Mat á ESB-umsókn Íslands gæti tekið meira en ár

Ráðherraráð Evrópusambandið samþykkti í dag að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið færi til framkvæmdastjórnar þess sem metur hvort forsendur séu til þess að hefja viðræður um inngöngu landsins. Litlar líkur voru á því að ráðherraráðið veitti ekki samþykki sitt enda felst ekki annað í því en að umsóknin fari í umrætt matsferli. Viðræður geta ekki hafist fyrr en skýrsla framkvæmdastjórnarinnar liggur fyrir en greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að meira en ár geti tekið að vinna hana.

Mánuðina áður en umsókn um inngöngu í Evrópusambandið var samþykkt á Alþingi var því sífellt haldið fram af Evrópusambandsinnum að bráðnauðsynlegt væri að skila inn slíkri umsókn á meðan Svíar gegndu forsæti innan sambandsins þar sem það myndi hafa í för með sér einhvers konar sérmeðferð af þeirra hálfu. Nú hefur hins vegar komið á daginn, sem þó var vitað fyrir, að slíkt er engan veginn í boði. Umsóknin fer einfaldlega í hefðbundið ferli innan stofnana Evrópusambandsins.

Heimildir:
Mat á aðildarhæfni Íslands talið taka meira en ár (Amx.is 27/07/09)
Bildt: Ísland fær enga flýtimeðferð (DV.is 27/07/09)