Mikill efnahagssamdráttur í öflugasta hagkerfi ESB

Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að búist væri við 6% samdrætti í Þýskalandi, öflugasta hagkerfi Evrópusambandsins, í ár og að atvinnulausir Þjóðverjar verði orðnir 4,7 milljónir á næsta ári. Fram kom að bæði stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar óttuðust ólgu og uppþot í efnahagssamdrætti sem helst minnti á kreppuna í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar.

Haft var eftir Michael Sommer, forseta Alþýðusambands Þýskalands DGB, að svo mörgum verkamönnum væri nú sagt upp störfum að líta mætti á það sem stríðsyfirlýsingu. Ekki væri hægt að útiloka róstur og óspektir. Gesine Schwan, forsetaefni jafnaðarmanna, sagði spennu í loftinu, allra veðra væri von nema stjórnvöld gripu til varrúðarráðstafana á næstunni.

Þess má geta að Þjóðverjar eru ekki aðeins í Evrópusambandinu heldur einnig með evru sem gjaldmiðil.

Heimild:
Þjóðverjar óttast ólgu og uppþot (Rúv.is 24/04/09)