Blekkingarleikur ESB-sinna

Ég hef margoft á opinberum vettvangi hvatt til þess að málefnalegar umræður fari fram um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ég tel slíkar umræður nauðsynlegar og gagnlegar. Það er hins vegar skoðun mín að um þessar mundir séu önnur mál brýnni. Við Íslendingar eigum við að stríða mikinn efnahagsvanda og lausnirnar við honum felast ekki í aðild að ESB eða upptöku evrunnar eftir allmörg ár. Mikill þrýstingur frá aðildarsinnum úr ýmsum áttum hefur hins vegar leitt til þess að málið er nú í brennidepli stjórnmálaumræðunnar og við því verðum við andstæðingar aðildar að sjálfsögðu að bregðast, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Margt í málflutningi hörðustu aðildarsinna kallar á andsvör, ekki síst þegar röksemdafærslan byggir á misskilningi, hálfsannleik eða jafnvel hreinum blekkingum.

Óðagot og meint tímahrak
Stuðningsmenn aðildar láta í veðri vaka að við verðum að sækja um aðild sem fyrst. Ganga eigi til verka á ógnarhraða, hefja aðildarviðræður jafnvel strax í næsta mánuði, klára stjórnarskrárbreytingar og löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur á örfáum vikum, rumpa svo sjálfum aðildarviðræðunum af á sem skemmstum tíma og láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram sem allra fyrst. Það megi engan tíma missa. En á sama tíma segjast sömu menn auðvitað vilja vanda til verka og standa vörð um hagsmuni Íslands. Er þetta trúverðugur málflutningur? Er þetta eðlilegt vinnuferli við að afgreiða stærstu og mikilvægustu ákvörðun sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir í áratugi? Ákvörðun sem er líka ætlað að standa í áratugi – að minnsta kosti. Eigum við að taka slíka ákvörðun í einhverju óðagoti út af heimatilbúnu tímahraki? Er rétt að útkljá mál af því tagi á tíma þar sem stjórnmálamenn, embættismenn, fyrirtækjastjórnendur og almenningur allur er enn í losti eftir bankahrunið í haust og þau efnahagslegu áföll, sem hafa fylgt í kjölfar þess?

Leysir aðild og upptaka evru efnahagsvandann?
Í þessu sambandi er auðvitað látið eins og ESB aðild muni bjarga okkur úr efnahagsþrengingunum, einkum vegna evrunnar. Samt vita allir að jafnvel þótt allt gengi hratt fyrir sig varðandi ESB aðildina er langur tími, í stysta lagi 4 ár, líklega þó frekar 6 eða 8 ár þangað til við gætum tekið upp evruna. Það er líka ljóst að við þyrftum að koma efnahagsmálunum í lag áður en við tækjum upp evruna, annars uppfylltum við einfaldlega ekki skilyrðin til þess. Sem stendur uppfyllum við ekki neitt þeirra fimm efnahagslegu skilyrða sem Maastricht-sáttmálinn setur fyrir aðild að myntbandalaginu og upptöku evrunnar og allar spár gera ráð fyrir því að það muni taka okkur mörg ár að vinna okkur út úr þeirri stöðu.

Því er haldið fram að evran – eða jafnvel bara ESB-aðildin eins og sér – hefði bjargað okkur frá þeim efnahagslegu þrengingum sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum. Er það svo? Eru menn búnir að greina orsakir efnahagshrunsins? Eru öll kurl komin til grafar í þeim efnum? Nei, öðru nær. Þar er mikið verk óunnið og alls engar forsendur til að draga slíkar ályktanir á þeim þessum tímapunkti. Við eigum líka eftir að sjá hvernig efnahagskreppan leikur ESB ríkin – bæði þau sem nota evru og hin. Í þeim efnum er erfitt að fullyrða nokkuð á þessari stundu. Sumt vitum við þó nú þegar, eins og til dæmis að bæði Ungverjar og Lettar hafa þurft að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þrátt fyrir ESB-aðild sína og Írar velta þeim möguleika fyrir sér í alvöru. Væri ekki nær að skoða þessi mál af yfirvegun og taka afstöðu þegar meiri upplýsingar liggja fyrir?

Aðildarviðræður í alvöruleysi?
Það er gefið í skyn að það sé einhver valkostur að fara út í aðildarviðræður í einhverju tilraunaskyni eða jafnvel alvöruleysi. Sumir sem leggja til aðildarviðræður taka jafnframt fram að þeir séu á móti aðild. Er það trúverðugt? Og er það trúverðugt gagnvart mótaðilanum í samningunum, ESB sjálfu og raunar líka gagnvart öllum 27 aðildarríkjunum, að fara út í aðildarviðræður ef menn eru ekki vissir um að þeir vilji aðild? Kæri sig jafnvel ekkert um hana. Væri ekki meira vit í því að bíða með aðildarviðræður þangað til menn eru búnir að gera það upp við sig hvort þeir sækist raunverulega eftir aðild? Hvort þeir eru tilbúnir að ganga í Evrópusambandið eins og það er, með öllum þeim kostun og göllum sem því fylgja? Tilbúnir til að laga sig að kröfum sambandsins eins og öll aðildarríkin 27 hafa gert?

Getur Ísland samið sig frá sjávarútvegsstefnunni?
Í þessu sambandi er oft talað eins og Íslendingar – einir þjóða – eigi möguleika á því að semja sig undan grunnreglum ESB, einkum í sjávarútvegsmálum. Að Ísland geti haldið fullum yfirráðum yfir sjávarauðlindinni þrátt fyrir aðild. Þetta er meðal annars gefið í skyn þegar talað er um að nauðsynlegt sé að fara í aðildarviðræður til að sjá hvað kemur út úr þeim. Það er látið eins og um eitthvað sé raunverulega að semja að þessu leyti. Ekkert sem heyrst hefur frá ESB á undanförnum árum gefur til kynna að það sé hægt. Ekkert í reynslu annarra þjóða bendir til að við munum fá varanlegar undanþágur sem máli skipta. Það sem í boði er eru takmarkaðar, tímabundnar undanþágur og aðlögunarferli – ekkert meira en það. Það er raunar umhugsunarefni að á sama tíma og sumir vilja fara í aðildarviðræður og segjast þar ætla að standa fastan vörð um óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindunum – sem ekki er hægt miðað við grunnreglur ESB – þá eru aðrir ESB sinnar sem halda því fram að það verði ekkert mál fyrir Íslendinga að búa við forræði ESB í sjávarútvegsmálum. Hafa þessir hópar rætt saman? Hafa þeir reynt að komast að niðurstöðu um það hvorn málflutninginn þeir ætla að nota til að fá þjóðina á sitt band? Hvor hópurinn skyldi vera marktækari? Dæmi hver fyrir sig.

Verulegt framsal fullveldis
Því er haldið fram að ESB aðild muni ekki fela í sér framsal fullveldis þjóðarinnar. Þess í stað er notað orðalag eða merkingarlaust orðskrúð eins og að með aðild værum við einungis að deila fullveldi okkar með öðrum þjóðum. Jafnvel er gengið svo langt að halda því fram að eina leiðin til að þjóðin geti notið fullveldis síns sé að færa yfirþjóðlegum stofnunum meiri völd. Svona málflutningur byggir á einhverju allt öðru en skýrri hugsun og hugtakanotkun. Skyldu þeir sem tala á þennan veg hafa velt því fyrir sér hvers vegna allir stjórnskipunarfræðingar landsins eru sammála um að breyta þurfi stjórnarskrá áður en til ESB aðildar kemur? Svarið við því er einfalt. Það er vegna þess að í ESB aðild felst svo mikið framsal fullveldis að það er engan veginn samrýmanlegt stjórnarskrá Íslands. Þar er um að ræða verulegt framsal löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds á fjölmörgum sviðum. Heyrst hafa sjónarmið um að við höfum þegar gengið of langt að þessu leyti með EES-samningnum og aðild okkar að Schengen. Jafnvel þótt svo væri er vandséð hvernig þessi kenning felur í sér rökstuðning fyrir því að ganga lengra á fullveldið. Í þessu sambandi er líka rétt að benda á, að bæði við lagasetningu og réttarframkvæmd árum saman hefur verið gengið út frá því að þessir samningar standist stjórnarskrá, þannig að vangaveltur um þetta atriði hafa eingöngu gildi sem fræðilegt álitamál en ekki raunverulega þýðingu. Enginn fræðimaður sem um þessi mál hefur fjallað hefur hins vegar dregið í efa að breyta þyrfti stjórnarskránni vegna ESB-aðildar. Er það bara einhver misskilningur?

Úrsögn ekkert mál – eða hvað?
Að lokum má nefna, að því er stundum haldið fram að það sé alveg óhætt fyrir þjóðina að gerast aðili að Evrópusambandinu vegna þess að ekkert mál yrði að ganga úr því ef reynslan yrði ekki góð. Þetta er að vissu marki rétt. Ekki eru líkur á að ESB myndi með valdbeitingu koma í veg fyrir að Ísland segði sig úr sambandinu og ef Lissabon-sáttmálinn nær fram að ganga verður jafnvel gert ráð fyrir úrsagnarmöguleikum í regluverki sambandsins. Hins vegar geta afleiðingar úrsagnar verið alvarlegar. Ólíklegt er að stofnanir ESB eða önnur aðildarríki tækju úrsögn vel. Það myndi áreiðanlega hafa veruleg áhrif á viðskipti og önnur samskipti milli Íslands og sambandsins ef til úrsagnar kæmi. Fráleitt er að ímynda sér að mikill vilji yrði til þess af hálfu ESB að endurlífga EES-samninginn gagnvart Íslandi eftir úrsögn. ESB gerir ekki samninga af því tagi lengur. Ekki er heldur ástæða til að búast við því að möguleikar yrðu á hagstæðum tvíhliða samningi við slíkar aðstæður. ESB myndi auðvitað stilla dæminu þannig upp gagnvart Íslandi að annað hvort yrði landið áfram aðili með öllu því sem því fylgir, kostum og göllum, eða fengi að öðrum kosti stöðu þriðja ríkis. Slíkt myndi leiða til mun óhagstæðari stöðu fyrir Ísland heldur en við búum við í dag með aðild okkar að EES-samningnum og Schengen.

Eldri tilraunir til að villa mönnum sýn
Vafalaust má bæta ýmsum atriðum við þessa upptalningu. Þetta eru þó sennilega veigamestu atriðin þar sem áróðursmenn Evrópusambandsaðildar reyna að villa fólki sýn í þeim umræðum sem fara fram um þessar mundir. Hér er sleppt ýmsum eldri áróðurspunktum, sem menn kannast við frá undanförnum árum, en ekki einu sinni æstustu ESB-sinnar halda lengur á lofti. Má þar nefna punkta eins og að EES-samningurinn væri orðinn úreltur og hefði runnið sitt skeið á enda. Einnig að Norðmenn væru á leiðinni inn í ESB og það neyddi okkur til að gerast aðilar líka. Þessu var haldið stíft fram af hálfu stuðningsmanna aðildar fyrir fáeinum árum en reynslan sýndi að þar voru á ferðinni hreinar blekkingar. Sömu sögu má reyndar segja um þann málflutning að eini kostur Íslendinga í varnarmálum eftir brotthvarf Bandaríkjahers væri varnarsamstarf við ESB. Þróunin á sviði varnarmála hefur líka afsannað þessa kenningu.

Með þessa reynslu í huga er full ástæða til að taka málflutningi ESB-sinna með miklum fyrirvörum. Það á ekki síst við þegar jafn mikill þrýstingur er settur á að hefja aðildarferlið eins og raunin er þessa dagana. Með skemmri tíma til ákvörðanatöku eru auðvitað meiri líkur á að málið verði afgreitt án þess að eðlileg umræða fari fram. Umræða, sem er forsenda þess að hægt sé að fletta ofan af blekkingunum og afhjúpa vafasamar fullyrðingar þeirra, sem harðast ganga fram í málinu.

Birgir Ármannsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

(Birtist áður á fréttavefnum Amx.is)