ESB hjálpar ekki við afléttingu hafta

Hörður Ægisson ritar pistil í Morgunblaðið 12. mars.

“Það er óumdeilt að skaðsemi gjaldeyrishaftanna fyrir íslenskt efnahagslíf stigmagnast með hverjum deginum sem líður. Trúverðug aðgerðaáætlun sem miðar að afnámi haftanna sem allra fyrst er því eitt brýnasta hagsmunamál Íslands um þessar mundir. Slík áætlun hefur enn ekki verið kynnt.

Það er hins vegar blekkingarleikur þegar því er stundum haldið á lofti – fyrst og fremst af talsmönnum annars stjórnarflokksins – að raunhæfasta leiðin í þeim efnum sé aðstoð frá Evrópska seðlabankanum í kjölfar þess að Ísland myndi samþykkja aðild að ESB.
Engin slík aðstoð er í boði. Í framvinduskýrslu vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB í síðasta mánuði er þar einnig ítrekuð sú skoðun Evrópuþingsins að afnám gjaldeyrishafta sé skilyrði fyrir aðild að sambandinu og upptöku evru.

Reynsla annarra ríkja, meðal annars Eistlands, sýnir ennfremur að þegar gengið er inn í gengissamstarf Evrópu (ERM2), sem er formlegt aðlögunarferli að upptöku evrunnar, þá er sú vist ekki fjármögnuð af Evrópska seðlabankanum, heldur fyrst og síðast af því ríki sem sækist eftir inngöngu í myntbandalagið.

Ísland þyrfti að bera hitann og þungann af því að verja gengi krónunnar á þröngu bandi gagnvart evru – að minnsta kosti í tvö ár – og slíkt myndi útheimta umtalsvert handafl í formi gjaldeyrisforða. Og þá kemur skuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans að litlu gagni.”