Gætum breyst í kvótalaust sjávarþorp innan ESB

Fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhann Ársælsson, varaði við því í viðtali við DV í gær að Ísland gangi í Evrópusambandið með tilliti til sjávarútvegshagsmuna Íslendinga. Ef til inngöngu í sambandið kæmi gætu landsmenn hæglega lent í hliðstæðri stöðu og kvótalaust sjávarþorp. Orðrétt er haft eftir Jóhanni í viðtalinu:

„Ef við göngum í ESB verðum við að viðurkenna strax að erlendir atvinnurekendur gætu komið inn í greinina hér, erlent fjármagn gæti komið inn í útgerðina og ekki væri loku fyrir það skotið að þeir eignuðust kvóta þar sem hann gengur kaupum og sölum. Með ríkjandi fyrirkomulagi gætum við breyst í kvótalaust sjávarþorp.“