Sjálfstæðisbaráttunni lýkur aldrei

Fyrst eftir bankahrunið var fjöldi Íslendinga fullur örvæntingar og fyrir vikið sýndu skoðanakannanir mikinn og vaxandi stuðning við að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið. Eftirspurn var eftir öryggi, hvort sem það væri ímyndað eða raunverulegt. Hérlendum Evrópusambandssinnum lá því lífið á að hamra járnið á meðan það væri heitt og hraða í gegn umsókn um inngöngu í Evrópusambandið ef þess væri nokkur kostur. Gert var óspart út á ótta fólks og óöryggi, eins geðslegt og það nú er.

Klappstýrum Evrópusambandsins lá raunar svo á að þær gátu alls ekki beðið eftir landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem halda átti í lok janúar þar sem taka átti fyrir stefnu flokksins í Evrópumálum. Þannig var t.a.m. hafinn undirbúningur að umsókn um inngöngu í utanríkisráðuneytinu undir forystu formanns Samfylkingarinnar þegar í nóvember ef ekki fyrr og forystumenn í flokknum gátu ekki leynt óþolinmæði sinni í málinu í samtölum við fjölmiðla.

En nú hefur það gerzt sem Evrópusambandssinnarnir óttuðust og vissu vafalaust að gerðist á einhverjum tímapunkti; orðinn hefur viðsnúningur í afstöðu Íslendinga til Evrópumálanna ef marka má nýjustu skoðanakannanir. Meirihluti er nú gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Blaðran er sprungin. Í bili allavega. En sjálfstæðisbaráttan heldur áfram enda lýkur henni aldrei.

Hjörtur J. Guðmundsson,
stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)