Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrr andvígur inngöngu í ESB

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í dag óbreytta stefnu í Evrópumálum. Flokkurinn telur sem fyrr að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ennfremur lagði landsfundurinn áherslu á að ef einhvern tímann yrði sótt um inngöngu í sambandið yrði sú ákvörðun lögð í þjóðaratkvæði og ennfremur niðurstöður hugsanlegra viðræðna. Mikil andstaða við inngöngu í Evrópusambandið kom fram á fundinum og stigu fáir í ræðustól til þess að kalla eftir slíkri inngöngu en hins vegar fjöldi manns til þess að tala gegn því að slíkt skref yrði tekið. Orðrétt var ályktun landsfundarins svohljóðandi:

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja.

Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum, hvort sem þær snúast um gjaldmiðilinn eða aðild. Sterk lýðræðisleg rök mæla engu að síður með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt og umdeilt mál og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna.

Landsfundurinn undirstrikar þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir auðlindum Íslands og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

Landsfundur telur að setja skuli ákvæði í almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.

Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá afstöðu sina að hugsanleg niðurstaða úr samningsviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði ávallt borin undir þjóðaratkvæði.“

Heimild:
Ályktun um Evrópumál samþykkt (Xd.is 27/03/09)

Tengt efni:
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar inngöngu í ESB sem fyrr