Framkvæmdastjóri AGS óttast um afdrif evrusvæðisins

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS), óttast að vaxandi munur milli hagkerfa þeirra sextán Evrópusambandsríkja sem mynda evrusvæðið geti sundrað myntbandalaginu. Þetta kemur fram í viðtali við Srauss-Khan í þýska vikuritinu Die Zeit í gær 29. janúar.

Srauss-Khan segir ennfremur í viðtalinu að auka verði samræmingu stefnu evruríkjanna í efnahagsmálum annars verði mismunur milli ríkjanna of mikill og stöðugleika myntbandalagsins þar með ógnað. Hann hvatti Seðlabanka Evrópusambandsins til þess að auka aðgerðir sínar í efnahagsmálum. Til að mynda með því að lækka stýrivexti enn frekar. 

Undanfarin ár hafa vaxandi áhyggjur komið fram hjá fræðimönnum, fjármálastofnunum og stjórnmálamönnum um framtíð evrusvæðisins og því að svæðið kunni hreinlega að liðast í sundur. Sú fjármálakreppa sem ríkir í heiminum um þessar mundir hafa aukið verulega á þær áhyggjur.

Heimild:
Strauss-Kahn: Óttast um afdrif evru-svæðisins (Mbl.is 28/01/09)