Einar Már verðlaunaður fyrir ESB-andstöðu

Einar Már Guðmundsson rithöfundur var verðlaunaður á landsfundi Þjóðarhreyfingarinnar gegn ESB í Gladsaxe í Danmörku og fékk „Tréskóinn – eða klossann“ fyrir að stuðla að andstöðu íslenskra kjósenda gegn ESB, að því er fram kemur á heimasíðu hreyfingarinnar.

Þar er greint frá rithöfundarferli Einars Más og tilgreint að bækur hans hafi verið þýddar á fjölmörg tungumál. Þá hafi hann hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og viðurkenningu Stofnunar Karenar Blixen.

Einar Már fær hin alþjóðlegu klossaverðlaun þjóðarhreyfingarinnar (Folkebevægelsens Internationale Træskopris) sem eru nokkur klossapör, fyrir staðfestu í andstöðu gegn aðild Íslendinga að Evrópusambandinu sem m.a. hafi leitt til þess að 54,4% Íslendinga hafi sagt nei við aðild en 45,6% já, miðað við skoðanakönnun Fréttablaðsins 11. apríl síðastliðinn.

„Í kjölfar fjármálakreppunnar og alvarlegra afleiðinga hennar á Íslandi hefur Einar Már Guðmundsson tekið af krafti þátt í baráttunni um ESB og beitt sér gegn þeirri trú Evrópusambandssinna að Evrópusambandið og evran séu það kraftaverk sem leitt geti Ísland út úr kreppunni,“ segir á vefsíðu þjóðarhreyfingarinnar.

Einar gat ekki tekið við verðlaununum sem afhent voru á laugardaginn. Erik Skyum-Nielsen, þýðandi Einars í Danmörku, á móti þeim fyrir hans hönd.

Heimild:
Einar Már verðlaunaður fyrir ESB-andstöðu (Amx.is 27/04/09)