Evrópusambandið mun reyna að blekkja Íslendinga

Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, var staddur hér á landi á dögunum og flutti m.a. erindi á fjölmennum fundi sem Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna, hélt sl. föstudag 16. júlí. Þar færði hann rök fyrir því hvers vegna Íslendingar ættu ekki að ganga í Evrópusambandið og að hagsmunum Íslands væri best borgið utan sambandsins.

Það sem einna helst þótti standa upp úr boðskap Hannans var að hann varaði við því að ESB ætti eftir að reyna að blekkja Íslendinga og telja þeim trú um að tekist hefði að tryggja yfirráð þeirra yfir auðlindum Íslandsmiða ef Ísland gengi í sambandið. Ekki verður þó kveðið á um það í hugsanlegum aðildarsamningi heldur í lögfræðilegri viðbót við hann.

Hannan sagði að nokkru eftir að Íslendingar hefðu gengið í ESB, yrði af því, myndi t.d. einhver útgerð á Spáni láta reyna á þessa viðbót fyrir dómstóli sambandsins sem myndi dæma hana ógilda á þeim forsendum að hún stangaðist á við sáttmála ESB sem kveða á um að sjávarfang sé sameiginleg auðlind sem ríki sambandsins eigi jafnan aðgang að.

Hannan sagði að hliðstætt hefði oft gerst, flest ríki ESB hefðu einhverja slíka reynslu. T.d. hefðu Bretar talið sig hafa fengið undanþágu frá reglum sambandsins um 48 stunda vinnuviku sem kveðið var á um í Maastricht-sáttmála ESB. Dómstóll sambandsins hefði hins vegar um tveimur árum síðar dæmt hana ógilda þar sem hún stangaðist á við sáttmálann.

Hannan sagðist ennfremur telja að halda ætti áfram með umsóknina um inngöngu í ESB, það væri eina leiðin til þess að ljúka málinu. Honum var hins vegar bent m.a. á að ekki væri um einfaldar samningaviðræður við sambandið að ræða heldur aðlögunarviðræður og að engar líkur væru á að málinu lyki þó umsóknin færi alla leið. Aðeins þyrfti að horfa til Noregs í því sambandi.

Hannan bar ekki á móti þeim röksemdum. Hafa verður í huga í þessu sambandi að hann er mikill og þekktur talsmaður þjóðaratkvæðagreiðsla í Evrópu. Á fundinum hjá Heimdalli tók hins vegar aðspurður skýrt fram að það væri alls ekkert ólýðræðislegt við það ef meirihluti Alþingis, sem samþykkt hefði umsóknina um inngöngu í ESB, ákveddi að taka þessa sömu umsókn til baka.