Ráðherra vill fresta umsókn um inngöngu í ESB

„Ég hef þungar áhyggjur af samningsstöðu Íslands,“ sagði Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við Ríkisútvarpið í dag. Hann sagðist af þeim sökum vilja fresta viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið. Í ljósi beinna og óbeinna hótana stjórnvalda í Bretlandi, Hollandi og fleiri ríkjum sambandsins verði að leysa milliríkjadeilur áður en sest verður að samningum um inngöngu.

Jón nefndi hryðjuverkalög Breta á Íslendinga í kjölfar bankahrunsins, yfirlýsingar hollenskra ráðherra um bein tengsl milli Icesave-deilunnar og inngöngu í Evrópusambandið auk þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti stöðugt fleiri og nýjar kröfur á þjóðina sem óvíst væri hvernig hún stæði undir.

„Þannig að mér finnst það verulegt áhyggjuefni að vera að fara í samningaviðræður við ríkjasamband í þeirri stöðu sem íslenska þjóðin er núna,“ sagði Jón í samtali við Ríkisútvarpið.

Heimild:
Vill fresta umsóknarferli ESB (Mbl.is 26/07/09)