Pólitískur talsmaður neytenda?

Gísli Tryggvason, sem gegnir opinberu embætti sem talsmaður neytenda, sagði í nýlegu svarbréfi til nefndar á vegum Stjórnarráðsins um þróun Evrópumála að kjör neytenda myndu batna verulega ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Fullyrti hann að lánakjör myndu stórbatna og verðlag lækka töluvert. Um stórmerkilegar yfirlýsingar er að ræða svo ekki sé meira sagt.

Ummæli Gísla vekja fyrir það fyrsta athygli í ljósi þess að hann setur þau fram sem opinber embættismaður í umsögn til opinberrar nefndar og í annan stað vegna þess að hingað til hafa fáir treyst sér til þess að fullyrða að t.a.m. verðlag lækkaði við inngöngu í sambandið heldur í mesta lagi sagt að það væri mjög líklegt. Jafnvel ekki svokallaðir sérfræðingar í Evrópumálum. Enda hefur reynsla flestra ríkja sem gengið hafa í Evrópusambandið og tekið upp evru sem gjaldmiðil verið sú að verðlag hafi hækkað verulega frá því sem áður var.

En ummæli Gísla þurfa kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að hann var á meðal þeirra sem setti nafn sitt undir yfirlýsingu sem birtist í dagblöðum 28. mars sl. þar sem lýst var yfir stuðningi við inngöngu í sambandið. Pólitísk afstaða Gísla til málsins hefur heldur ekki leynt sér á bloggsíðu sem hann heldur úti í nafni embættis talsmanns neytenda. Fyrrgreind ummæli Gísla geta því eðli málsins samkvæmt ekki skoðast öðruvísi en sem pólitísk .

Heimild:
Kjör neytenda myndu stórbatna við aðild Íslands að ESB (Vísir.is 08/04/09)