Matvælaverð hagstætt á Íslandi

Ódýrasta matarkarfan er í Berlínarborg en neytandinn þarf að greiða mest fyrir vörurnar í Osló, samkvæmt könnun í Bændablaðinu. Ísland  kemur vel út úr samanburðinum og er næstódýrast í samanburði verði á gúrkum, nýmjólk, hreinu smjöri, kjúklingabringum  og eggjum. Verð var kannað í sjö löndum. Nýmjólkin er áberandi dýrust í Osló þar sem líterinn kostar 304  krónur. Í Óðinsvéum í Danmörkukostar hann 193 krónur og 177  krónur í London. Hérlendis kostar líterinn 103 krónur. Ódýrasti  mjólkurlíterinn er hins vegar í Berlín í Þýskalandi þar sem hann  kostar einungis 98 krónur, 5% lægri en í Reykjavík.

Smjörverð er afar misjafnt á milli landa. Þannig er smjörið  ódýrast á Íslandi þar sem kílóverðið var 530 krónur en dýrast á Spáni  þar sem kílóið kostar 1.657. Þarna munar 212%.  Gúrkurnar reyndust ódýrastar á Spáni en dýrastar í Lúxemborg þar sem stykkjaverð var 226 krónur. Það er rúmlega helmingi hærra  verð en í Krónunni í Reykjavík.

Mikill verðmunur reynist vera  á kjúklingabringum milli landa. Hér er um að ræða ferskar bringur  en ekki frosnar. Dýrastar eru bringurnar í Noregi þar sem kílóið
kostar 3.551 krónu en ódýrastar í Þýskalandi þar sem kílóverðið  er 982 krónur. Athygli vekur að íslensku bringurnar lenda í miðjunni  í verðsamanburði. Þær reynast dýrari í Noregi, Danmörku og  Lúxemborg en ódýrari á Spáni, í Þýskalandi og á Englandi. 

Eggjaverðið er lægst á Spáni þar sem hægt er að kaupa 6 egg í pakka á 152 krónur. Í Noregi er verðið hæst eða 553 krónur. Á Íslandi er  eggjapakkinn á 245 krónur. Þegar á heildina er litið og skoðað hvað þessi tiltekna búvörukarfa kostar er verðmunurinn 150% á milli þeirrar dýrustu og ódýrustu.

Sjá nánar í Bændablaðinu.