ESB-aðild í viðtengingarhætti

Einhverjir hafa haldið því fram að Ísland hefði farið betur út úr hruninu ef
landið hefði verið í ESB og með evru. Slíkt er mikill misskilningur. Vangaveltur um hvað hefði gerst ef eitthvað hefði verið öðruvísi geta verið
áhugaverðar og þótt þær segir ekkert til um hlutina með vissu þá er hægt að
leiða líkum að því hvað hefði getað gerst.

Ef við hefðum verið með evru?
Það má t.d með rökum halda því fram að ef Íslendingar hefðu verið með evru í hruninu hefðu bankarnir líklega verið meiri að umfangi því stjórnendur þeirra töldu krónuna takmarka starfsemi þeirra og svigrúm til vaxtar og viðgangs.

Jafnframt má þá með rökum halda því fram að vinir okkar í Evrópu hefðu komið í veg fyrir samþykkt laga í líkingu við neyðarlögin og að skuldabyrðin hefði því fylgt bönkunum og jafnframt ríkissjóði lengur og af meiri þunga. Í því samhengi er fróðlegt að líta til þess sem gerðist og er að gerast á evrusvæðinu, m.a. í Grikklandi.

Ef AGS hefði komið hingað fyrr?
Á svipaðan hátt má segja að ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefð komið hingað áður en svokölluð neyðarlög voru sett er næsta víst að evrópsk öfl innan AGS hefðu komið í veg fyrir að skuldunum hefði verið létt af bönkunum með þeim hætti sem gert var og að hinu opinbera hefði verið gert að tryggja mun stærri hluta skulda bankanna, en umfang þessara skulda var meira en tíföld landsframleiðsla Íslendinga.  Það hefði líka þýtt griskt ástand hér á landi.

Ef við hefðum ekki verið á evrópska efnahagssvæðinu?
Það er svo umhugsunarefni að vera okkar á evrópska efnahagssvæðinu gerði bönkunum kleift að þenjast út í Evrópulöndum vegna nánast óheftrar útrásar á grunni evrópskra reglna. Nú eru allir málsmetandi menn þeirrar skoðunar að þessar reglur hafi veirð og séu meingallaðar.

Bankahrunið gerði það að verkum að landsframleiðsla skrapp hér saman um nánast 10%, en ef bankarnir hefðu ekki getað þanist út á grunni reglnanna hefði fallið verið mun minna. Ýmsir hafa
haldið því fram að með aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu hafi hagvöxtur hér á landi verið meiri en ella án þess að tölfræði um það liggi fyrir. Slíkar fullyrðingar bera oft keim af óskhyggju og skoðunum fylgjenda Evrópusamrunans.

Ef haft er í huga hversu framleiðslufallið var mikið vegna aðildar okkar að
evrópska efnahagssvæðinu hljóta flestir að sjá að heildarávinningur Íslendinga af þessari aðild að svæðinu  er í besta falli óviss,  en mjög líklega
neikvæður.

Í ljósi þessa hlýtur því að sæta undrun að einhver hér á landi skuli vilja
draga Ísland inn í Evrópusambandið með öllu sem því fylgir.