Hlutlægt og huglægt

Tómas Ingi Olrich

Eftir Tómas Inga Olrich – birtist í MBL 2. mars 2012

Í fyrradag sat sá, sem þetta ritar, fund svonefndrar Evrópustofu, sem kynnir sig sem hlutlæga upplýsingaveitu um málefni ESB. Nú er flestum ljóst að Evrópusambandið er ekki hlutlaus stofnun heldur hápólitísk. Þegar slík stofnun setur sér það markmið og þann metnað að stunda hlutlæga og ópólitíska upplýsingamiðlun, þá vekur slík yfirlýsing að sjálfsögðu spurningar, sem varða trúverðugleika.
Á sínum tíma var hér á landi rekin mikilvirk menningar- og áróðursstofnun á vegum Sovétríkjanna, sem gekk undir nafninu MÍR. Þá starfaði hér einnig Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna (US Information Service). Fáir aðrir en starfsmenn þeirra stofnana létu sér detta í hug, að þar færi fram hlutlæg, hvað þá heldur hlutlaus upplýsingamiðlun. Munurinn var hins vegar sá, að Ísland hafði hvorki sótt um inngöngu í Bandaríki Norður-Ameríku né í Sovétríkin. Hlutleysisyfirlýsingar slíkra stofnana voru því léttvæg lóð og spaugileg á vogarskálum tvískiptingar heimsins á dögum kalda stríðsins.

Upplýsingafund ESB á Hótel KEA sat m.a. Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi. Hann lýsti því yfir að til stæði, væntanlega á vegum hans sjálfs og ESB, að skapa (create) umræðu um ESB á Íslandi. Áður hafði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Evrópustofu, lýst því yfir, að ekki stæði til að hafa áhrif á umræðuna. Ekki er ljóst hvort hér er um að ræða einfeldni eða tvöfeldni.

Ég benti Timo Summa á, að umræða um ESB hefði farið fram á Íslandi frá því í lok níunda áratugar síðustu aldar, og hefði aukist til mikilla muna eftir að ríkisstjórnin sótti um aðild. Svaraði hann því til að hann hefði kynnt sér þá umræðu. Hún væri léttvæg og grunnfærin og ekki á nokkurn hátt sambærileg við þá umræðu og útgáfustarfsemi, sem farið hefði fram á Norðurlöndum. Auðvitað er sjálfsöryggi góður eiginleiki, en drýldni er það ekki, hvort sem hún er persónulegt framlag eða stunduð í nafni Evrópusambandsins. Þegar fulltrúar ESB tala af slíkri sjálfumgleði, þurfa þeir helst að varast að falla umsvifalaust í fyrstu gildruna sem gín við þeim, ekki síst ef þeir grafa hana sjálfir.

Undir lok fundarins lauk Morten Jung, sem er yfirmaður Íslandsmála innan stækkunarskrifstofu ESB, »hlutlægri« umfjöllun um ESB með því að lýsa því yfir að ESB hefði reynst vera mjög úrræðagóð og traust stofnun í efnahagskreppunni og hefði nú leyst hana. Eftir allt það japl, jaml og fuður, sem einkennt hefur viðbrögð forystu ESB við skuldakreppu aðildarríkjanna, og alla þá óvissu sem enn ríkir um úrlausn þess mikla máls, þá er það mjög svo huglægt mat, svo ekki sé dýpra tekið í árinni, að halda því fram að málið sé leyst. Alla vega er það víðs fjarri því sem á íslensku heitir hlutlæg umfjöllun.
Fyrstu skref Upplýsingaskrifstofu ESB á Íslandi hér norðan heiða eru ekki gæfuleg.