Naumur meirihluti Íslendinga andvígur inngöngu í ESB

Naumur meirihluti Íslendinga er andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins sem er mikil breyting frá fyrri könnunum. 37,7% aðspurðra sögðust hlynntir inngöngu í sambandið en 38,3% sögðust henni andvíg. Í sambærilegri skoðanakönnun fyrirtækisins í október voru 51,7% hlynnt inngöngu en 27,1% andvíg.

Stuðningur við viðræður við Evrópusambandið um inngöngu hefur einnig dregist verulega saman. Samkvæmt könnun Capacent Gallup nú eru 56,4% hlynnt slíkum viðræðum samanborið við 65,5% í desember. 25,4% eru andvíg viðræðum við sambandið samanborið við 19,7% í síðasta mánuði.

Ljóst er að um er að ræða mikinn umsnúning í afstöðu fólks til inngöngu í Evrópusambandið.

Heimild:
Færri fylgjandi ESB-aðild (23/01/09)