Meirihluti Breta vill segja skilið við Evrópusambandið

Meirihluti Breta, eða 55%, vill segja skilið við Evrópusambandið (ESB) en halda eftir sem áður nánum viðskiptalegum tengslum við sambandið ef marka má nýja skoðanakönnun fyrir breska ríkisútvarpið BBC. 41% aðspurðra sögðust vilja áframhaldandi veru innan þess.

Þrátt fyrir að breska pundið hafi lækkað mjög gagnvart evrunni á undanförnum vikum hafa Bretar lítinn áhuga á að taka hana upp. Aðeins tæpur þriðjungur sagði yfirstandandi efnahagserfiðleika auka áhuga þeirra á að skipta pundinu út fyrir evru en 64% sögðu efnahagsástandið ekki stuðla að auknum áhuga á því.

Þegar spurt var að því hvort Bretland hagnaðist af aðildinni að Evrópusambandinu að mati viðkomandi með tilliti til aukingar á atvinnu og viðskiptum sögðust 44% sammála því en 51% ósammála. Yfirgnæfandi meirihluti, eða 84%, sögðust telja að halda ætti þjóðaratkvæði í Bretlandi ef til stæði að framselja frekari völd til sambandsins á meðan aðeins 13% lýstu sig andvíga því.

Þess má geta að niðurstaða skoðanakönnunar BBC er í fullu samræmi við fyrri kannanir á undanförnum árum þar sem sömu eða hliðstæðrar spurningar var spurt. Það er því ljóst ef marka má umræddar kannanir að meirihluti Breta vill ekki að Bretland sé hluti af Evrópusambandinu.

Heimild:
Poll: Brits want to leave EU (Bbc.co.uk 18/03/09)

Vilja að hægt verði á frekari stækkun Evrópusambandsins

Kristilegir demókratar í Þýskalandi, flokkur Angelu Merkel kanslara, vilja að hægt verði á stækkun Evrópusambandsins eftir að Króatía verður aðili að sambandinu. Í nýrri skýrslu frá flokknum segir að það hafi haft mikil áhrif að fjölga aðildarríkjum Evrópusambandsins úr 15 í 27 á fáum árum. Flokkurinn telji að nú eigi að einbeita sér að því að þétta ríkin saman, styrkja stofnanir sambandsins og gildi á sama tíma og hægt verði á stækkunarferlinu. Eina undantekningin frá reglunni sé Króatía.

Heimild:
Vilja hægja á stækkun ESB (Mbl.is 17/03/09)
Merkel party wants pause in EU enlargement (Eubusiness.com 17/03/09)

Bannað að ávarpa þingkonur á ESB-þinginu sem frú eða fröken

Sérstök málfarsnefnd Evrópusambandsþingsins hefur sett reglur sem banna þingfulltrúum að ávarpa þingkonur með fröken og frú. Þetta kemur fram í sérstökum bæklingi um kynhlutleysi orða sem nefndin gaf út á dögunum. Einu gildir hvaða tungu þingfulltrúarnir tala, fröken og frú eru bannaðar í ávarpi; “miss” og “mrs”, “frau” og “fraulein”, “senora” og “senorita” og svo framvegis.

Þá er einnig framvegis óheimilt að nota starfsheiti sem fela í sér kyngreiningu svo sem lögreglumaður, slökkviliðsmaður og flugfreyja. Höfundar bæklingsins viðurkenna að þeir hafi lent í vandræðum með ljósmóðurheitið því ekkert kynhlutlaust orð geti með góðu móti komið í stað þess. Sömu vandræðasögu sé að segja um þjón og þjónustustúlku.

Struan Stevenson, skoskur Evrópusambandsþingmaður, segir bæklinginn bera vott um að siðferðileg rétthugsun starfsbræðra sinna sé við brjálsemismörk. Þetta rifji upp tilraunir þeirra til að banna sekkjapípur og setja staðlaðar reglur um bananastærð.

Heimild:
Bannað að segja madam (Rúv.is 16/03/09)
Euro chiefs ban ‘Miss’ and ‘Mrs’ (Telegraph.co.uk 15/03/09)

Meirihluti Íslendinga sem fyrr andvígur umsókn um inngöngu í ESB

Í þriðju skoðanakönnuninni í röð frá áramótum sem gerð er fyrir Fréttablaðið mælist afgerandi meirihluti Íslendinga andvígur því að sótt verði um inngöngu í Evrópusambandið. Samtals vilja 45,5% sækja um inngöngu en 54,5% eru því andvíg. Þetta er nánast sama niðurstaða og í könnun sem gerð var fyrir blaðið í febrúar. Í sambærilegum könnunum sl. haust mældist mikill meirihluti hlynntur umsókn um inngöngu en ljóst er að síðan hefur orðið alger viðsnúningur.

Heimild:
Engin breyting á viðhorfi til aðildarumsóknar (Fréttablaðið 16/03/09)
Lítil breyting á ESB-afstöðu (Vísir.is 16/03/09)

Þung sleggja ESB og evrunnar dynur á Lettum

Efnahagsástandið í Lettlandi er grafalvarlegt og hefur landinu verið líkt við veikasta hlekkinn í brothættri keðju hagkerfa aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB). Álagið á hagkerfið var slíkt að stjórnvöld neyddust til þess að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), ESB og Norðurlandanna eftir neyðarláni að andvirði tæpra tíu milljarða Bandaríkjadala. Meðal skilyrða lánsins var að fjárlagahalli stjórnvalda í Ríga mætti ekki fara yfir 5% af landsframleiðslu á þessu ári.

Vegna þessa neyðast stjórnvöld nú til þess að beita niðurskurðahnífnum á ríkisútgjöld á sama tíma og þau fást við meiriháttar efnahagssamdrátt, miklar erlendar skuldir, verðbólgu, viðvarandi viðskiptahalla og flótta erlends fjármagns frá landinu. Sökum þess að Lettar eru þátttakendur í ERM 2 gjaldmiðlasamstarfinu – sem er skilyrt aðlögunarferli upptöku evru – geta þeir ekki spornað við þverrandi samkeppnishæfni hagkerfisins með því að leyfa gengi gjaldmiðils landsins að falla.

Þvert á móti þurfa stjórnvöld að beita takmörkuðum gjaldeyrisforða til þess að verja frekar ósveigjanlegt fastgengi gagnvart evru, en fjármagnsflótti hefur sett mikinn þrýsting á gengið undanfarin misseri. Aðlögun hagkerfisins að hríðversnandi efnahagsástandi þarf því að mestu fara fram í gegnum lækkun raunlauna, minnkandi eftirspurn og þar af leiðandi stóraukið atvinnuleysi.

Nánar var fjallað um þá erfiðleika sem Lettar eiga við að glíma og sem evran hefur ekki gert betri í Viðskiptablaðinu 12. mars sl.

Heimild:
Þung sleggja ESB og evrunnar dynur á Lettum (Vb.is 12/03/09)

Segir Íslendinga ekki geta ætlast til þess að fá undanþágur

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingmann Samfylkingarinnar og fyrrum umhverfisráðherra, um umhverfismál og alþjóðasamvinnu. Þórunn gagnrýnir þar harðlega þá sem vilja að Ísland fái undanþágur frá alþjóðlegum skuldbindingum í loftlagsmálum og lýsir þeirri skoðun sinni að Íslendingar geti ekki ætlast til þess að fá slíkar undanþágur. Orðrétt segir Þórunn í greininni:

„Það eru nefnilega gjarnan sömu einstaklingar og sömu flokkar sem hafna því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og þeir sem vilja einnig að Íslendingar fái sérstaka og ívilnandi meðferð í alþjóðlegu loftslagssamningaviðræðunum sem nú standa yfir. Þetta eru öfl sem virðast líta svo á að Íslendingum sé ekki bara betur borgið á jaðri alþjóðlegs samstarfs, heldur eigi þeir beinlínis rétt á því að fleyta rjómann, fljóta með, njóta sérmeðferðar og undanþága. Ég er ekki þeirrar skoðunar.“

Ekki er hægt að skilja Þórunni öðruvísi en svo að hún telji Íslendinga ekki heldur geta ætlast til þess að fá neinar undanþágur ef til þess kæmi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið. Ekki er ósennilegt að Þórunn hafi einfaldlega gert sér grein fyrir því að ef til slíkrar umsóknar kæmi yrði í raun ekkert að semja um. Annað hvort yrði gengið að skilyrðum sambandsins fyrir inngöngu eða ekki.

Heimild:
Einangrun er ekki kostur (Morgunblaðið 13/03/09)

Segir Lettland verða gjaldþrota í júní að óbreyttu

Evrópusambandsríkið Lettland verður gjaldþrota í júní takist þarlendum stjórnvöldum ekki að skera niður ríkisútgjöld eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) krefst. Þetta hefur Bloomberg fréttaveitan eftir Valdis Dombrovskis, verðandi forsætisráðherra landsins. Lettar fengu í desember sl. alþjóðlega aðstoð undir forystu AGS upp á 7,5 miljarða evra. Eitt af skilyrðunum sem sett var fyrir aðstoðinni var að hallinn á fjárlögunum lettneska ríkisins yrði haldið innan við 5%.

Dombrovskis vill nú að AGS samþykki fjárlagahalla upp á 8%, að öðrum kosti sé hætta á því að efnahagslífið í Lettlandi stöðvist alveg. Hann segir að varla sé gerlegt að halda fyrra markmiðinu um fjárlagahalla. Skilmálarnir hafi verið samþykktir miðað við 5% samdrátt í lettnesku efnahagslífi en nú sé því spáð að samdrátturinn verði 12% og jafnvel enn meiri. Fái Lettar ekki næstu útborgun á aðstoðinni vegna þess að þeir brjóti gegn skilyrðunum fyrir henni verði Lettland gjaldþrota í júní.

Heimild:
Lettland: Gjaldþrot í júní? (Rúv.is 10/03/09)

Frambjóðendur sjálfstæðismanna í Reykjavík og afstaðan til Evrópumála

Hjörtur J. Guðmundsson fjallar í dag á bloggsíðu sinni um afstöðu frambjóðenda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík til Evrópumála og birtir lista yfir afstöðu þeirra sem byggður er á úttekt sem gerð var af Vilborgu Hansen. Samkvæmt listanum eru samtals 15 af 29 frambjóðendum andvígir því að sótt verði um inngöngu í Evrópusambandið og þrír til viðbótar sem telja það ekki tímabært. Listi Hjartar í heild fer hér á eftir:

Eru andvíg umsókn um inngöngu í Evrópusambandið (16):

 • Birgir Ármannsson
 • Elinóra Inga Sigurðardóttir
 • Erla Ósk Ásgeirsdóttir
 • Grazyna María Okuniewska
 • Gréta Ingþórsdóttir
 • Guðfinnur S. Halldórsson
 • Hjalti Sigurðsson
 • Jón Kári Jónsson
 • Loftur Altice Þorsteinsson
 • Pétur H. Blöndal
 • Sigríður Ásthildur Andersen
 • Sigurður Kári Kristjánsson
 • Valdimar Agnar Valdimarsson
 • Þorvaldur Hrafn Ingvason
 • Þórlindur Kjartansson

Segja ekki tímabært að sækja um inngöngu í Evrópusambandið (3):

 • Jórunn Frímannsdóttir Jensen
 • Sigríður Finsen
 • Sveinbjörn Brandsson

Segjast andvíg inngöngu í Evrópusambandið en vilja engu að síður viðræður um inngöngu (3):

 • Ásta Möller
 • Guðlaugur Þór Þórðarson
 • Illugi Gunnarsson
 • Ólöf Nordal

Segjast vilja að sótt verði um inngöngu í Evrópusambandið til að sjá hvað sé í boði (7):

 • Dögg Pálsdóttir
 • Guðmundur Kjartansson
 • Guðrún Inga Ingólfsdóttir
 • Gylfi Þór Þórisson
 • Ingi Björn Albertsson
 • Jón Magnússon
 • Kolbrún Baldursdóttir

Heimildir:
Frambjóðendur sjálfstæðismanna í Reykjavík og afstaðan til Evrópumála (Sveiflan.blog.is 11/03/09)
Blogg Vilborgar Hansen

Efnahagslögsögur Íslands og ESB

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Pál Bergþórsson, fyrrum veðurstofustjóra, þar sem hann minnti á þann gríðarlega mun sem er á efnahagslögsögu Íslands annars vegar og efnahagslögsögu Evrópusambandsins hins vegar og hversu stóran spón úr aski sínum Íslendingar myndu missa í þeim efnum ef Ísland yrði gert að hluta af sambandinu.

„Efnahagslögsaga á hafinu kringum Ísland nær 200 sjómílur út frá annesjum og telst vera 758 þúsund ferkílómetrar. Af áætluðum 323 þúsundum íbúa árið 2009 koma því 2,347 ferkílómetrar handa hverjum þeirra.

Efnahagslögsaga Evrópusambandsins er sjö sinnum stærri, 5,3 milljónir ferkílómetra. Þar búa um 380 milljónir manna sem svarar til 0,014 ferkílómetra á hvern íbúa. Þetta má ráða af Almanaki fyrir Ísland og grein á netinu, EEZ in Europe eftir Juan Luis Suárez de Vivero, prófessor í háskólanum í Seville.

Ef Evrópusambandið næði undir sig íslensku efnahagslögsögunni, þýddi það 14% stækkun hennar fyrir hvern íbúa. Íslendingar fengju hins vegar smækkun síns hlutar um 99,3% á hvern íbúa. Er nema von að einhverjir hjá ESB hyggist nota efnahagshrunið á Íslandi til að ná því undir vængi sína?“

Heimild:
Efnahagslögsaga Íslands og Evrópusambandsins (Morgunblaðið 10/03/09)

Aðvörun prófessors um „sjálfsmorð Íslands“

Hvar er hin róttæka og upplýsta umræða þar sem allt er lagt í rökræðu til að upplýsa almenning. Stundum verður maður kjaftstopp yfir yfirlýsingum frá hæfum mönnum sem segja hluti svo afdráttarlaust að maður býst við að fjölmiðlar landsins logi í átökum manna um sjónarmiðin næstu daga. Voru allir heyrnarlausir síðasta þriðjudagskvöld eða hvað veldur þögninni?

Bogi Ágústsson, fréttamaður RÚV, er einn reyndasti og virtasti blaðamaður Íslendinga. Þættir hans á þriðjudagskvöldum í Sjónvarpinu í vetur hafa bæði verið upplýsandi og oft mikilvægt framlag til kynningar á viðhorfum merkra erlendra manna.

Það gerðist síðasta þriðjudagskvöld að mættur var til Boga einn fremsti hagfræðingur Bandaríkjanna, Kenneth Rogoff frá Harward-háskóla. Maður sem starfað hefur fyrir ríkisstjórn og Seðlabanka Bandaríkjanna og verið prófessor við Standford-háskóla.

Til Íslands var hann kallaður af forsætisráðherrum Norðurlanda til að ræða um kreppur og viðbrögð við efnahagshruni enda sérfróður á þessu sviði og mikilsvirtur um veröld alla. Í lok viðtalsins spyr Bogi þennan einn fremsta hagspeking Bandaríkjanna um ástandið og horfur á Íslandi. Það stóð ekki á svörum eða sterkum lýsingarorðum fræðimannsins. Hann svaraði á þá leið: Íslendingar skyldu nú þakka sínum sæla að hér var krónan [illræmda; innskot GÁ]. Hefðu Íslendingar verið með evru í bankahruninu hefði hér orðið stórslys eða þjóðargjaldþrot. Síðan bætti Kenneth við:

„Ef Íslendingum dytti nú í hug að taka upp evru í miðri kreppunni væri það tilraun til sjálfsmorðs.“

Hann sagði að vísu að það gæti komið til greina síðar. En jafnframt bætti hann því við að nú myndu mörg ríki Evrópu hverfa frá evru sem gjaldmiðli sínum. Þetta teljast nú afgerandi skoðanir, eða hvað?

Sá sem þetta ritar bjóst við hörðum viðbrögðum næstu daga. Enn lýsi ég eftir viðbrögðum fjölmiðlanna. Þau eru nánast engin.

Hér á landi hefur farið fram mikill áróður fyrir evru og aðild að Evrópusambandinu. Oftast einhliða umræða. Töluvert blinduð af oftrú og dekri við Evrópusambandssjónarmiðin. Fjölmiðlar landsins hafa verið notaðir óspart í þessa veru. Stundum hefur mér fundist að stjórnmálamenn væru nánast heilaþvegnir og skiptu um skoðun í þessu máli á undarlegan hátt. Stjórnmálaflokkarnir s.s. Samfylkingin sér Evrópusambandið í hillingum og bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa greinilega óttast að vera gamaldags eða úti í kuldanum ef þeir tækju ekki trúna á evru og Evrópusambandið.

Hitt taldi ég reyndar fráleitt að íslenskir fræðimenn við háskólana væru í pólitískum drullupolli orðræðunnar fremur en að þjóna fræðigrein sinni og hlutleysi. Oft tala þeir líkar stjórnmálamönnum en vísindamönnum þegar þeir ræða evruna og Evrópusambandið. Nú vill sá sem á þetta viðtal hlýddi heyra skoðun kollega þessa manns. Hver er skoðun íslenskra hagfræðinga á þessum lýsingum dr. Kenneth? Er prófessorinn á villigötum eða málflutningurinn hér heima? Hvar er nú fjölmiðlavaldið á Íslandi? Er það aðeins tilbúið að ræða aðra hlið þessa máls, þ.e. upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu. Neikvæðar hliðar umræðunnar eru ekki settar á dagskrá. Leiðarahöfundar stóru blaðanna halda sínu striki og leiða hagfræðiprófessorinn hjá sér. Banna þeir umfjöllun um stór orð hans, eða hvað?

Enginn fjölmiðill spyr forsætisráðherrann Jóhönnu Sigurðardóttur um þessi ummæli eða neinn þann sem hefur boðað fagnaðarerindið um evru sem algilda lausn. Hvar er Kastljós ríkissjónvarpsins? Af hverju leiðir það ekki fram okkar færustu hagfræðinga eða lykilstjórnmálamenn. Bogi Ágústsson hefur unnið þarft verk. Viðtal við Kenneth kallar á rökræðu um evruna og fullyrðingar sem snúa að framtíð Íslands. Er umræðan meðal íslenskra fræðimanna og evrusinnaðra stjórnmálamanna á þeim villigötum sem Kenneth Rogoff leiddi líkum að um að þeir séu tilbúnir til að leiða íslensku þjóðina út í sjálfsmorð? Þannig orðaði hann það á RÚV að sú yrði afleiðing þess að taka upp evru nú.

Guðni Ágústsson,
fyrrv. formaður Framsóknarflokksins