Hvers vegna sögðu Norðmenn nei?

mFrændur okkar Norðmenn hafa tvívegis efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu, ESB, (áður Evrópubandalaginu), árin 1972 og 1992. Raunar má rekja samskiptasögu Norðmanna við bandalagið aftur til upphafs sjöunda áratugar en þá var talsverð umræða í Noregi um aðild, en aldrei var þó látið á hana reyna þá, líklega vegna andstöðu innan bandalagsins sjálfs, þótt pólitískar aðstæður í Noregi hafi líka haft sitt að segja.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð stóð fyrir málþingi um Ísland og Evrópu þann 10. janúar sl. Var þar margt ágætra erinda og umræða góð og málefnaleg. Frá Noregi kom Dag Seierstad, landsþekktur baráttumaður gegn aðild Noregs að ESB og forystumaður í SV (Sosialistisk Venstreparti), flokks Kristinar Halvorsen fjármálaráðherra Noregs. Eftir Dag liggur fjöldi greina, bóka og bæklinga, einkum um Evrópumálefni (sumt af því má nálgast á vefsíðunni www.neitileu.no og einnig beint http://neitileu.no/kunnskapsbank/publikasjoner/kronikker_av_dag_seierstad

Í erindi sínu fjallaði Dag Seierstad um umræðuna í Noregi um ESB-aðild og helstu ástæður þess að Noregur hefur tvívegis hafnað aðild, enda þótt meirihlutinn í stjórnmálalífi, atvinnulífi og fjölmiðlum hafi stutt aðild (það er reyndar sama mynstur og við höfum séð í öðrum löndum þar sem fram hafa farið þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök málefni ESB, t.d á Írlandi, í Danmörku, Frakklandi og Hollandi).

Það er fróðlegt fyrir okkur að skoða hvaða rök hafa vegið þyngst í Noregi. Ekki vegna þess að aðstæður séu að öllu leyti sambærilegar eða að við Íslendingar metum málin á nákvæmlega sama hátt og Norðmenn. Miklu fremur vegna þess að við eigum þrátt fyrir allt margt sameiginlegt, atvinnulíf hér og í Noregi er miklu sambærilegra heldur en innan Evrópusambandsins að jafnaði, bæði löndin eru aðilar að samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið og hafa þannig sömu stöðu gagnvart ESB, bæði löndin liggja í útjaðri Evrópu og hafa langa strandlengju og eru þannig langtum háðari sjávarútvegi en nokkurt land innan ESB (reyndar má segja að þar sé himinn og haf á milli og ESB er afar háð viðskiptum við þessi tvö lönd með sjávarafurðir). Af þessum og fleiri ástæðum er gagnlegt að skoða reynslu Norðmanna. Helstu ástæður þess að segja nei við aðild að ESB eru m.a. að mati Dags Seierstad:

 1. Frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og vinnuafls yfir svo stórt landfræðilegt svæði sem ESB er, býr til miðstýringu í stórum stíl: miðstýringu atvinnulífs og valds.
 2. ESB eykur fjarlægðina milli þess sem stjórnar og þess sem er stjórnað. Pólitískt kerfi ESB einkennist af meira skrifræði, minna lýðræði en ríkir í einstökum aðildarlöndum. Það er sérstaklega umhugsunarvert við þær aðstæður að almenningur í flestum löndum er í æ minna mæli virkur í stjórnmálastarfi. Flokkar missa félaga og það verður æ erfiðara að fá fólk til að taka að sér pólitísk trúnaðarstörf í sveitarfélögunum.
 3. Innan Evrópusambandsins munu stéttarfélög og önnur grasrótarsamtök mæta öflugri mótherjum og það verður lengri leið að þeim sem taka ákvarðanir. Ef Noregur fer inní ESB mun vald flytjast til, einnig innan samfélagsins í Noregi, frá jaðarbyggðum til miðsvæða, frá grasrótinni til elítunnar. Það eru elíturnar sem eru miðsvæðis sem eiga auðveldastan aðgang að valdakjarnanum í Brussel.
 4. Evrópusambandið steypir allt í sama mót. Lausnir sem henta meirihlutanum í ESB, verða að gilda fyrir alla. Noregur mun t.a.m. ekki getað rekið byggðastefnu sem hentar legu og lögun landsins og byggðamynstri. ESB-kerfið er því miklu meira en samstarf um þau viðfangsefni sem verður að sameinast um. ESB gerir samfélagsþróunina í Evrópu einsleita með því að krefjast þess að sömu reglur gildi alls staðar án tillits til þess hvort þær henti jafn vel alls staðar.
 5. Innri markaðurinn byggir á hefðbundinni vaxtarhagfræði, þar sem hin harða samkeppni milli jafnstæðra fyrirtækja á að leiða til eins skjótfengins hagvaxtar og unnt er. Þessi vaxtarhagfræði eykur umhverfisvandamálin, auk þess sem ýmsar aðgerðir í umhverfismálum verða að víkja af því að þær eru taldar samkeppnishindrandi og koma í veg fyrir flæði vöru yfir landamæri.
 6. Væri Noregur aðili að Evrópusambandinu væri landið skuldbundið til að gerast aðili að myntbandalaginu. En Noregur er það land í Vestur-Evrópu sem fellur verst að þessu myntbandalagi. Hátt verð á olíu og gasi þjónar hagsmunum Noregs en er skaðlegt fyrir önnur lönd í Evrópu. Þegar ESB hefur þörf fyrir hagstjórn sem eykur kaupmátt í samfélaginu, þarf Noregur að standa á bremsunni og öfugt. Þegar olíuverð hækkar þurfa flest ríki ESB að lækka vexti til að hleypa lífi í atvinnustarfsemina, en Noregur þarf á háum vöxtum að halda til að koma í veg fyrir ofþenslu. Og þegar olíuverðið lækkar er þessu öfugt farið. Flest ríki ESB þurfa þá að hækka vexti en Noregur þarf lága vexti. En í myndbandalaginu er vaxtastigið hið sama alls staðar. Við þurfum sem sagt stöðugt á að halda efnahagspólitík sem er í andstöðu við það sem ESB þarf á að halda.
 7. Í reiptoginu á alþjóðavettvangi hefur ESB oftast hvatt til hnattvæðingar sem dregur úr valdi þjóðríkja og einstakra samfélaga til að ráða eigin þróun. Noregur hefur stutt þá hnattvæðingu sem á sér stað innan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. En fyrir Norðmenn er mun einfaldara að breyta norskri pólitík en það væri að breyta pólitík ESB ef landið væri þar aðili. ESB er þannig byggt upp að barátta fyrir breyttri pólitík krefst miklu stærri og stöðugri pólitísks meirihluta en þarf til að breyta pólitíkinni í landi eins og Noregi.
 8. Utan ESB hefur Noregur tillögu- og málfrelsi í alþjóðasamfélaginu sem bæði Danmörk og Svíþjóð misstu þegar þau gengu í sambandið. Það á við um öll svið þar sem Evrópusambandið hefur tekið yfir ákvörðunarvald frá aðildarríkjunum. Þar semur framkvæmdastjórn ESB fyrir hönd aðildarríkjanna í öllum alþjóðlegum samningum. Í nokkrum tilfellum á sviði alþjóðlegra umhverfismála hafa síðustu ríkisstjórnir Noregs nýtt tillögu- og málfrelsið á fyrirmyndar hátt.
 9. Þessi tillögu- og málfrelsisréttur á alþjóðlegum ráðstefnum er ómetanlegur hluti af athafnafrelsinu utan ESB. Það gefur hinni pólitísku baráttu í Noregi þýðingu fyrir miklu stærri hluta þjóðarinnar en ef ríkisstjórnirnar kannski, kannski ekki væru að takast á pólitískt langt inni í völundarhúsi ESB-kerfisins.
 10. Yfirþjóðlegt fyrirkomulag er nauðsynlegt, en ef það á að samrýmast lýðræðislegri samfélagsskipan má hið yfirþjóðlega aðeins ná til þess sem er allra nauðsynlegast. Hið yfirþjóðlega vald ESB nær til miklu fleiri málasviða og það takmarkar athafnafrelsi þjóða á röngum sviðum.
 11. Utan ESB getum við áfram rekið okkar eigin stefnu í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Það þýðir að við getum byggt upp landbúnað sem styðst í meira mæli við lífræna ræktun og sem krefst mikils vinnuafls. Ennfremur að við getum haldið við betra jafnvægi milli strandveiða og úthafsveiða og þannig tryggt hærra atvinnustig í sjávarútveginum.
 12. Utan ESB afhendum við bandalaginu ekki umboð til að móta stefnu okkar í viðskiptum við þróunarlönd.
 13. Og utan sambandsins höldum við málfrelsinu í mikilvægum alþjóðlegum samningaviðræðum á öllum sviðum þar sem ESB semur fyrir hönd aðildarríkja sinna.

Ég rek þessi atriði úr erindi Dags Seierstad hér vegna þess að mörg þeirra eiga vel við um aðstæður hér á Íslandi. Ekki öll og sum misvel, en engu að síður er margt sem við eigum sameiginlegt með Norðmönnum hvað varðar sambandið við ESB. Hagstjórnarrökin, rökin um málefni sjávarútvegs og landbúnaðar og byggðamál eiga vel við, og svo að sjálfsögðu allt sem sagt er um lýðræði og sjálfstæða rödd í alþjóðasamfélaginu. 

Í Noregi fór fram ítarleg umræða um ESB-málin, bæði í kringum atkvæðagreiðsluna 1972 og eins 1992. Þar var ekki hrapað að ákvörðun heldur stóð umræðan og upplýsingaöflun í mörg ár og síðan aðildarviðræður sem skiluðu Norðmönnum einungis 3ja ára aðlögunartíma hvað varðaði sjávarútveginn. Það reyndist þeim óaðgengilegt og eitthvað í þá veru væri okkur enn frekar óaðgengilegt.

Það er mikilvægt að við Íslendingar förum ekki fram úr sjálfum okkur í þessu máli. Við búum að skelfilegri reynslu af því að hafa hlaupið of hratt í kapphlaupinu um að græða mest og eiga mest. Við skulum því anda rólega og takast á við þau viðfangsefni sem eru hvað brýnust nú um stundir. Hitt hleypur ekki frá okkur ef svo skyldi fara að þjóðin vilji að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Og hún á sjálf að taka þá ákvörðun.

Árni Þór Sigurðsson,
þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

(Birtist áður í Morgunblaðinu 21. janúar 2009)