Írar láta undan hótunum Evrópusambandsins

Írar samþykktu Lissabon-sáttmálann (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) í þjóðaratkvæði sem fram fór sl. föstudag 2. október. Niðurstöðurnar lágu fyrir í gær og kaus mikill meirihluti með sáttmálanum. Írskir kjósendur höfnuðu sama sáttmála á síðasta ári en þar sem sú niðurstaða var ráðamönnum í Brussel ekki að skapi var hún höfð að engu og þjóðaratkvæðið endurtekið nú. Þetta er í samræmi við þá vinnureglu Evrópusambandsins að í þau fáu skipti sem almenningur er hafður með í ráðum varðandi samrunaskref innan sambandsins sé kosið aftur og aftur þar til niðurstaða fæst sem er ráðamönnum sambandsins þóknanleg og síðan aldrei kosið aftur.

Evrópusambandið hótaði Írum óspart efnahagslegri og pólitískri einangrun ef þeir ekki samþykktu Lissabon-sáttmálann sem og að efnahagur Írlands skaðaðist ef honum yrði hafnað. Írskt efnahagslíf hefur átt í miklum erfiðleikum og því má búast fastlega við því að hótanir sambandsins hafi haft mikil áhrif á írska kjósendur. Ekki má gleyma því að vegna veru sinnar í Evrópusambandinu eru Írar í raun undir hæl sambandsins og geta t.d. ekki átt í frjálum viðskiptum við önnur ríki og efnahagssvæði á eigin forsendum eins og t.d. Íslendingar. Vegna evrunnar geta Írar heldur ekki fellt gengi gjaldmiðils síns til þess að auka samkeppnishæfni írsks útflutnings og þannig hraðað efnahagsbata.