Segir efnahagsleg rök fyrir inngöngu í ESB ekki halda vatni

Páll Vilhjálmsson fjallar á bloggsíðu sinni um gagnrýni Stein Reegård, aðalhagfræðings norska alþýðusambandsins LO, á rök Alþýðusambands Íslands fyrir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag segir Reegård að efnahagsleg rök fyrir aðild að sambandinu séu byggð á veikum grunni. Hann segir kreppuna á Íslandi heimatilbúna og innganga í Evrópusambandið engu breyta um þær ráðstafanir sem stjórnvöld þurfi að grípa til.

Reedgård segir að ef Ísland hefði verið með evru væri ástandið enn verra en það er nú. Háir vextir hafi þrátt fyrir allt verið hemill á þensluna og verðfall krónunnar geri atvinnulífið samkeppnisfært á ný.

Í umfjöllun norska ríkisútvarpsins er haft eftir Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, að upptaka evru sé nauðsynleg til að endurreisa atvinnulífið. Reedgård dregur dár að Gylfa og bendir á að Ísland muni ekki geta tekið upp evru á næstu árum, landið uppfylli ekki skilyrði Evrópusambandsins fyrir því.

Norska alþýðusambandið hefur verið hlynnt inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Þar á bæ vita menn hins vegar að efnahagsleg rök fyrir inngöngu halda ekki vatni.

Heimildir:
ESB-rök ASÍ gagnrýnd frá Noregi (Pallvil.blog.is 24/07/09)
EU ikke løsning for Island (Nrk.no 24/07/09)