Hverju gætu viðræður við ESB mögulega breytt?

Umræðan um Evrópumál hér á landi á undanförnum vikum og mánuðum hefur verið nokkuð sérstök á köflum. Einhverjir hafa þannig lýst þeirri skoðun sinni að hefja beri viðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið til þess að fá einhvern botn í málið eins og það hefur verið kallað. Það er eins og þessir aðilar ímyndi sér að ef slíkar viðræður færu fram og þjóðaratkvæði yrði haldið um málið yrði það afgreitt um aldur og ævi. Þar með fengist einhvers konar lokapunktur í það og í framhaldinu væri hægt að taka það hreinlega af dagskra. Það væri einfaldlega afgreitt. Fátt er þó fjarri lagi.

Frændur okkar Norðmenn hafa tvisvar afþakkað inngöngu í Evrópusambandið og forvera þess sem ekki hefur breytt því að enn er tekizt á um málið þar í landi rétt eins og áður. Umræðan um Evrópumálin hófst aftur strax daginn eftir að þjóðaratkvæðin fóru fram eins og ekkert hefði í skorizt. Sama á við um þjóðir sem hafa gengið í Evrópusambandið eins og t.d. Dani og Svía. Þar hefur umræðan ekki hætt nema síður sé. Hins vegar er það svo að þjóðum sem hafna inngöngu er gert að kjósa aftur og aftur um hana þar til hún fæst samþykkt en sé innganga samþykkt er aldrei kosið um hana aftur.

Þegar er vitað í langflestum tilfellum hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér fyrir okkar Íslendinga. Innganga þýddi endalok íslenzks lýðræðis og fullveldis þar sem ákvarðanir um flest íslenzk mál yrðu ekki lengur teknar af fulltrúum íslenzkra kjósenda heldur stjórnmálamönnum annarra þjóða og þó fyrst og fremst embættismönnum Evrópusambandsins sem enginn kýs og sem hafa því ekkert lýðræðislegt umboð frá neinum. Yfir þessum aðilum hefðum við Íslendingar ekkert að segja og enga möguleika á að hafa áhrif á. Örlög okkar sem þjóðar væru ekki lengur í okkar eigin höndum heldur annarra.

Yfirráðin yfir auðlindinni í hafinu í kringum landið okkar færðust til Evrópusambandsins sem eftirleiðis tæki ákvarðanir um flest sem viðkæmi sjávarútvegi hér á landi. Engin trygging væri fyrir því að aflaheimildum við Ísland yrði eftirleiðis einungis úthlutað til Íslendinga og ekkert gæti komið í veg fyrir að þær færðust í hendur erlendum aðilum. Íslenzkur landbúnaður yrði fyrir miklum áföllum og liði að miklu leyti undir lok sem aftur setti fæðuöryggu landsmanna í algert uppnám. Við yrðum svipt frelsi okkar til þess að semja með sjálfstæðum hætti um t.a.m. viðskipti og fiskveiðar við ríki utan Evrópusambandsins en þar er um gríðarlega hagsmuni að ræða. Og svona mætti lengi halda áfram.

Hvað gæti mögulega komið út úr viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið sem gæti skákað því sem nefnt er hér að ofan? Það að vilja fara í slíkar viðræður er í raun eins og að ætla að semja um viðskipti við aðila sem vitað er að mun fara illa með mann þó að einhverju leyti sé kannski vafi á því nákvæmlega hversu illa. Það fer einfaldlega bezt á því að við Íslendingar höldum áfram að vera sjálfstæð þjóð og standa vörð um okkar eigin hagsmuni. Það gera það ekki aðrir fyrir okkur.

Hjörtur J. Guðmundsson,
stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum