Segir ekki hægt að treysta samningum við ESB

Inge Halstensen, formaður stjórnar samtaka norskra útvegsmanna, Fiskebåtredernes Forbund, sendir Evrópusambandinu tóninn í frétt á vef norska ríkisútvarpsins og segir sambandið „ótraustan samningsaðila.” Halstensen vísar til makríldeilu milli Noregs og ESB og segir að þar sem ekki sé hægt að treysta gerðum samningum verði Norðmenn að grípa til þess að hindra aðgang ESB-skipa að norskum veiðisvæðum í Norðursjó og Barentshafi.

Í frétt norska ríkisútvarpsins kemur fram að þarlend stjórnvöld óttist að erfitt verði að hrinda þeirri ákvörðun Evrópusambandsins að vísa 30 norskum makrílveiðiskipum tafarlaust út af svæði undan Hjaltlandseyjum í fyrri viku, þar sem þau töldu sig stunda veiðar í trausti tvíhliða samkomulags ESB og Noregs. Halstensen segir að hefðu útvegsmenn haft minnsta grun um hvað væri í vændum hefði þeim verið í lófa lagið að veiða meira af makríl á meðan hann hélt sig í norskri lögsögu fremur en að elta hann inn í lögsögu ESB. Norskir útvegsmenn telja að þeir muni verða af aflaverðmæti sem svarar til 20 milljarða íslenskra króna standi ákvörðun ESB í málinu óhögguð.

Samkvæmt umræddum tvíhliða samningi telja Norðmenn sér heimilt að veiða 153.000 tonn af makríl innan lögsögu Evrópusambandsins en ESB telur að þeim sé aðeins heimilt að veiða 53.000 tonn.  

Heimild:
Segir ekki hægt að treysta samningum við ESB (Líú.is 12/10/09)