Þjóðverjar opnir fyrir því að Grikkir leiti til AGS

Fréttavefurinn Euobserver.com greindi frá því í dag að þýsk stjórnvöld hefðu skipt um skoðun og væru nú opin fyrir því að Grikkland leitaði á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir efnahagsaðstoð, en Þjóðverjar hafa verið mjög tregir til þess að koma Grikkjum til bjargar. Til þessa hefur Evrópusambandið lagst alfarið gegn því að grísk stjórnvöld leituðu til AGS eða annarra aðila utan sambandsins vegna þess álitshnekkis sem óttast hefur verið að það hefði í för með sér einkum fyrir evrusvæðið.

Grikkir hafa verið afar ósáttir við framgöngu Evrópusambandsins og annarra ríkja þess vegna efnahagserfiðleika þeirra en í raun hefur engin aðstoð verið í boði af hálfu sambandsins önnur en óljósar og almennar yfirlýsingar um aðstoð ef allt færi á versta veg. Hafa grísk stjórnvöld fyrir vikið ítrekað hótað því að leita til AGS þrátt fyrir andstöðu Evrópusambandsins ef engin raunveruleg hjálp yrði í boði af hálfu sambandsins.

Þá hafa Þjóðverjar kallað eftir því að innleidd yrðu fleiri leiðir til þess að refsa evruríkjum sem rötuðu í efnahagserfiðleika sem leiddu til brota gegn reglum evrusvæðisins. Þ.á.m. að hægt yrði að reka ríki af evrusvæðinu.

Heimildir:
Þjóðverjar opnir fyrir AGS-lausn fyrir Grikki (Mbl.is 18/03/10)
Germany switches to support IMF aid for Greece (Euobserver.com 18/03/10)
Merkel says errant states should be kicked out of eurozone (Euoberver 17/03/10)

 

Segir evruna ekki endast nema í 15-20 ár

Einhver þekktasti frjárfestir heims Jim Rogers sagði í viðtali við CNBC fréttastofuna í dag að hann teldi allar líkur á að evran væri ekki gjaldmiðill til framtíðar og dagar hennar yrðu taldir eftir 15-20 ár. Rogers minnti á að áður hefðu verið gerðar tilraunir með myntbandalög eins og evrusvæðið en þær hefðu allar runnið út í sandinn. Það sama yrði niðurstaðan með evruna.

Sem kunnugt er hafa efnahagsvandamál Grikkja verið í deiglunni á undanförnum vikum og mánuðum og hafa þau sett mikinn þrýstingi á evrusvæðið að bregðast við. Rogers varaði við því að ef Evrópusambandsins kæmi Grikkjum til hjálpar myndi það veikja grundvöll evrunnar og draga úr trúverðugleika hennar sem gjaldmiðils.

Heimildir:
Evran endist í 15-20 ár (Mbl.is 17/03/10)
Fjárfestagoðsögn: Evran deyr og tvær bólur bresta (Vísir.is 17/03/10)
Jim Rogers Sizes Up Two Global Bubbles (Cnbc.com 17/03/10)

 

Segir tilgang EMF að hjálpa ríkjum að yfirgefa evrusvæðið

Wolfgang Münchau, aðstoðarritstjóri breska viðskiptablaðsins Financial Times, fjallaði um þá hugmynd nýverið í pistli í blaðinu að setja á laggirnar sérstakan gjaldeyrissjóð á vegum Evrópusambandsins (European Monetary Fund) sem starfaði á hliðstæðum nótum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Heldur hann því fram að tilgangurinn með slíkum gjaldeyrissjóð yrði fyrst og fremst sá að hjálpa illa stöddum evruríkjum að yfirgefa evrusvæðið.

Münchau bendir m.a. á að þýsk stjórnvöld hafi gefið það í skyn að verði Grikkjum bjargað frá gjaldþroti komi ekki til slíkrar björgunar aftur. Hefði EMF verið til staðar nú væri verið að vinna að því að Grikkir segðu skilið við evruna með aðstoð Evrópusambandsins.

Münchau sagðist hingað til hafa talið að stefna Þýskalands væri að standa vörð um evrusvæðið og ríki þess hvað sem það kostaði. Nú benti hins vegar flest til þess að þýskir ráðamenn vildu losna við vandræðaríki út af evrusvæðinu.

Heimildir:
FT: Stofnun EMF aðeins til þess fallin að auðvelda ríkjum að yfirgefa evrusvæðið (Vb.is 15/03/10)
Shrink the eurozone, or create a fiscal union (Ft.com 14/03/10)

 

Evra byggð á lygi

Forsíða nýjasta tölublaðs þýska vikuritsins Der Spiegel skartar mynd af bráðnandi einnar evrumynt undir fyrirsögninni “Die Euro-Lüge” eða Evrulygin. Inni í vikuritinu er að finna langa og ítarlega umfjöllun um stöðu evrusvæðisins og þá alvarlegu grundvallargalla sem eru á því. Bent er á að sú ákvörðun að setja evruna á laggirnar á sínum tíma hafi verið vanhugsuð og hafi fyrst og fremst verið pólitísk en ekki byggð á efnahagslegum forsendum.

Því er haldið fram að fátt hafi í raun staðist af því sem lofað var þegar evran var sett á laggirnar. Þannig hafi t.d. ekki staðið til að koma á sameiginlegri ábyrgð evruríkjanna á skuldum hvers annars og ríkin hefðu heitið því að halda á efnahagsmálum sínum með tilliti til þess að þau byggju við sameiginlega peningamálastefnu. Ekki hefði verið staðið við þetta frekar en ýmislegt annað í tengslum við evrusvæðið.

Komið er inn á þá staðreynd að hagkerfi evruríkjanna eigi í raun takmarkaða samleið og að aðeins tvær leiðir séu nú raunhæfar. Annað hvort að evrusvæðið líði undir lok, a.m.k. í núverandi mynd, eða að Evrópusambandið taki að meira eða minna leyti yfir stjórn efnahagsmála innan ríkja sambandsins. M.ö.o. orðum verði komið á miðstýrðri efnahagsstjórn Evrópusambandsins, m.a. í skattamálum, sem ýmsir segja að hafi alltaf verið stefnan.

Þá er fjallað um þær árásir sem evran hefur orðið fyrir og mun verða fyrir frá spákaupmönnum, alvarlega stöðu efnahagsmála á Grikklandi og víðar á evrusvæðinu og um hugsanlegar aðgerðir á vettvangi Evrópusambandsins til þess að bjarga Grikkjum. Önnur evruríki vilji í lengstu löð forðast að þurfa að leggja Grikkjum til háar fjárhæðir, en komi til þess verði það sönnun þess að myntbandalag sambandsins sé illa hannað.

Heimild:
The Fundamental Flaw of Europe’s Common Currency (Spiegel.de 09/03/10)

 

Grikkjum bjargað eða ekki bjargað?

Enn liggur ekki fyrir hvernig Evrópusambandið hyggst bregðast við gríðarlegum efnahagsvandræðum Grikklands en Grikkir eru sem kunnugt er á barmi gjaldþrots þrátt fyrir að vera ekki aðeins innan sambandsins heldur einnig með evru sem gjaldmiðil. Ýmsar fréttir hafa frá áramótum borist af því að önnur ríki Evrópusambandsins hefði í hyggju að koma Grikkjum til bjargar en þær hafa jafn harðan verið bornar til baka.

Nú síðast greindi breska dagblaðið The Guardian frá því sl. laugardag 13. mars að samþykkt hefði verið á vettvangi Evrópusambandsins að koma Grikkjum til hjálpar með gríðarlega háum fjárframlögum, en framkvæmdastjórn sambandsins hefur nú lýst því yfir að það eigi ekki við rök að styðjast, ekkert slíkt hefði verið ákveðið enn. Með sanni má segja að málið allt sé orðið hið vandræðalegasta fyrir Evrópusambandið.

Ríki Evrópusambandsins hafa verið treg til þess að verja eigin skattfé til þess að bæta fyrir efnahagsafglöp grískra stjórnvalda. Ekki síst Þjóðverjar sem þyrftu, ef til þess kæmi, að taka á sig mestar byrðir vegna málsins. Þá óttast þau fordæmið sem slík björgun setti en Grikkland er langt því frá eina evruríkið sem á við mikinn efnahagsvanda að stríða og má þar nefna Ítalíu, Spán, Portúgal og Írland.

Nærtækast væri fyrir Evrópusambandið að benda Grikkjum á að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) eins og sambandið gerði í tilfelli t.d. Lettlands og Rúmeníu sem bæði eru innan raða þess en ekki komin með evru. En Evrópusambandið hefur þess í stað bannað grískum stjórnvöldum að leita til AGS af ótta við þann álitshnekk sem það hefði í för með sér fyrir evrusvæðið.

Heimildir:
Grikkjum ekki komið til bjargar (Rúv.is 13/03/10)

 

Íslendingar greiddu meira til ESB en þeir fengju til baka

Talsmaður sendinefndar þýskra þingmanna sem stödd er hér á landi til þess að kynna sér aðstæður í tengslum við umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið, Michael Stübgen, lét þess getið í samtali við Fréttablaðið í gær að Ísland væri kærkomið inn í sambandið af ýmsum ástæðum. Sagði hann það sérstaklega gleðilegt þegar ríki gengu í Evrópusambandið sem greiddu meira til þess en þau fengju til baka eins og raunin yrði í tilfelli Íslands.

Eins og kunnugt er hafa stuðningsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið lagt talsverða áherslu á að ef af inngöngu í sambandið yrði fengju Íslendingar aðgang að alls kyns styrkjum frá því. Staðreyndin er þó sú að íslenskir skattgreiðendur myndu alltaf greiða mun meira til Evrópusambandsins en þeir fengju til baka eins og fram kom hjá Stübgen og hefur margoft verið bent á áður.

Heimild:
Engin ákvörðun tekin fyrr en í lok apríl (Vísir.is 12/03/10)

 

Ólíklegt að ESB-umsóknin verði tekin fyrir í lok mánaðarins

Nær engar líkur eru á því að umsókn íslenskra stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið verði tekin fyrir á fundi ráðherraráðs sambandsins síðar í þessum mánuði eins og til stóð. Þetta segja þýskir þingmenn sem staddir eru hér á landi til þess að kynna sér aðstæður í tengslum við umsóknina, en greint var frá þessu í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær.

Ástæðan fyrir þessu eru nýjar reglur sem tekið hafa gildi í Þýskalandi og gera það að verkum að fulltrúar Þjóðverja í ráðherraráðinu verða að hafa samráð við þýska þingið áður en þeir geta tekið þátt í afgreiðslum ráðsins. Segja þingmennirnir að þýska þingið geti ekki lokið þeirri vinnu í tíma fyrir fund ráðherraráðsins. Verði niðurstaðan sú verður afgreiðslu umsóknarinnar frestað til næsta fundar ráðherraráðsins.

Heimild:
Ákvörðun um aðildarviðræður seinkar (Rúv.is 11/03/10)
Ákvörðunin gæti tafist (Vísir.is 11/03/10)

 

Hollendingar hóta að beita sér gegn ESB-umsókninni

Forystumenn í hollenskum stjórnmálum hótuðu því í gær að beita sér m.a. gegn umsókn íslenskra stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið ef Íslendingar færu ekki eftir “alþjóðlegum skuldbindingum sínum” í Icesave-deilunni. Komst meirihluti neðri deildar hollenska þingsins að þeirri niðurstöðu að innganga Íslands í sambandið kæmi ekki til greina að óbreyttu.

Eins og kunnugt er hafa ráðamenn í Hollandi og Bretlandi ítrekað tengt saman umsókn íslenskra stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið og Icesave-deiluna á undanförnum mánuðum og sagt að ein forsenda þess að Ísland gæti gengið í sambandið væri sú að Íslendingar greiddu lágmarkstryggingu vegna innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans.

Ráðherraráð Evrópusambandsins fundar síðar í þessum mánuði þar sem m.a. stendur til að ákveða hvort haldið verði áfram með umsóknarferli Íslands en samþykki allra ríkjanna er nauðsynlegt til þess.

Heimild:
Hyggjast beita sér gegn samvinnunni við AGS (Mbl.is 11/03/10)

 

Hvetur ESB til þess að hafna aðildarumsókn Íslands

Einn helsti sérfræðingur franska dagblaðsins Libération í Evrópumálum, Jean Quatremer, hvetur Evrópusambandið til þess að hafna aðild Íslands að sambandinu í nýlegum pistli á heimasíðu sinni en síðan er mikið lesin af stjórnmálamönnum og embættismönnum sambandsins. Quatremer segir ljóst að Íslendingar vilji ekki í Evrópusambandið, inngöngu landsins yrði örugglega hafnað í þjóðaratkvæði og það fæli í sér hættu á álitshnekki fyrir sambandið að halda ferlinu áfram.

Þá segir Quatremer að ríkisstjórn Ísland hafi þröngvað umsókn um inngöngu í Evrópusambandið upp á bæði íslensku þjóðina og eigin þingmenn og að framkvæmdastjórn sambandsins hafi í mati sínu á umsókninni litið framhjá afstöðu almennings á Íslandi. Quatremer hvatti Evrópusambandið til þess að óska eftir því að fram færi atkvæðgreiðsla hér á landi um það hvort Íslendingar vildu halda umsóknarferlinu áfram eða ekki.

Heimild:
Leggst eindregið gegn viðræðum við Ísland (Mbl.is 09/03/10)
Álitsgjafi í Brussel: Segið nei við Íslendinga (Bjorn.is 09/03/10)
Élargissement : l’Union doit dire non à l’Islande (Liberation.fr 08/03/10)

 

ESB-þingmenn hafa áhyggjur af andstöðu Íslendinga

Í umræðum í utanríkismálanefnd Evrópusambandsþingsins í gær lýstu fulltrúar á þinginu yfir áhyggjum sínum af því hversu lítill stuðningur væri við það á Íslandi að ganga í Evrópusambandið. Skírskotuðu þeir til skoðanakannana sem bentu til þess að aðeins þriðjungur Íslendinga styddu inngöngu. Ef afstaðan á Íslandi breyttist ekki væru tveir möguleikar í stöðunni, annað hvort að Íslendingar greiddu atkvæði um það hvort halda ætti umsóknarferlinu áfram eða að því yrði einfaldlega hætt.

Ummæli þingmannanna komu fram í umræðum um umsókn Íslands þar sem ráðherra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB, Stefan Füle, gerði grein fyrir stöðu mála. Ljóst er að ráðamenn í Brussel og víðar innan sambandsins hafa á undanförnum mánuðum í auknum mæli verið að átta sig á því að umsókn Íslands um inngöngu er byggð á sandi og án þess að íslenska þjóðin sé með í för.

Heimildir:
Íslendingar þurfa að vinna heimavinnuna sína (Mbl.is 09/03/10)
Áhyggjur af áhugaleysi Íslendinga (Mbl.is 08/03/10)