Lýðræðinu ógnað meir en nokkru sinni fyrr

myndÍ 100 daga létu stjórnvöld óánægjutón tugþúsunda Íslendinga sem vind um eyru þjóta og sýndu skoðanakannanir sílækkandi fylgi við ríkisstjórnina. Margir kröfðust þess að fá að kjósa á ný og töldu ríkisstjórnina ekki sitja lengur í umboði þjóðarinnar. Háværar raddir úr öllum áttum kölluðu á lýðræði, kölluðu á að stjórnvöld yrðu við vilja fólksins. Loks varð úr að stjórnin sprakk með látum og boðað hefur verið til kosninga með vorinu. Hvort stjórnarslitin hafi orðið vegna deilna um völd, eins og stjórnarliðar vilja láta í veðri vaka, eða vegna hárra mótmæla á Austurvelli og víðar er ekki gott að segja um, en ég trúi að hið síðarnefnda hafi haft eitthvað um það að segja.

Lýðræðishallinn undanfarið

Lengi hefur hallað á lýðræði Íslands að mínum dómi. Ríkisstjórnir liðinna ára hafa einkennst af hroka og eiginhagsmunapoti og Alþingi verið eins konar strengjabrúða í höndum ráðherranna. Lýðræðishallinn hefur þó sjaldan verið meiri en undanfarna mánuði og reiðiöldur almúgans vegna þess aldrei verið hærri. Það er því ekki ósennilegt að krafa um aukið lýðræði og gagnsærri stjórnsýslu verði meðal þess sem kosið verður um í vor.

Lýðræði eða ESB?
En það er ekki einsýnt að eingöngu verði kosið til Alþingis í vor heldur eru blikur á lofti um jafnhliða kosningar um hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mótmælin undanfarið hafa endurspeglað fólk sem virðist vera annt um lýðræðið og vill að tekið sé mark á skoðunum þess og það þykir mér afar miklvægt. Að sama skapi þykir mér jafnleitt að allt of stór hluti þessa fólks vill jafnframt ganga í Evrópusambandið. Ég fæ það ekki með nokkru móti skilið en miðað við það sem ég hef kynnt mér er ESB langt frá því að vera góður kostur fyrir lýðræðissinnaða Íslendinga.

Rök Evrópusinna ekki marktæk
Evrópusinnar beita oft þeim rökum fyrir inngöngu í ESB að nú þegar höfum við yfirtekið yfir 80% af lögum og tilskipunum ESB í gegnum EES samninginn. Þess vegna sé ekkert því til fyrirstöðu að taka skrefið til fulls og ganga í ESB þar sem við fengjum þá fulltrúa á Evrópuþinginu sem gætu haft áhrif á ákvarðanatöku. Hið rétta er að Íslendingar hafa þurft að yfirtaka undir 20% af reglugerðarverki ESB í gegnum EES samninginn samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytisins.

Máttlaus og þyrftum að yfirtaka allt reglugerðarverkið
Þingmenn Evrópuþingsins eru 732 og frá 27 löndum. Fjöldi þingmanna sem Íslendingar myndu fá yrði líklega sá sami og fjöldi þingmanna Möltu (með 402.000 íbúa) en þeir eru fimm talsins. Frá stærstu aðildarríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Ítalíu, Spáni og Póllandi er helmingur allra þingmanna og hafa því þau ríki mikið vægi á þinginu, ólíkt okkur sem yrðum með undir 1% vægi ef til aðildar kæmi.

Við inngöngu í ESB þyrftum við að yfirtaka þau 80% laga og reglugerða sem við höfum sloppið við hingað til og ég hef litla trú á að fimm manna þinghópur geti einhverju breytt í því reglugerðarverki sem hefur að mestu verið smíðað af stærstu ríkjunum með hagsmuni sína að leiðarljósi. Hugsanlega ættum við meiri möguleika á að koma einhverju til leiðar í ráðherraráðinu þar sem ráðherrar Íslands myndu sitja ásamt öllum ráðherrum hinna ríkjanna. Vægi okkar þar væri þó ekki heldur mikið þar sem það fer eftir íbúafjölda ríkjanna og væri minna en 1%.

Bandaríki Evrópu
Mörgum má vera ljóst að ESB er bara að fara í eina átt og það er átt til enn frekari sameiningar Evrópu og mynda eins konar Bandaríki Evrópu. Það er ekkert launungarmál að það er stefna Evrópusambandssinna og með nýrri stjórnarskrá nær ESB að uppfylla allt sem sjálfstætt ríki þarf til. Því mætti segja að aðildarlönd ESB yrðu ekki lengur sjálfstæð lönd heldur meira í líkingu við þau ríki sem mynda Bandaríki Norður-Ameríku og meira að segja virðist sem nokkur fylki BNA hafi meira sjálfstæði en mörg aðildarríki ESB. Miðað við þessa nýju stjórnarskrá verður ýmsu í stjórnskipulagi ESB breytt sem ekki getur talist Íslandi til hagsbóta og hvet ég fólk til að kynna sér hana.

Með potta og pönnur á Meeus-torgi?
Ég get ekki betur séð en að með inngöngu í ESB myndum við rýra með afgerandi hætti sjálfstæði okkar og lýðræði og við fengjum lítið um það að segja í hvernig samfélagi við búum til framtíðar. Á fimm ára fresti fengjum við að kjósa fimm þingmenn af 737 þingmönnum Evrópuþingsins sem setja okkur lög og fara með stjórn fjárlaga ESB. Það verður seint talið lýðræði að mínu mati. Ef okkur finnst lýðræði okkar fótum troðið þessa dagana, hvernig á okkur þá eftir að líða þegar við erum orðið agnarsmátt jaðareyríki í miðstýrðum Bandaríkjum Evrópu? Já, og hvað ef okkur verður misboðið, eigum við þá að reyna að hafa áhrif með mótmælum og fjölmenna á Meeus-torg fyrir utan Evrópuþingið í Brussel með potta og pönnur?

(Birtist áður í Morgunblaðinu 7. apríl 2009)