Hætta á að ESB verði annars flokks markaðssvæði

Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, varaði við því í ræðu sem hann flutti í Rúmeníu í vikunni að Evrópusambandið ætti á hættu að verða annars flokks markaðssvæði ef ekki yrði gripið til tafarlausra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að sambandið drægist aftur úr Bandaríkjunum og Asíu. Raunveruleg hætta væri á því að Evrópusambandið færðist út á jaðarinn á næstu 10-20 árum og sæti eftir á meðan baráttan um forystu í efnahagsmálum heimsins yrði á milli Bandaríkjanna og Asíu.

Þess má geta að því hefur um árabil verið spáð að ESB væri hnignandi markaðssvæði og að hlutdeild sambandsins í heimsviðskiptunum ætti eftir að dragast verulega saman á næstu áratugum á meðan Bandaríkin og Asía sæktu fram. Ef marka má orð Strauss-Kahn hafa áhyggjur af þessu aukist mjög í kjölfar alþjóðlegu efnahagskrísunnar en greina má aukinn þunga í ummælum hans miðað við fyrri yfirlýsingar.

Heimildir:
AGS: Evrópa forðist aðra deild (Mbl.is 30/03/10)
Strauss-Kahn appelle l’UE à agir pour éviter la “deuxième division” (Afp.com 30/03/10)