Evrópusambandið fær stöðu á við ríki innan SÞ

Ríki Evrópusambandsins hafa samþykkt að farið verði fram á það við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að sambandið fái hliðstæða stöðu á samkomum þeirra og ríki. Þannig getir t.a.m. forseti sambandsins ávarpað þær með sama hætti og t.d. forseti Bandaríkjanna eða hver annar þjóðarleiðtogi. Eins og fyrirkomulagið er í dag hefur sambandið sömu stöðu gagnvart SÞ og t.a.m. Atlantshafsbandalagið (NATO) og Arababandalagið.

Þetta samkomulag ríkja ESB er byggt á ákvæðum í Stjórnarskrá Evrópusambandsins (Lissabon-sáttmálanum). Bresk stjórnvöld gátu ekki lagst gegn samkomulaginu né önnur stjórnvöld innan sambandsins vegna þess að öll ríkin hafa þegar samþykkt stjórnarskrána. Í henni er m.a. kveðið á um að ESB sé sjálfstæð lögpersóna og geti sem slík gert samkomulag við ríki utan þess í eigin nafni.

Haft er eftir ónafngreindum embættismanni hjá ESB á fréttasíðunni Euobserver.com að tilgangurinn með samkomulaginu sé að auka vægi sambandsins á alþjóðavettvangi sem sjálfstæðrar einingar. Þess má geta að það er einmitt eitt einkenni ríkja samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum að þau geta átt í samskiptum og samningum í eigin nafni við önnur ríki og ríkjasambönd.

Heimild:
ESB fái stöðu á við ríki innan SÞ (Mbl.is 15/07/10)
EU to be given prominent UN role (Telegraph.co.uk 15/07/10)