Grikkir fá fyrst lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Þær aðgerðir sem Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til í því skyni að aðstoða Grikkland í efnahagsvandræðum landsins kveða á um að Grikkir fái fyrst lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og aðeins komi til lánveitinga frá öðrum ríkjum sambandsins ef þau lán duga ekki. Lánveitingarnar verða hins vegar undir sameiginlegu eftirliti AGS og stofnana Evrópusambandsins. Frá þessu var greint í breska viðskiptablaðinu Financial Times í gær.

Rétt er í þessu sambandi að rifja það upp að talsmenn inngöngu Íslands í ESB hafa m.a. fullyrt að ekki hefði komið til þess að Ísland hefði leitað á náðir AGS ef landið hefði verið í sambandinu. Þá hefði ESB einfaldlega komið Íslandi til hjálpar. Nú er hins vegar komið á daginn að slík björgun af hálfu sambandsins er ekki í boði og ennfremur að því fer fjarri að vera innan þess bjargi ríkjum frá því að þurfa að leita til AGS.