Engin neyðaráætlun til fyrir gjaldþrota evruríki

Viðbrögð Evrópusambandsins við alþjóðlegu fjármálakrísunni hafa sætt mikilli og vaxandi gagnrýni undanfarna mánuði. Hafa þau þótt máttlítil, ruglingsleg og ómarkviss. Nú síðast gagnrýndi fyrrum forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jacques Delors, forystumenn sambandsins harðlega fyrir framgöngu þeirra í viðtali við þýska fjármálaritið Capital. Sagði hann viðbrögð þeirra við efnahagserfiðleikunum léleg og hægvirk. Lýsti hann ennfremur áhyggjum af framtíð evrusvæðisins einkum vegna þess að mikið skorti á samstarfsvilja evruríkjanna. Og vandræðagangurinn heldur áfram.

Í byrjun marsmánaðar lýsti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, með Joaquin Almunia ráðherra peningamála í broddi fylkingar, því yfir að til væri sérstök neyðaráætlun um hvernig komið yrði evruríkjum til bjargar ef þau gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar. Hins vegar væri ekki skynsamlegt að segja frá því út á hvað hún gengi. Í lok síðustu viku viðurkenndu leiðtogar Evrópusambandsins hins vegar að engin slík áætlun væri til þar sem evruríkin hefðu einfaldlega ekki getað komið sér saman um slíkt fyrirkomulag. Þetta hefur þótt afar vandræðalegt og um leið gott dæmi um þá ringulreið sem ríkt hefur í röðum forystumanna Evrópusambandsins vegna fjármálakrísunnar.

Heimildir:
No euro zone bailout plan exists-euro zone leaders (Forbes.com 20/03/09)
EU pledges eurozone rescue (Telegraph.co.uk 04/03/09)