Fundur um Bretland og EES á vegum Evrópu­vaktarinnar

Fundur um Bretland og EES á vegum Evrópu­vaktarinnar kl. 12:00, fimmtudaginn 30. janúar í Háskóla Íslands

Evrópuvaktin, RNH (Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt) og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands boða til hádegisfundar fimmtudaginn 30. janúar klukkan 12.00 til 13.00 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, með dr. Richard North sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á Evrópusambandinu og sérstaklega stöðu Breta innan þess.

Richard North

Miklar umræður eru nú í Bretlandi um framtíðarsamband landsins og ESB. David Cameron forsætisráðherra hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB á árinu 2017 fái hann brautargengi í þingkosningum 2015. Mörg viðhorf eru reifuð og dr. Richard North hefur fært rök fyrir því sem hann kallar Norway Option – norska kostinn. Þar lítur hann á samband Noregs við ESB á grundvelli EES-samningsins. Skoðanir hans á því efni eiga ekki síður erindi til Íslendinga en Breta eða Norðmanna.

Dr. Richard North stundar rannsóknir og greiningu á stjórnmálum og þróun þeirra. Hann er rithöfundur og bloggari. Hann hefur starfað á öllum stigum stjórnsýslu en hóf störf að umhverfis-heilbrigðismálum á sveitarstjórnarstigi. Hann sinnti hagsmunagæslu fyrir smáframleiðendur í viðskiptalífinu, var í fjögur ár rannsóknastjóri fyrir stjórnmálaflokk á ESB-þinginu. Í tíu ár hefur hann starfað sem sjálfstæður ráðgjafi fyrir breska þingmenn og ráðherra í ríkisstjórn Bretlands.

Richard hefur skrifað nokkrar bækur með blaðamanninum Christopher Booker og má þar nefna Mad Officials og Great Deception – the definitive history of the European Union auk þess Scared to Death þar sem lýst er fyrirbærinu hræðsla. Þá hefur hann sjálfur skrifað nokkrar bækur þar á meðal Ministry of Defeat um misheppnaðar aðgerðir Breta í suðurhluta Íraks og Many Not the Few, um hina hliðina á orrustunni um Bretland í síðari heimsstyrjöldinni. Nýjasta ritverk hans ber heitið The Norway Option sem er gefið út af Bruges Group og snýst um tengsl Noregs við ESB.

Richard stóð með öðrum að því að koma á fót lýðræðishreyfingunni The Harrogate Agenda og hann bloggar á síðunni EUreferendum.com þar sem hann greinir og segir álit sitt á þróun ESB-málefna. Hann er einn þeirra sem keppa til úrslita í ritgerða- og tillögusamkeppni á vegum IEA, Institute of Economic Affairs í London, um svonefnd Brexit-verðlaun, það er stöðu Bretlands eftir úrsögn úr ESB, keppninni er ekki lokið.

Tekið af vef Evrópuvaktarinnar