Heimssýn Vestmannaeyjum stofnað

Stofnfundur Heimssýnar Vestmannaeyjum var haldinn í dag 18. október í kjölfar fundar um Evrópumál í Eyjum þar sem Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, flutti framsögu. Á stofnfundinum var stjórn kjörin og lög samþykkt. Í fyrstu stjórn félagsins sitja eftirtaldir: Páley Borgþórsdóttir formaður, Sólveig Adólfsdóttir varaformaður, Jórunn Einarsdóttir, Sigurður E. Vilhelmsson og Borgþór Ásgeirsson.

Stofnfundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:

“Heimssýn Vestmannaeyjum skorar á ríkisstjórn Íslands að draga umsókn um aðildarviðræður við Evrópusambandið til baka. Í þeim efnahagslegu þrengingum sem Ísland á nú í þykir óhæft að standa í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Staða Íslands meðal annarra þjóða hefur boðið hnekki í efnahagshruninu og Íslendingar þar af leiðandi ekki í stakk búnir fyrir aðildarviðræður. Ennfremur telur hreyfingin að viðbrögð Evrópulanda við erfiðum aðstæðum á Íslandi sýni svo ekki verður um villst þá stöðu sem Ísland kemur ætíð til með að eiga í gagnvart Evrópusambandinu. Íslendingar verða ávallt fámenn þjóð andspænis stórum Evrópulöndum sem hika ekki við að beita sér gegn minni ríkjum í krafti stærðarinnar.”