Jacques Delors segist svartsýnn á framtíð evrunnar

Í viðtali við þýska fjármálatímaritið Capital fyrr í vikunni lýsti fyrrum forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jacques Delors, áhyggjum sínum af því að svo kynni að fara að evrusvæðið lifði ekki yfirstandandi efnahagskrísu af. Delors, sem var forseti framkvæmdastjórnarinnar 1985-1995, sagði að hann gæti séð fyrir sér aukinn þrýsting sterkari evruríkja á þau sem veikari eru að fylgja betri efnahagsstefnu eða yfirgefa evrusvæðið að öðrum kosti.

Delors gagnrýndi evruríkin harðlega fyrir skort á nauðsynlegum samstarfsvilja og samráði og þá sérstaklega stærsta hagkerfi evrusvæðisins, Þýskaland. „Ef sú grunnforsenda, að nauðsynlegt sé að hafa meira samráð áður en gripið er til aðgerða, er ekki samþykkt þá er ég svartsýnn á framtíð evrunnar,“ sagði forsetinn fyrrverandi. Hann gagnrýndi ráðamenn Evrópusambandsins ennfremur fyrir viðbrögð þeirra við efnahagskrísunni og sagði þau „léleg“ og „hægvirk“.

Delors bætist þar með í hóp vaxandi fjölda stjórnmálamanna, fræðimanna og fjármálastofnana sem lýst hafa áhyggjum af framtíð evrusvæðisins og evrunnar á undanförnum árum en þó einkum undanfarnar vikur og mánuði. Skemmst er t.a.m. að minnast þess að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, lýsti miklum áhyggjum sínum af framtíðarmöguleikum evrusvæðisins í janúar síðastliðnum.

Heimild:
Delors pessimistic about eurozone future (Euobesrver.com 18/03/09)