilsmálinu þarf almenningur svigrúm til að meta hana með tilliti til nokkurra meginhugmynda um stöðu Íslands. Og heimurinn allur þarf að jafna sig til að ná áttum um farsæl fjármálasamskipti. Ætli veiti af skemmri tíma en kjörtímabili núverandi Alþingis til að komast að niðurstöðu?
 
Björn S. Stefánsson
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 4. janúar 2009)