Mikill meirihluti Íslendinga andvígur því að sótt verði um inngöngu í ESB

Meirihluti Íslendinga er andvígur því að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Fréttablaðið birtir í dag. Alls segjast um 59,8% vera andvíg því að sótt verði um inngöngu eða nær jafnmargir og sögðust fylgjandi því að það skref væri tekið í nóvember síðastliðnum. Andstæðingar inngöngu eru í meirihluta bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni þó andstaðan sé talsvert meiri á meðal íbúa landsbyggðarinnar.

Einungis er meirihluti fyrir inngöngu hjá þeim sem segjast styðja Samfylkinguna eða 73%. Andstaða meðal kjósenda annarra flokka er verulega. Um 60% stuðningsmanna Framsóknarflokksins er andvíg inngöngu, 75% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, liðlega 83% þeirra sem segjast styðja Frjálslynda flokkinn og 71% stuðningsmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Könnunin var gerð 22. janúar sl. og var úrtakið 800 manns. Spurt var “Á Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu?” og tóku liðlega 73% afstöðu til spurningarinnar.

Heimildir:
Meirihluti landsmanna á móti aðild að Evrópusambandinu (Amx.is 26/01/09)
Meirihluti andvígur ESB (Vísir.is 26/01/09)
Meirihluti vill ekki aðild að ESB (Mbl.is 26/01/09)