Svíar betur settir með sænsku krónuna en evru

Útflutningsverðmæti Svía hafa aukist árlega um 30 milljarða sænskra króna (um 450 milljarða íslenskra króna) þar sem þeir hafa kosið að halda í krónuna í stað þess að skipta henni út fyrir evru að sögn aðalhagfræðings Útflutningsráðs Svíþjóðar, Mauro Gozzo. Í samtali við sænska ríkissjónvarpið í morgun sagði hann ennfremur að ef gengi krónunnar hefði verið mjög hátt, eins og gengi evrunnar hefur verið, hefði efnahagskreppan komið miklu harðar niður á Svíum og atvinnuleysi t.a.m. aukist hraðar.

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar í Svíþjóð benda til þess að 47% Svía séu nú hlynnt því að skipta sænsku krónunni út fyrir evru en 45% á móti því. Stuðningurinn nú skýrist af efnahagskreppunni sem herjar á heiminn og hefur haft slæm áhrif á sænskt efnahagslíf eins og annars staðar. Þar til nú höfðu allar skoðanakannanir í Svíþjóð sýnt mikinn meirihluta gegn upptöku evrunnar síðan Svíar afþökkuðu hana með 56% atkvæða í þjóðaratkvæði í september 2003.

Þess má geta að þegar sænsk stjórnvöld ákváðu að halda þjóðaratkvæðið höfðu niðurstöður skoðanakannana ítrekað sýnt meirihlutastuðning við evruna en eftir að andstæðar fylkingar höfðu tekist á um málið snerist það algerlega við. Afleiðing þess var m.a. sú að þáverandi forsætisráðherra Svía, Göran Persson, lýsti því yfir nokkru síðar að ekki yrði kosið um Stjórnarskrá Evrópusambandsins (sem nú kallast Lissabon-sáttmálinn).

Fram kemur í frétt hjá sænska ríkisútvarpinu í dag að aðeins einn sænskur stjórnmálaflokkur sé hlynntur því að halda nýtt þjóðaratkvæði um evruna, Frjálslyndi þjóðarflokkurinn, sem vill að það fari fram á næsta ári, en flokkurinn fékk 7,5% fylgi í þingkosningunum 2006.

Heimildir:
Miljardvinster på att stå utanför euron (Svt.se 20/04/09)
“JA till euron” (Svt.se 20/04/09)

Háðir geðþóttavaldi ókjörinna embættismanna ESB

Fjallað var um óánægju Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á Dv.is í gær með það að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skyldu koma í veg fyrir að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskrá lýðveldisins. Ein breytinganna var sú að hægt yrði að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu í stað þess að tvö þing þyrftu að samþykkja breytingar á henni með almennum kosningum á milli. Ljóst er að Samfylkingin leit á þessa breytingu sem mikilvægt skref á þeirri leið að koma Íslandi undir yfirráð Evrópusambandsins.

Á Dv.is er haft eftir Árna Páli að Willy Brandt, fyrrum kanslari Þýskalands, hafi eitt sinn sagt að Evrópusambandið, þ.e.a.s. forveri þess, væri „besta tækið sem fundið hefði verið upp til þess að frelsa óbreytta borgara undan geðþóttavaldi stjórnmálamanna og stjórnvalda í aðildarríkjunum.“ Staðreyndin er þó sú að ef Íslendingar gengjust undir yfirráð Evrópusambandsins yrðu þeir háðir geðþóttavaldi stjórnmálamanna sem kosnir væru af kjósendum annarra ríkja en þó fyrst og fremst embættismönnum sambandsins sem enginn kýs.

Heimild:
Svipa Evrópusambandsins (Dv.is 17/04/09)

Evrópusambandsþingið hefur mun meiri völd en það sænska

Kosningar til þings Evrópusambandsins fara fram þann 4. júní nk. en þær eru haldnar á fimm ára fresti í ríkjum sambandsins og hafa verið í þrjá áratugi. Það sem einkum hefur einkennt þessar kosningar er að þátttaka í þeim hefur stöðugt dregist meira saman og sáu aðeins 45,5% kjósenda í ríkjum Evrópusambandsins ástæðu til að taka þátt þegar kosningarnar fóru síðast fram árið 2004.

Ráðamenn í Evrópusambandinu hafa haft miklar áhyggjur af þessari þróun og hefur mikið verið reynt til þess að stuðla að aukinni þátttöku í kosningunum. Sama á t.a.m. við um fjölmiðla sem hallir eru undir sambandið. Nú síðast hvatti leiðari sænska dagblaðsins Göteborgs-Posten Svía til þess að taka þátt í kosningunum m.a. á þeim forsendum að Evrópusambandsþingið hefði miklu meira um fjölmörg mál að segja en sænska þingið.

Heimild:
Krönika 16/4: EU-valet är på allvar (Gp.se 15/04/09)

Hvað mælir gegn aðild að Evrópusambandinu?

Undirritaður er stundum spurður að því hvað valdi því að ég sé mótfallinn því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Sumir gefa til kynna að í þessu felist útúrboruháttur og jafnvel gamaldags þráhyggja. Hér á eftir vil ég draga saman nokkur þau atriði sem ráða afstöðu minni og eins og menn geta ráðið af lestri greinarinnar eru ástæðurnar margar og sumpart samslungnar. Mér hefur löngum þótt það ljóður á annars líflegri umræðu um Evrópusambandið þegar fólk bindur sig við aðeins eitt álitamál við mat á sambandinu, til dæmis spurninguna um gjaldmiðil, svo áhugaverð sem hún vissulega getur verið.

 
Fullveldisafsalið
Við blasir að aðild að Evrópusambandinu fylgir fullveldisafsal á mörgum sviðum. Stofnanir Evrópusambandsins eru bærar um að taka ákvarðanir fyrir aðildarríkin samkvæmt nánari reglum og fara því með þau málefni sem þannig eru lögð undir sambandið. Samruni í átt að sambandsríki hefur einkennt þróun Evrópusambandsins en um það efni ríkir mikil togstreita innan þess. Dómstóll ESB með aðsetur í Lúxemburg hefur iðulega tekið mið af markmiðum stofnsáttmála þess sem kveður á um samruna og dómar hans eru yfirþjóðlegir, þ.e. æðri dómsvaldi aðildarríkjanna.      

Í framkvæmdastjórn ESB sitja nú 27 kommissarar, einn tilnefndur af hverju aðildarríki. Sérstaklega er kveðið á um að viðkomandi sé ætlað að gæta hagsmuna sambandsins í heild en ekki ganga erinda viðkomandi ríkis. Innan framkvæmdastjórnarinnar starfa nú um 25 þúsund embættismenn. Á Evrópuþinginu sitja alls 785 kjönir fulltrúar, þar af 5 frá Möltu sem er fámennasta ríki sambandsins með um 400 þúsund íbúa. Fulltrúatalan lækkar lítilsháttar eftir næstu kosningar til þingsins í júní 2009. Þingið hefur mjög takmörkuð völd. Í hlut Íslands kæmu  5-6 þingmenn alls, þ.e. innan við eitt prósent af heildarfjölda þingmanna.

Á EES-samningnum og ESB-aðild er mikill munur bæði um eðli og umfang. Sá fyrrnefndi tekur fyrst og fremst til ákvæða um innri markað ESB og kallaði á sínum tíma ekki á stjórnarskrárbreytingu að mati meirihluta Alþingis. Evrópusambandið er tollabandalag, þ.e. án tolla milli aðildarríkja, en sameiginlegur tollmúr er gagnvart ríkjum utan þess. Fríverslunarsamningar af hálfu einstakra aðildarrríkja við lönd utan sambandsins eru útilokaðir.

Utanríkisstefna ESB og Sameinuðu þjóðirnar
Evrópusambandið hefur smám saman verið að taka yfir fjölþætt verkefni af aðildarríkjum sínum á sviði utanríkis- og öryggismála og færa þau undir framkvæmdastjórnina í Brussel og fleiri stofnanir. Þetta gerðist fyrst að marki með Amsterdam-sáttmála ESB 1999 og frekari breytingum síðar. Efnt var þá til embættis talsmanns utanríkis- og öryggismála, sem kemur fram fyrir ESB-ríkin að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina (nú Javier Solana). Opnað hefur verið fyrir  þátttöku Evrópusambandsins í hernaðarátökum í takmörkuðum mæli (EUFOR), fyrst á Balkanskaga árið 2003 og síðan á fleiri stöðum, m.a. í Afríku. Í Afganistan annast ESB nú einkum þjálfun þarlendra lögreglusveita. Hervæðing á vegum sambandsins er umdeilt og viðkvæmt mál, sem átti sinn þátt í að Lissabon-sáttmálinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi sumarið 2008.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna samræmir ESB afstöðu aðildarríkja sinna og talar á Allsherjarþinginu nær alltaf einni röddu gegnum fulltrúa þess ríkis sem fer með formennsku hverju sinni. Það á einnig við um 6 aðalnefndir allsherjarþingsins og ECOSOC (Efnahags- og félagsmálaráðið). Innan Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) fer ESB með samningsumboð allra ríkjanna svo og í GATT-viðræðum. ESB hefur auk þess allt frá 1990 talað einni röddu á öllum stórum alþjóðaráðstefnum Sameinuðu þjóðanna þannig að einstök aðildarríki koma þar ekki fram með sjálfstæðum hætti. Fulltrúum ESB-ríkja í Öryggisráðinu ber að upplýsa önnur aðildarríki um afstöðu sína. Á opnum fundum Öryggisráðsins talar fulltrúi formennskuríkis ESB hverju sinni fyrir hönd sambandsins. – Ef Ísland yrði aðili að ESB myndi sjálfstæð rödd þess að mestu hljóðna hjá Sameinuðu þjóðunum og á alþjóðaráðstefnum á þeirra vegum.

Þrengt að lýðræði
Miðstýrt og ólýðræðislegt stjórnkerfi Evrópusambandsins blasir við hvert sem litið er. Framkvæmdastjórnin í Brussel, skipuð embættismönnum sem áður greinir, er eina stofnun sambandsins sem lagt getur fram lagafrumvörp en efni þeirra eru m.a. væntanlegar tilskipanir. Evrópuþingið svonefnda hefur aðeins umsagnarrétt um slík frumvörp, þarf að vísu að samþykkja fjárlög og getur beitt stöðvunarvaldi í vissum tilvikum. Frumvörpin þurfa síðan samþykki ráðherraráðsins eftir tilteknum reglum um atkvæðavægi, sem getur verið misjafnt eftir málasviðum.

Fjarlægar valdastofnanir ESB í Brussel (framkvæmdastjórnin), Strassburg (þingið) og Lúxemburg (dómstóllinn) ýta undir pólitískt sinnuleysi og gefa lítið sem ekkert færi á lýðræðislegu aðhaldi. Að stofnunum þessum safnast herskarar launaðra lobbyista, einkum á vegum stórfyrirtækja og hagsmunasamtaka.

Evrópusambandinu fylgir samþjöppun valds á sama tíma og almennt er krafan um valddreifingu. Áhugi almennings á störfum þess er að jafnaði sáralítill. Kemur það m.a. fram í lítilli kosningaþáttöku til  Evrópuþingsins sem víða er helmingi minni en til þjóðþinga og fer jafnvel niður í 20%. Vegna fjarlægðar er eftirlitsvald af hálfu kjósenda líka hverfandi.

Ógnarlegt skrifræði hefur einkennt margt í starfsemi ESB og hefur orðið einskonar vörumerki sambandsins. Hefur það síst minnkað eftir því sem aðildarríkjum fjölgar. Þá er ótalin sú uppskera af starfi ESB að markaðurinn hefur þrengt sér æ meira mæli inn á svið opinberrar þjónustu.

Skert forræði yfir auðlindum
Við blasir að forræði aðildarríkja ESB yfir náttúruauðlindum tapast eða er stefnt í tvísýnu með aðild þeirra að sambandinu. Þannig myndu Íslendingar missa úrslitavald yfir sjávarauðlindum sínum og forræði þeirra færast undir ákvörðunarvald (exclusive competence) ESB. Hætt er jafnframt við að misheppnuð fiskveiðistjórn ESB, sem einkennst hefur af ofveiði og margháttaðri óreiðu, yfirfærist á Ísland.

Með aðild að ESB félli brott réttur Íslands til að gera samninga við ríki utan ESB og við ESB sjálft, t.d. um nýtingu flökkufiskistofna sem eru um 30% verðmætis fiskafla upp úr sjó hérlendis (m.a. loðna, norsk-íslenska síldin, kolmunni, grálúða, úthafskarfi). Við hlýnun sjávar bætast við fleiri tegundir, nú síðast makríll, sem Íslendingar gera tilkall til, en með ESB-aðild félli brott réttur Íslands til samninga um nýtingu slíkra stofna.

Ráð yfir öðrum náttúruauðlindum, m.a. jarðvarma og fallorku, yrði stefnt í óvissu, a.m.k. á landsvæðum í einkaeign.
Þá liggur fyrir að loftslagsmál og aðild að lofstlagssamningum yrðu færð undir forræði ESB.

Ósveigjanleg efnahagsstefna
Efnahagsleg þungamiðja ESB er gamli 6-ríkja kjarni Kola- og stálbandalagsins með þýsk auðfélög í fararbroddi. Efnahagsstefna sambandsins miðast við að styrkja samkeppnisstöðu stórfyrirtækja í hnattvæddum viðskiptum, einkum gagnvart Bandaríkjunum og Japan. Innan ESB hefur markaðsfrjálshyggja sótt á eins og víðar og einkavæðing þrengt að velferðarþjónustu og jöfnuði.

Efnahags- og myntbandalagið (EMU), með evru sem gjaldmiðil frá árinu 2002 að telja, samanstendur nú af 16 ríkjum með um 325 milljónir íbúa af alls um 500 milljónum í ríkjunum 27. Seðlabanki Evrópu, stofnaður 1998 með aðsetur í Frankfurt, fer með peningamálastefnu Evrusvæðisins og ákveður vaxtastig. Svonefnd Maastricht-skilyrði (samleitniskilyrði), fjögur talsins, skapa rammann um myntsamstarfið og fela í sér eftirfarandi:

  • Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB-ríkjum með lægstu verðbólguna.
  • Langtíma-stýrivextir mega ekki vera meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugast.
  • Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu.
  • Aðild að gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils hafi haldist innan ákveðinna vikmarka.

Þessi skilyrði setja evru-ríkjunum stífan ramma sem þau eru bundin af og getur hann leitt til alvarlegra erfiðleika í efnahagsstjórn bæði á krepputímum eins og nú ganga yfir og þess utan. Dæmi: Írland. Ísland er mjög langt frá því að uppfylla ofangreind skilyrði og upptaka evru væri því ekki í sjónmáli, þótt landið væri orðið aðili að ESB. Hagsveiflur eru ólíkar á Íslandi og í ESB og oft á allt öðrum tíma. Evru-binding, án möguleika á gengisaðlögun, gæti þannig leitt til langvarandi efnahagserfiðleika hérlendis.

Viðvarandi og mikið atvinnuleysi
Atvinnuleysistig hefur verið hátt innan Evrópusambandsins sögulega séð, þó misjafnt eftir löndum. Um skeið tókst að ná því niður í 6-7% að meðaltali en síðustu tvö árin hefur það vaxið til muna og er nú að meðaltali 8% í aðildarríkjunum. Verst er ástandið á Spáni með 15.5% atvinnuleysi (mars 2009), í Lettlandi og Litáen um og yfir 14% og á Írlandi 10%. Í Þýskalandi er atvinnuleysi nú 8,6%, tvöfalt meira í landinu austanverðu en í vesturhlutanum.
Alvarlegast er atvinnuleysið hjá ungu fólki á aldrinum 15–24 ára og nemur nú að meðaltali 17,5% á öllu ESB-svæðinu. Verst er ástandið hjá þessum aldurshópi á Spáni um 32%, í Svíþjóð 24% og í Ungverjalandi 22% svo dæmi séu nefnd.

Víða á landsbyggð innan ESB er atvinnuleysi langt yfir landsmeðaltali, og almennt er staða landsbyggðar og jaðarsvæða veik og hömlur lagðar á stuðningsaðgerðir. Landbúnaður á jaðarsvæðum hefur víðast hvar átt mjög í vök að verjast, þrátt fyrir niðurgreiðslur til bænda. Það er mat hagsmunasamtaka bænda hérlendis að aðild að ESB færi langt með að kippa grundvelli undan hefðbundnum íslenskum landbúnaði. Við það bætist augljós og aukin hætta af dýrasjúkdómum.

Umhverfivernd víkjandi
Þótt margt jákvætt hafi gerst á sviði umhverfismála innan Evrópusambandsins og undir merkjum Umhverfisstofnunar Evrópu sem Ísland er aðili að, gildir um ESB það sama og í öðrum iðnvæddum ríkjum að umhverfissjónarmið og náttúruvernd eiga undir högg að sækja. Samkeppnissjónarmið og vaxtarhagfræðin með óheftu streymi vöru og fjármagns hafa yfirhöndina og styðjast við sterka stöðu í tilskipunum ESB. Þar við bætast beint og óbeint reglur Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) þar sem umhverfisvernd er víkjandi.

Við undirbúning að innri markaðinum um 1990 kom skýrt fram í „Taskforce-skýrslu“ framkvæmdastjórnar ESB að markmið innri markarins samræmdust illa hugmyndum um sjálfbæra þróun, m.a. myndi flutningsstarfsemi innan ESB-svæðisins aukast um 30–50%.

Undanfarið hefur flug milli ESB-landa aukist gífurlega og fylgja því margháttuð umhverfisvandamál.
Síðasta heildarúttekt Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) frá árinu 2005 ber vott um að þrátt fyrir jákvæðan árangur á ýmsum sviðum eru vistfræðileg fótspor ESB (ecological footprints) margföld umfram það sem sjálfbært getur talist.
Bæði orkunotkun og losun gróðurhúsalofts hefur fram að þessu farið vaxandi á ESB-svæðinu og eiga ríkin og sambandið í heild í erfiðleikum við að ná settum markmiðum í loftslagsmálum.

Dómstóll ESB hefur í úrskurðum sínum orðið til þess að veikja enn frekar svonefnda umhverfistryggingu (grein 101 A), sbr. PCB-dóminn frá árinu 1994. Nýjar reglur á umhverfissviði eru ýmist háðar auknum meirihluta aðildarríkja ESB eða samþykki þeirra allra. Þannig geta einstök ríki og ríkjahópar komið í veg fyrir réttarbætur í þágu umhverfisins.

Afdrifaríkt í samhengi umhverfismála er að aðildarríki ESB eru svipt samningsumboði á umhverfissviði og í samningum við ríki utan sambandsins. Hefur þetta veikt framsækin öfl og dregið úr árangri í þágu umhverfisverndar innan þess. Svipað á við á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem ESB talar oftast fyrir öll aðildarríki sín.

Þróun umhverfisréttar hefur almennt náð bestri fótfestu í skjóli frumkvæðis Sameinuðu þjóðanna, sbr. Ríó-ráðstefnuna, og í svæðisbundinni samvinnu ríkja, svo sem í Norðurlandaráði og Norðurheimsskautsráðinu og á vettvangi Árósasamningsins sem Ísland er loks að verða aðili að.

Félags- og jafnréttismál
Innan ESB hefur opinber þjónusta átt undir högg að sækja og það sama á við um
samningsstöðu launafólks, m.a. tengt ákvæðum fjórfrelsisins svonefnda og viðvarandi atvinnuleysi. Launamunur hefur farið stigvaxandi og þeim fjölgað til muna sem lokast af í fátæktargildrum.

Einstök fátækari ESB-ríki hafa vissulega notið góðs af styrkjakerfi sambandsins sem ríkari aðildarlöndin standa undir fjárhagslega, en með stækkun sambandsins hefur dregið úr þeim ávinningum og þeir minnkað hlutfallslega.
Heilbrigðisþjónusta hefur verið gefin “frjáls” þvert á landamæri skv. úrskurðum ESB dómstólsins, og leiðir það til mikils stjórnunarvanda á heilbrigðissviði í ríkjum sambandsins.

Láglaunastefna sækir nú á með undirboðum milli landa, m.a. í skjóli þjónustutilskipunar ESB, og fylgja því rýrð réttindi og kjör launafólks. Erlend fyrirtæki og undirverktakar þeirra geta nú greitt laun eins og í heimalandi væri, þvert á kjarasamninga viðkomandi ríkis þar sem starfsemin fer fram (Laval-málið). Vinnuréttur er nú orðinn hluti af ESB-rétti fyrir tilstilli dómstóls ESB, en áður var staðhæft að slíkt kæmi ekki til álita (Vaxholm-dómurinn frá 22. des. 2007 og Viking Line-dómurinn frá 5. jan. 2008)


 
Í þessari samantekt hefur verið fjallað um mörg atriði sem hafa þarf í huga þegar fjallað er um Evrópusambandið þegar lagt er mat á starfsemi þess. Öðru fremur hefur hér verið bent á það sem neikvætt er að margra hyggju eða varhugavert út frá íslenskum sjónarhóli en það eru einmitt slík atriði sem skoða þarf vandlega þegar íslenskir hagsmunir eru annarsvegar og þróun samskipta við þennan volduga granna. Hver sem framvindan verður er það eftir sem áður sjálfsagt markmið af Íslands hálfu að eiga góð samskipti við Evrópusambandið og einstök aðildarríki þess, bæði á efnahags- og menningarsviði sem og í umhverfis- og félagsmálum.

Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur

(Birtist áður á heimasíðu höfundar)

Evrópusambandssinni gefst upp á Evrópusambandinu

Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri, hefur gefist upp á að tala fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Hann hefur verið verið einhver ötulasti talsmaður inngöngu á undanförnum árum og talað fyrir því í 15 ár að eigin sögn. Í færslu á bloggi sínu í gær sagði hann m.a. að Evrópusambandið væri ekki vara sem seldist og að það væri fjarlægara venjulegu fólki en nokkurn tímann áður. Orðrétt sagði Jónas:

„Ekki skána óvinsældir Evrópu. Fólk vill ekki einu sinni viðræður um aðild, hvað þá aðild. Evrópa er ekki vara sem selst. Ég hef lengi verið fylgjandi aðild, aðallega af því að skárra er að vera innanborðs en úti í kuldanum. Þegar ég byrjaði að mæla með aðild fyrir fimmtán árum, vonaði ég, að Evrópa mundi fljótlega skána. Áhrif kjósenda mundu aukast og Evrópusambandið mundi færast nær almenningi. Sú hefur ekki orðið raunin. Evrópa er fjarlægari fólki en nokkru sinni fyrr. Skriffinnum hennar hefur gersamlega mistekizt að pakka sambandinu inn í seljanlegar umbúðir. Þeir fá núll í almannatengslum.“

Heimild:
Fá núll í almannatengslum (Jonas.is 12/04/09)

Meirihluti Íslendinga vill ekki sækja um inngöngu í ESB

Meirihluti Íslendinga er sem fyrr andvígur því að sótt verði um inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrir Fréttablaðið og Stöð 2 sem birt var í gær. 54,4% eru nú andvíg því að hafnar verði viðræður við sambandið um inngöngu en 45,6% styðja að það skref verði tekið. Andstaðan við inngöngu hefur lítillega aukist síðan í febrúar og stuðningurinn að sama skapi dregist saman.

Heimild:
Könnun: Meirihluti landsmanna andvígur umsókn um aðild að Evrópusambandinu (Eyjan.is 11/04/09)

Pólitískur talsmaður neytenda?

Gísli Tryggvason, sem gegnir opinberu embætti sem talsmaður neytenda, sagði í nýlegu svarbréfi til nefndar á vegum Stjórnarráðsins um þróun Evrópumála að kjör neytenda myndu batna verulega ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Fullyrti hann að lánakjör myndu stórbatna og verðlag lækka töluvert. Um stórmerkilegar yfirlýsingar er að ræða svo ekki sé meira sagt.

Ummæli Gísla vekja fyrir það fyrsta athygli í ljósi þess að hann setur þau fram sem opinber embættismaður í umsögn til opinberrar nefndar og í annan stað vegna þess að hingað til hafa fáir treyst sér til þess að fullyrða að t.a.m. verðlag lækkaði við inngöngu í sambandið heldur í mesta lagi sagt að það væri mjög líklegt. Jafnvel ekki svokallaðir sérfræðingar í Evrópumálum. Enda hefur reynsla flestra ríkja sem gengið hafa í Evrópusambandið og tekið upp evru sem gjaldmiðil verið sú að verðlag hafi hækkað verulega frá því sem áður var.

En ummæli Gísla þurfa kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að hann var á meðal þeirra sem setti nafn sitt undir yfirlýsingu sem birtist í dagblöðum 28. mars sl. þar sem lýst var yfir stuðningi við inngöngu í sambandið. Pólitísk afstaða Gísla til málsins hefur heldur ekki leynt sér á bloggsíðu sem hann heldur úti í nafni embættis talsmanns neytenda. Fyrrgreind ummæli Gísla geta því eðli málsins samkvæmt ekki skoðast öðruvísi en sem pólitísk .

Heimild:
Kjör neytenda myndu stórbatna við aðild Íslands að ESB (Vísir.is 08/04/09)

Lýðræðinu ógnað meir en nokkru sinni fyrr

myndÍ 100 daga létu stjórnvöld óánægjutón tugþúsunda Íslendinga sem vind um eyru þjóta og sýndu skoðanakannanir sílækkandi fylgi við ríkisstjórnina. Margir kröfðust þess að fá að kjósa á ný og töldu ríkisstjórnina ekki sitja lengur í umboði þjóðarinnar. Háværar raddir úr öllum áttum kölluðu á lýðræði, kölluðu á að stjórnvöld yrðu við vilja fólksins. Loks varð úr að stjórnin sprakk með látum og boðað hefur verið til kosninga með vorinu. Hvort stjórnarslitin hafi orðið vegna deilna um völd, eins og stjórnarliðar vilja láta í veðri vaka, eða vegna hárra mótmæla á Austurvelli og víðar er ekki gott að segja um, en ég trúi að hið síðarnefnda hafi haft eitthvað um það að segja.

Lýðræðishallinn undanfarið

Lengi hefur hallað á lýðræði Íslands að mínum dómi. Ríkisstjórnir liðinna ára hafa einkennst af hroka og eiginhagsmunapoti og Alþingi verið eins konar strengjabrúða í höndum ráðherranna. Lýðræðishallinn hefur þó sjaldan verið meiri en undanfarna mánuði og reiðiöldur almúgans vegna þess aldrei verið hærri. Það er því ekki ósennilegt að krafa um aukið lýðræði og gagnsærri stjórnsýslu verði meðal þess sem kosið verður um í vor.

Lýðræði eða ESB?
En það er ekki einsýnt að eingöngu verði kosið til Alþingis í vor heldur eru blikur á lofti um jafnhliða kosningar um hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mótmælin undanfarið hafa endurspeglað fólk sem virðist vera annt um lýðræðið og vill að tekið sé mark á skoðunum þess og það þykir mér afar miklvægt. Að sama skapi þykir mér jafnleitt að allt of stór hluti þessa fólks vill jafnframt ganga í Evrópusambandið. Ég fæ það ekki með nokkru móti skilið en miðað við það sem ég hef kynnt mér er ESB langt frá því að vera góður kostur fyrir lýðræðissinnaða Íslendinga.

Rök Evrópusinna ekki marktæk
Evrópusinnar beita oft þeim rökum fyrir inngöngu í ESB að nú þegar höfum við yfirtekið yfir 80% af lögum og tilskipunum ESB í gegnum EES samninginn. Þess vegna sé ekkert því til fyrirstöðu að taka skrefið til fulls og ganga í ESB þar sem við fengjum þá fulltrúa á Evrópuþinginu sem gætu haft áhrif á ákvarðanatöku. Hið rétta er að Íslendingar hafa þurft að yfirtaka undir 20% af reglugerðarverki ESB í gegnum EES samninginn samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytisins.

Máttlaus og þyrftum að yfirtaka allt reglugerðarverkið
Þingmenn Evrópuþingsins eru 732 og frá 27 löndum. Fjöldi þingmanna sem Íslendingar myndu fá yrði líklega sá sami og fjöldi þingmanna Möltu (með 402.000 íbúa) en þeir eru fimm talsins. Frá stærstu aðildarríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Ítalíu, Spáni og Póllandi er helmingur allra þingmanna og hafa því þau ríki mikið vægi á þinginu, ólíkt okkur sem yrðum með undir 1% vægi ef til aðildar kæmi.

Við inngöngu í ESB þyrftum við að yfirtaka þau 80% laga og reglugerða sem við höfum sloppið við hingað til og ég hef litla trú á að fimm manna þinghópur geti einhverju breytt í því reglugerðarverki sem hefur að mestu verið smíðað af stærstu ríkjunum með hagsmuni sína að leiðarljósi. Hugsanlega ættum við meiri möguleika á að koma einhverju til leiðar í ráðherraráðinu þar sem ráðherrar Íslands myndu sitja ásamt öllum ráðherrum hinna ríkjanna. Vægi okkar þar væri þó ekki heldur mikið þar sem það fer eftir íbúafjölda ríkjanna og væri minna en 1%.

Bandaríki Evrópu
Mörgum má vera ljóst að ESB er bara að fara í eina átt og það er átt til enn frekari sameiningar Evrópu og mynda eins konar Bandaríki Evrópu. Það er ekkert launungarmál að það er stefna Evrópusambandssinna og með nýrri stjórnarskrá nær ESB að uppfylla allt sem sjálfstætt ríki þarf til. Því mætti segja að aðildarlönd ESB yrðu ekki lengur sjálfstæð lönd heldur meira í líkingu við þau ríki sem mynda Bandaríki Norður-Ameríku og meira að segja virðist sem nokkur fylki BNA hafi meira sjálfstæði en mörg aðildarríki ESB. Miðað við þessa nýju stjórnarskrá verður ýmsu í stjórnskipulagi ESB breytt sem ekki getur talist Íslandi til hagsbóta og hvet ég fólk til að kynna sér hana.

Með potta og pönnur á Meeus-torgi?
Ég get ekki betur séð en að með inngöngu í ESB myndum við rýra með afgerandi hætti sjálfstæði okkar og lýðræði og við fengjum lítið um það að segja í hvernig samfélagi við búum til framtíðar. Á fimm ára fresti fengjum við að kjósa fimm þingmenn af 737 þingmönnum Evrópuþingsins sem setja okkur lög og fara með stjórn fjárlaga ESB. Það verður seint talið lýðræði að mínu mati. Ef okkur finnst lýðræði okkar fótum troðið þessa dagana, hvernig á okkur þá eftir að líða þegar við erum orðið agnarsmátt jaðareyríki í miðstýrðum Bandaríkjum Evrópu? Já, og hvað ef okkur verður misboðið, eigum við þá að reyna að hafa áhrif með mótmælum og fjölmenna á Meeus-torg fyrir utan Evrópuþingið í Brussel með potta og pönnur?

(Birtist áður í Morgunblaðinu 7. apríl 2009)

Veik rödd Íslands innan Evrópusambandsins

Fram kom í máli Marios Katsioloudes, deildarforseta við Hellenic American University, á málfundi um kosti og galla Inngöngu í Evrópusambandið sem haldinn var á vegum tvíhliða viðskiptaráða Íslands og Þýskalands, Bretlands, Svíþjóðar, Spánar og fleiri ríkja á Grand Hóteli fyrir helgi, að þótt lítil eyþjóð hefði veika rödd innan „fjölskyldu” eins og sambandsins, þá væri það engu að síður betra en að hafa veika rödd utan hennar. Katsioloudes ræddi þarna um reynslu Kýpurbúa af fimm ára veru sinni í Evrópusambandinu.

Það er fyrir það fyrsta ágætt að fá staðfestingu á þeirri staðreynd að rödd lítilla eyþjóða sé veik innan Evrópusambandsins sem er vitanlega eitthvað sem vitað var fyrirfram. Það er líka athyglisvert að Katsioloudes skuli ekki segja að rödd ríkja sé veikari utan sambandsins heldur leggja þetta að jöfnu að því leytinu til. Ekki er síður athyglisvert að hann virðist ekki hafa gert neina tilraun til þess að rökstyðja þetta álit sitt. Staðreyndin er sú að innan Evrópusambandsins yrði Ísland bundið í áhrifaleysi á klafa sambandsins en utan þess eru í raun allir vegir færir.

Heimild:
Veik rödd innan fjölskyldu betri en utan (Fréttablaðið 06/04/09)

Samfylkingin einangruð í afstöðu sinni til Evrópumálanna

Ríkisútvarpið flutt frétt í gær þess efnis að Samfylkingin væri í reynd eini stjórnmálaflokkurinn sem á fulltrúa á Alþingi sem vill að gengið verði í Evrópusambandið. Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn væru sem fyrr á móti inngöngu og Framsóknarflokkurinn hefði sett ströng skilyrði fyrir því að slíkt skref yrði tekið. Auk þess hefur formaður flokksins sagt að ekki sé tímabært að skoða inngöngu fyrr en efnahagsmálum þjóðarinnar hefur verið komið í réttan farveg á ný.

Heimild:
Samfylkingin vill ein aðild að ESB (Rúv.is 31/03/09)