Fullveldið, makríllinn og ESB

eftir Ásmund Einar Daðason formann Heimssýnar

Makríllinn hóf göngu sína á Íslandsmið fyrir nokkrum árum og skýrist það líklega af langtímabreytingum á veðurfari. Árið 2011 voru útflutningsverðmæti makríls 24 milljarðar króna. Aðeins þorskurinn skilaði þjóðinni meiri verðmætum úr sjó. Ísland stendur nú í deilu við Evrópusambandið vegna makrílsins.

Lengi vel tregðaðist sambandið við að viðurkenna fullveldisrétt Íslendinga og vildi einhliða skammta okkur hlutdeild í veiðunum. Möguleg skýring á afstöðu Brusselmanna er að ríkisstjórn Íslands sótti um aðild að Evrópusambandinu. Pólitísk framtíð annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, er háð því að Ísland verði aðili að ESB.

Hafrannsóknastofnanir á Íslandi, Færeyjum og Noregi áætla að rúm milljón tonn af makríl hafi gengið á Íslandsmið árið 2010. Vísbendingar eru um að makríllinn hrygni hér við land og verði við það staðbundinn stofn en ekki flökkustofn. Evrópusambandið og Noregur tóku sér rúmlega 90 prósent af ráðlögðum heildarafla. Ísland og Færeyjar áttu að skipta með sér afganginum. Sanngjarn hlutur Íslendinga er á bilinu 16 til 20 prósent og var þeirri kröfu haldið fram – í það minnsta af fyrrum aðalsamningamanni Íslands í deilunni, sem var skipt út af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vegna þess að hann hélt kröfum Íslands of stíft fram að mati ESB-sinna.

Evrópusambandið, sem fer með fullveldisrétt Íra og Skota, hótar Íslendingum öllu illu ef við gefum ekki frá okkur strandríkjaréttinn. Átakanlegt var að heyra formann utanríksmálanefndar Alþingis, Árna Þór Sigurðsson, biðja forseta framkvæmdastjórar ESB um vægð til að Ísland mætti halda áfram »aðlögunarferli« að ESB. Árni biðlaði til Barrosos á fundi í Kaupmannahöfn 23. apríl og tók sér hugtakið »accession process« í munn en það verður ekki þýtt öðruvísi en sem »aðlögunarferli.« En bæði Árni Þór og nánasti samherji hans, Össur Skarphéðinsson, hafa löngum neitað því að Ísland sé í aðlögunarferli að ESB.

Í stað þess að knékrjúpa fyrir valdinu í Brussel væri nær að senda Evrópusambandinu skýr skilaboð um að fullveldisréttur okkar verður ekki framseldur. Íslendingar háðu landhelgisstríð við stórveldi Evrópu til að tryggja hagsmuni sína sem strandríkis. Við þurfum nýja ríkisstjórn hér á landi sem stendur í lappirnar gagnvart ofbeldi Evrópusambandsins.

(Greinin birtis í Morgunblaðinu 28. apríl 2012)