Heimssýn stofnar Suðurlandsdeild

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hefur stofnað sérstakt svæðisfélag á Suðurlandi. Tekin var ákvörðun um það á opnum fundi sem samtökin héldu í Þingborg síðastliðið þriðjudagskvöld. Þar kom fram áhugi á að leggja lið baráttunni fyrir áframhaldandi fullveldi Íslands sem og áhyggjur fundarmanna af stöðu mála undir núverandi ríkisstjórn.
Frummælendur á fundinum voru fulltrúar frá samtökunum Nei til EU í Noregi og fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka, Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður frá Framsóknarflokki, Atli Gíslason alþingismaður frá VG og Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi frá Sjálfstæðisflokki. Fram kom í máli Dag Seierstad sem er norskur sérfræðingur í málefnum Evrópusambandsins að í samningaviðræðum við ESB fengu Norðmenn engar varanlegar undanþágur frá regluverki ESB. Það hafi heldur ekki verið niðurstaðan við inntöku annarra landa og engar líkur geti talist á að Ísland breyti meginreglum ESB.
 
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna töluðu gegn aðild og fram kom í máli Sigurðar Inga að nýlega framkomin þingsályktunartillaga gengi gegn flokkssamþykkt Framsóknar og fengi því ekki stuðning þingamanna flokksins.
 
Í lok fundarins í Þingborg var skipuð bráðabirgðastjórn fyrir aðildarfélag Heimssýnar á Suðurlandi. Hana skipa eftirtaldir; Eyþór Arnalds bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri í Árborg, Guðni Ágústsson fv. ráðherra, Selfossi, Þór Hagalín framkvæmdastjóri Eyrarbakka, Sigurlaug B. Gröndal skrifstofumaður Þorlákshöfn og Axel Þór Kolbeinsson tölvumaður Hveragerði.
 
Heimssýn er þverpólitískt félag þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga betur borgið utan ESB. Formaður félagsins er Ragnar Arnalds og varaformaður Sigurður Kári Kristjánsson.