Skoskir sjómenn vilja komast í íslensku fiskveiðilögsöguna

Fáir hafa gagnrýnt sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins harðar í gegnum tíðina en skoskir sjómenn. Í frétt á Mbl.is í gær er hins vegar sagt frá því að fulltrúar skoskra sjómanna vilji gjarnan fá Íslendinga inn í sambandið. Þeir vonist til þess að innganga Íslands geti haft jákvæð áhrif á sjávarútvegsstefnuna. Erfitt er þó að átta sig á því hvernig það ætti að gerast. Bretar hafa t.a.m. verið í Evrópusambandinu og forvera þess í að verða 40 ár og hafa allan þann tíma reynt að fá sjávarútvegsstefnu sambandsins breytt en ekkert orðið ágengt. Engu að síður er Bretland eitt stærsta ríki Evrópusambandsins og með vægi innan þess í samræmi við það. Vægi Íslendinga innan sambandsins yrði hins vegar lítið sem ekkert vegna fámennis hér á landi.

En það sem er merkilegast við frétt Mbl.is er hreinskilni Skotanna að með inngöngu Íslands í Evrópusambandið sjái þeir fram á að geta komist í íslensku fiskveiðilögsöguna til veiða. Þeir hafi verið hraktir héðan eftir þorskastríðin og ef Íslendingar gangi í sambandið sjái þeir fram á að komast aftur í lögsöguna.

Heimildir:
Skoskir sjómenn vilja að Ísland gangi í ESB (Mbl.is 31/01/09)
Scots fishermen welcome bid by Iceland to join EU (Pressandjournal.co.uk 31/01/09)