Sjávarútvegsstefna ESB afgreidd sem handónýt

Fréttavefurinn Amx.is fjallaði í gær um nýbirta Grænbók Evrópusambandsins um sjávarútvegsmál sem leiðir í ljós að sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins hefur gengið sér til húðar. Hún hafi alls ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Kristján Vigfússon, sérfræðingur í Evrópumálum við Háskólann í Reykjavík, rakti meginniðurstöður skýrslunnar í þættinum Auðlindin á Morgunvakt Rásar 1 í gær.

Kristján sagði, að 88% fiskstofna innan lögsögu ESB væru ofveiddir, 30% væru í útrýmingarhættu, 2% árleg úrelding fiskiskipa væri langt innan við markmið stefnunnar. Niðurgreiðslur væru úr hófi og sjóðir að tæmast. Fiskverð væri einnig úr hófi, neytendur greiddu 1000 kr. fyrir kíló af fiski úr búð eftir að hafa greitt 1000 kr. í sköttum, svo að unnt hefði verið að veiða þetta sama kíló. Sjávarútvegurinn væri langt frá því sjálfbær. Ákvarðanir um aflamagn væru teknar of hátt innan stjórnkerfisins, það er í ráðherraráðinu, þar sem pólitísk sjónarmið réðu á kostnað veiðiráðgjafar með vísan til veiðiþols fiskstofna.

Í skýrslunni væru vissulega nefndar hugmyndir um leiðir til úrbóta en vandinn væri hins vegar sá að Evrópusambandið ætlaði að ná svo mörgum markmiðum í einu með stefnu sinni að þau væru ekki að fullu samrýmanleg og þess vegna yrði stefnan sjálf óhjákvæmilega ómarkviss. Þrjár meginhugmyndir um úrbætur væru nefndar. Í fyrsta lagi að fiskveiðiréttindi yrðu á einhvern hátt framseljanlegt. Í öðru lagi að strandveiðar yrðu verndaðar með 12 mílna reglu. Í þriðja lagi að dregið yrði úr miðstýringu án þess að ákvarðanir um heildarafla yrðu teknar frá ráðherraráðinu.

Þegar rætt er um skýrsluna er nauðsynlegt að því sé haldið til haga að í henni er að finna vangaveltur um að reglan um hlutfallslegan stöðugleika það er forréttindi ríkis til fisksveiða á „eigin“ miðum, hafi gengið sér til húðar og hverfa beri frá henni.

Heimild:
Grænbókin lýsir ónýtri sjávar­útvegs­stefnu ESB (Amx.is 29/0/09)