Kostar umsóknarferlið að ESB yfir 10 milljarða króna?

Fjallað var um það á fréttavefnum AMX í gær að umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í Evrópusambandið hafi í för með sér að fjölga þurfi starfsmönnum í sendiráði Íslands í Brussel um 70-80 sem aftur muni hafa árlegan kostnað í för með sér upp á 30-40 milljónir á hvern starfsmann. Þessi kostnaður einn gæti því hlaupið á 2-3 milljörðum króna á ári en umsóknarferlið kann að taka 2-3 ár. Þar við bætist ýmis annar kostnaður og vegur þýðingarkostnaður mjög þungt í þeim efnum.

Ljóst er að ef þær forsendur sem nefndar eru hér eiga við rök að styðjast gæti heildarkostnaður vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið hæglega farið vel yfir tíu milljarða króna sem er allavega tíu sinnum hærri tala en sá tæpi milljarður sem utanríkisráðuneytið áætlaði að umsóknarferlið kostnaði. Að vísu var þar gengið út frá þeirri forsendu að lítið sem ekkert yrði haft fyrir viðræðum við sambandið. Gera má ráð fyrir að þessi kostnaður verði að stóru leyti í erlendum gjaldeyri.

Í umfjölluninni á AMX er ennfremur rætt um að það sé ekki að furða að svokallaðir “sérfræðingar í Evrópumálum” vilji ólmir í Evrópusambandið enda ljóst að aðeins með umsókn um inngöngu í það hafa atvinnutækifæri þeirra batnað stórkostlega.

Heimild:
ESB-umsókn kallar á 70-80 manns í Brussel (Amx.is 23/07/09)