Össur viðurkennir að Íslendingar þurfi ekki á ESB að halda

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, viðurkenndi í viðtali við þýska fréttamiðilinn Deutsche Welle í gær að við Íslendingar hefðum enga þörf fyrir inngöngu í Evrópusambandið og gætum auðveldlega komið efnahagsmálum okkar í lag á ný utan þess.

„Sumir telja kannski að staða okkar sé veik því við höfum lent illa í fjármálakreppunni. En jafnvel án aðildar að Evrópusambandinu myndum við koma okkur út úr kreppunni fljótlega. Strax árið 2011 munum við sjá hagvöxt aukast hér á landi. Þannig ég hef ekki miklar áhyggjur, við förum ekki í viðræðurnar með það fyrir augum að við munum ekki komast af án Evrópu[sambandsins]. Það getum við,“ sagði Össur í viðtalinu. 

Það er ánægjulegt að Össur sé farinn að viðurkenna staðreyndir sem þessa, enda litlar líkur á öðru en að hann hafi alltaf gert sér grein fyrir þeim þó það hafi hentað honum pólitískt til þessa að halda öðru fram.

Heimildir:
„Getum lifað án Evrópu“ (Mbl.is 27/07/09)
Iceland confident about EU membership talks (Dw-world.de 27/07/09)