Hvað með yfirráðin yfir örlögum okkar?

myndÍ umræðum um Evrópumál hafa margir sagt að innganga í Evrópusambandið komi ekki til greina nema yfirráð okkar Íslendinga yfir náttúruauðlindum landsins verði tryggð og þá sér í lagi í sjávarútvegi. Það markmið er að sjálfsögðu gott og gilt þó engar líkur geti talizt á því að það næðist í viðræðum við sambandið og allar vangaveltur í þá veru hafi verið æði langsóttar svo vægt sé til orða tekið. En hvað með yfirráðin yfir örlögum okkar? Frelsið til að stjórna okkur sjálf í samræmi við það sem við teljum okkur fyrir beztu? Hvaða gagn yrði að því, jafnvel þó við héldum yfirráðunum yfir auðlindum landsins, ef við glötuðum yfirráðunum yfir okkur sjálfum?

Sjálfstæði og fullveldi okkar Íslendinga er svo miklu meira en einungis yfirráðin yfir þeim auðlindum sem okkar góða land hefur upp á að bjóða þó þau yfirráð séu okkur svo sannarlega gríðarlega mikilvæg. Sjálfstæðið og fullveldið snýst einmitt fyrst og fremst um yfirráð okkar yfir eigin örlögum. Yfir okkur sjálfum. Að VIÐ tökum ákvarðanir um okkar mál, þá annað hvort með beinum hætti eða í gegnum kjörna fulltrúa okkar, en ekki aðilar sem hafa engar ástæður eða þá hvata til þess að taka eitthvert tillit til íslenzkra hagsmuna.

Ef Ísland yrði hluti af Evrópusambandinu þýddi það að íslenzkt lýðræði heyrði sögunni til. Ákvaðanir um okkar mál yrðu þá ekki lengur teknar af einstaklingum sem við kysum til þeirra starfa heldur stjórnmálamönnum annarra ríkja sem aðrir kysu en þó fyrst og fremst embættismönnum sambandsins sem enginn kýs og hafa því hvorki lýðræðislegt umboð frá neinum né búa við nokkuð lýðræðislegt aðhald. Yfir þessum aðilum hefðu íslenzkir kjósendur ekkert að segja og litla sem enga möguleika á að hafa nokkur áhrif á.

Það má svo sannarlega ýmislegt betur fara í okkar lýðræðiskerfi og það er m.a. verkefnið framundan að færa þau mál til betri vegar. En það er eins ljóst að innganga í Evrópusambandið yrði sízt skref fram á við í lýðræðisátt. Ofan á allt annað, sem fórna yrði á altari Evrópusambandsins kæmi einhvern tímann til þess að Ísland yrði hluti af því, þýddi innganga í sambandið einfaldlega endalok íslenzks lýðræðis.

Hjörtur J. Guðmundsson,
stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum