Hollendingar lýsa andstöðu við íslenska ESB-umsókn

Hollenska dagblaðið Telegraf sagði frá því í dag að stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á hollenska þinginu væru andsnúnir hugsanlegri íslenskri umsókn um inngöngu í Evrópusambandið nema Icesave-málið svokallað yrði fyrst leyst, en öll ríki sambandsins verða að samþykkja umsóknir nýrra ríkja.

Það er því ljóst að algerlega ótímabært er að greiða atkvæði á Alþingi um umsókn um inngöngu í Evrópusambandið fyrr en Icesave-málið hefur verið afgreitt. Icesave er m.ö.o. aðgangsmiðinn að sambandinu eins og margoft hefur verið bent á af öðrum tilefnum.

Heimild:
Líst illa á inngöngu Íslands (Mbl.is 15/07/09)

Ráðherra segir kostnaðarmat vegna ESB-umsóknar óraunhæft

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir kostnaðarmat utanríkisráðuneytisins vegna umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið upp á 990 milljónir króna vera algjörlega óraunhæft. Sú upphæð eigi eftir að hækka verulega. Hann segir ótímabært að sækja um inngöngu nú, í það eigi ekki að eyða fjármunum og vinnu.

Kostnaðarmatið var lagt fram sem fylgisskjal við nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis sem Árni Þór Sigurðsson formaður nefndarinnar mælti fyrir í þinginu. Þar kemur einnig fram að óvissuþættir séu margir og mjög mikinn fjárhaglegan saga þyrfti til þess að kostnaðarmatið stæðist. Afmarka þyrfti umfang viðræðna og stilla í hóf undirbúningsvinnu vegna samningsmarkmiða.

Heimild:
Ráðherra segir kostnað vanmetinn (Rúv.is 11/07/09)

Hvað kostar að sækja um inngöngu í Evrópusambandið?

Utanríkisráðuneytið áætlar að umsókn um inngöngu í Evrópusambandið og viðræður í kjölfarið kunni að kosta skattgreiðendur allt að einn milljarð króna. Hæglega má gera ráð fyrir að þessi kostnaður gæti farið í mun hærri fjárhæðir ef miðað er reynsluna af áætluðum kostnaði vegna ýmissa annarra verkefna á vegum hins opinbera í gegnum tíðina. Þetta var m.a. rætt á Alþingi í dag og voru útreikningar ráðuneytisins harðlega gagnrýndir fyrir að byggja á óskhyggju. Miklir óvissuþættir væru í þeim og gæti kostnaðurinn því hæglega margfaldast.

Þess má geta að utanríkisráðuneytið hefur sagt að á móti kostnaðinum vegna hugsanlegrar umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið sé stefnt að því að hagræða innan ráðuneytisins. Eðlilega vaknar sú spurning hvort ekki væri betra að hagræða innan ráðuneytisins óháð umsókninni og sleppa því í staðinn að hækka skatta á landsmenn fyrir hundruðir milljóna króna og jafnvel milljarða eða skera niður í velferðarkerfinu fyrir sömu fjárhæðir?

Þetta er eitt af því sem íslenska þjóðin gæti tekið afstöðu til ef ríkisstjórnin væri reiðubúin að leyfa henni að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu á því hvort sækja eigi um inngöngu í Evrópusambandið eða ekki.

Heimild:
ESB: kostnaðarmatið óskhyggja? (Rúv.is 11/07/09)

Þing ESB jafn valdamikið og ríki sambandsins

Fráfarandi forseti þings Evrópusambandsins, Hans Gert Pöttering, lét þess m.a. getið er hann lét af embætti 8. júlí sl. að þingið væri nú jafn valdamikið og ríki sambandsins. Hann hvatti við sama tækifæri eftirmann sinn til þess að berjast fyrir hagsmunum þingsins og lýsti ennfremur þeirri skoðun sinni að þingið ætti að beita sér fyrir því að auka enn völd sín gagnvart ríkjunum.

Þess má geta að flestar stofnanir Evrópusambandsins eru meira eða minna sjálfstæðar gagnvart ríkjum sambandsins og að lög þess eru yfir lög ríkjanna hafin. Nýverið hvatti sænska dagblaðið Göteborgs Posten lesendur sína til þess að kjósa í kosningum til þings Evrópusambandsins m.a. vegna þess að það hefði mun meira um fjölmörg mál Svía að segja en sjálft sænska þingið.

Ef Ísland gengi í Evrópusambandið yrði Íslendingum úthlutað í mesta lagi fimm þingsætum á þingi sambandsins af um 750 eins og staðan er í dag.

Heimild:
EU parliament ‘has equal power’ to member states (Euobserver.com 09/07/09)

Tengt efni:
Evrópusambandsþingið hefur mun meiri völd en það sænska

 

Íslenskar auðlindir mikilvægar fyrir ESB

„Ég tel að frá sjónarhóli Evrópusambandsins sé það mjög áhugavert fyrir okkur að fá Ísland um borð. Þetta er mjög gömul menning og þeir búa við traustar lýðræðishefðir sem myndu styrkja norrænar hefðir um gegnsæi og góða stjórnsýslu. Og þeir eiga einnig náttúruauðlindir sem eru mikilvægar fyrir Evrópu eins og orku og fisk. Þannig að ég tel að það væri mjög gott fyrir okkur – og einnig fyrir þá – að verða hluti af Evrópusambandinu,“ sagði Eva Joly í viðtali við þýska fréttamiðilinn Deutsche Welle í dag.

Joly náði kjöri á þing Evrópusambandsins í kosningunum til þess í byrjun júní sl. fyrir franska græningja sem þykja mjög Evrópusambandssinnaðir, en hún hefur sem kunnugt er verið íslenskum stjórnvöldum til ráðleggingar vegna rannsóknar á bankahruninu sl. haust. Hún segir einnig í viðtalinu hart hefði verið tekið á Íslandi vegna málsins og að taka hefði þurft á því með „evrópskum lausnum“. Staðreyndin er þó sú að það var einmitt tekið á bankahruninu með slíkum lausnum; hagsmunum Íslands var fórnað fyrir hagsmuni Evrópusambandsins.

Heimild:
“Iceland has been dealt with in a very rough manner” (Dw-world.de 07/07/09)

Hvernig Írland hentar Evrópusambandinu?

Forsætisráðherra Írlands, Brian Cowen, lét þau orð falla nýverið í umræðum á írska þinginu að það væri tímabært að ræða það hvers konar Írland væri æskilegt í Evrópusambandinu í stað þess að ræða hvers konar Evrópusamband hentaði Írum best. Þetta eru fyrir margt athyglisvert ummæli og þá ekki síst frá sjónarhóli Íslendinga. Evrópusambandið verður aldrei klæðskerasaumað fyrir Ísland. Það liggur fyrir vikið þegar fyrir í öllum meginatriðum hvað innganga í sambandið hefði í för með sér fyrir hagsmuni Íslendinga.

Þessi ummæli Cowen eru t.a.m. í fullu samræmi við ummæli Olli Rehn, ráðherra stækkunarmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í Fréttablaðinu 8. nóvember 2008 þar sem hann sagði að hann væri þess fullviss að Íslendingar gætu lagað sig að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Það er m.ö.o. ekki í kortunum að sjávarútvegsstefnan verði löguð að hagsmunum Íslands.

Þetta er síðan í samræmi við fyrri og margítrekaðar yfirýsingar forystumanna innan Evrópusambandsins um að varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins séu ekki á boðstólum og hvað þá að stjórn fiskveiða við Ísland yrði undanþegin yfirstjórn sambandsins.

Heimildir:
Yes vote ‘intrinsic to our interests’ – Cowen (Irishtimes.com 25/06/09)
Hægt að semja fljótt um inngöngu í ESB (Fréttablaðið 08/11/09)

Trúa Íslendingar á jólasveininn?!?

Lars Peder Brekk, landbúnaðarráðherra Noregs, segir að Íslendingar trúi greinilega á jólasveininn úr því þeir haldi að þeir geti fengið sérstakar undanþágur varðandi sjávarútvegsmál innan Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á norska vefnum VG. „Íslandi mun ekki takast að fá samþykki Evrópusambandsins fyrir því að þeir fái sérstakar undanþágur í sjávarútvegsmálum. Það er eins og að trúa á jólasveininn,” segir Brekk í samtali við fréttastofuna ANB.

Hann segir að aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði eins og himnasending fyrir Evrópusambandið sem þá fengi aðild að stærri fiskimiðum og fleiri fiskistofnum. Íslendingar yrðu hins vegar að afsala sér stjórn fiskveiða í lögsögu sinni og hann telji það því jafnast á við rússneska rúllettu að Íslendingar leggi fiskimið sín undir fyrir aðild að sambandinu.

Brekk segir sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins hafa skilað síversnandi ástandi fiskistofna og að hann hafi ekki trú á því að fyrirhuguð endurskoðun stefnunnar árið 2013 muni skila tilætluðum árangri. „Það verður í raun ekkert gert til að fækka í fiskveiðiflotanum eða stöðva ofveiði. Það veldur áhyggjum að 93% þorska í Norðursjó skuli veiddir áður en þeir verða kynþroska. Evrópusambandið gerir sér grein fyrir vandanum en lætur dægurstjórnmál ráða,” segir hann.

Heimild:
Segir Íslendinga trúa á jólasveininn (Mbl.is 02/07/09)
Brekk mener Island tror på julenissen (Vg.no 02/07/09)

 

 

ESB reyndi að múta forsætisráðherra Króatíu

Króatía hefur sem kunnugt er sótt um inngöngu í Evrópusambandið en viðræður við landið hafa einkum strandað á landamæradeilum sem Króatar hafa átt í við Evrópusambandsríkið Slóveníu. Slóvenar hafa vegna þessara deilna staðið í vegi fyrir inngöngu Króatíu í sambandið. Króatíski forsætisráðherrann, Ivo Sanader, sagði af sér í dag m.a. vegna þessara deilna. Sanader upplýsti jafnframt af þessu tilefni að Evrópusambandið hefði boðið sér starf á sínum vegum með það fyrir augum að liðka fyrir lausn á deilunni við Slóvena en hann hafnaði því boði.

„Evrópusambandið og verkefnið um evrópskan samruna eiga ekki möguleika ef mútur eru viðurkennd aðferðafræði innan Evrópusambandsins,” sagði Sanader vegna málsins.

Heimild:
Afsögn í Króatíu (Mbl.is 01/07/09)