Að yfirlögðu ráði og í sátt

Sumar ákvarðanir eru svo mikilsháttar og afgerandi að þær skyldi aðeins taka að undangenginni vandlegri yfirvegun og í samráði við alla sem hlut eiga að máli. Ákvörðunin um hvort sækja skuli um aðild að ESB er einmitt slík ákvörðun.

Hávær minnihluti þjóðarinnar hefur fyrir löngu tekið afstöðu til ESB og virðist telja óþarft að gefa samlöndum sínum ráðrúm til að mynda sér skoðun á málinu. Fyrst skuli sótt um aðild að ESB og svo athugað hvort nokkur sé á móti. Minnihlutinn vill stytta sér leið fram hjá lýðræðinu.

Það er hinsvegar ekkert sjálfsagt að ganga til samninga við stórveldi um framsal sjálfstæðis þjóðarinnar til þess eins að kanna hvað “okkur bjóðist” í staðinn. Svo illa stödd erum við ekki.

Það er ekkert sjálfsagt að leggja í 500-800 milljóna kostnað við samninga sem þjóðin hefur ekki áhuga á. Hver sem endanleg tala verður eru þetta gríðarmiklir fjármunir sem mætti nota í miklu þarfari hluti. ESB sinnar telja sanngjarnt að deila þessum kostnaði með þjóðinni. Hvaða réttlæti er í því?

Samningar við ESB eru ákaflega mannfrekt verkefni og stendur í langan tíma. Fjöldi manns úr ráðuneytum, ýmsir sérfræðingar og hagsmunasamtök verða kölluð að verkinu. Á sama tíma er gerð sú krafa að margir þessir sömu aðilar leggi nótt við dag við meira aðkallandi verkefni.  Björgun heimila og fyrirtækja landsins þolir enga bið. Það er ekkert sjálfsagt að lama getu okkar til að sinna brýnustu verkefnum með ótímabærri aðildarumsókn.

Það er vel hægt að kanna hvað “okkur býðst” án þess að sækja um aðild. Allir sáttmálar og lög ESB liggja fyrir. Vilji menn vita hvert ESB stefnir á næstunni má lesa það í Lissabon sáttmálanum. Hvað varðar varanlegar undanþágur fyrir Ísland hafa fulltrúar ESB margsinnis sagt að Ísland fái engar meiriháttar undanþágur.

Það er ekki víst að þjóðin vilji ganga í ESB jafn vel þótt varanlegar undanþágur fáist. Í hugum margra snýst þetta ekki um hagsmuni heldur sjálfstæði og sjálfstæði er ekki söluvara.

ESB hlýtur að geta boðið upp á könnunarviðræður án aðildarumsóknar. Í öllum viðskiptum er venja að menn kanni fyrst óformlega hvort það sé nokkur samningsgrundvöllur áður en gengið er til samninga.

Það vekur reyndar furðu mína og efasemdir um góðan ásetning að ESB skuli taka það í mál að hefja aðildarviðræður við þjóð sem hefur augljóslega ekki tekið málefnalega afstöðu til umsóknar. Þjóð sem er ósammála en knúin í viðræður af háværum minnihluta. Hvað segir þetta okkur um ESB?

Fyrir þá sem eru á móti ESB en treysta algerlega á það að samningur verði felldur í þjóðaratkvæði  þá vil ég benda á að ESB er vel trúandi til að samþykkja þær undanþágur sem þarf til að tryggja rétta útkomu og skjóta innlimun Íslands í sambandið. Eftir innlimum vinnur tíminn með ESB. Í framtíðinni munu án efa koma upp “óheppilegar” aðstæður þar sem hagsmunir Íslendinga felast í því að gefa eftir undanþágur sínar í skiptum fyrir eitthvað sem þá þykir brýnna. Undanþágur eru til trafala fyrir ESB til lengdar. Munum að útganga úr ESB verður ekki í boði hversu illa sem okkur, eða afkomendum okkar líkar.

Það að ganga til samninga er miklu stærra skref en ESB sinnar vilja viðurkenna. Þegar samningar eru hafnir er lestin komin af stað og skriðþunginn er mikill. Allir sem að samningum koma munu keppast við að sannfæra sjálfa sig og aðra að þetta séu bestu mögulegu samningar. Að hafna samningi sem búið er að fjárfesta hundruði milljóna í að undirbúa er ekkert annað en neyðaraðgerð.

Aðeins ein þjóð, Norðmenn, hefur staðist prófið og hafnað aðildarsamningi í þjóðaratkvæði.