Spánverjar ætla sér að komast í íslensk fiskimið

Spænska dagblaðið El Pais greindi frá því í vikunni að í augum spænska fiskveiðiflotans væri íslenska fiskveiðilögsagan fjársjóður og ennfremur að ráðherra Evrópumála í ríkisstjórn Spánar, Diego López Garrido, hefði í hyggju að tryggja hagsmuni spænsks sjávarútvegar í umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu. Haft var eftir ráðherranum að Spánverjar myndu hafa mikið að segja um umsóknarferlið og að ekki mætti undir neinum kringumstæðum semja um inngöngu Íslands í sambandið nema spænskir fiskveiðihagsmunir yrðu tryggðir.

Ummæli Garrido koma ekki á óvart enda alla tíð verið vitað að ef Ísland gengi í Evrópusambandið yrði ekki hægt að tryggja yfirráð Íslendinga yfir auðlindum Íslandsmiða. Þau yfirráð færu til stofnana sambandsins. Að sama skapi gætu Íslendingar ekki gert sér vonir um að sitja einir að aflaheimildum við landið ef af inngöngu í Evrópusambandið yrði enda grunnregla sambandsins jafn aðgangur að sameiginlegum auðlindum og undir það flokkast fiskistofnar innan sameiginlegrar lögsögu ríkja þess.

Heimild:
Spánverjar telja íslensk fiskimið “fjársjóð” – Munu tryggja sinn veiðirétt, segir ESB-ráðherra (Eyjan.is 28/07/09)
Islandia enfila la vía express para su integración en la UE (Elpais.com 27/07/09)

Tengt efni:
Viðurkennir að yfirráðin yfir fiskimiðunum töpuðust
Íslenskar auðlindir mikilvægar fyrir ESB
Trúa Íslendingar á jólasveininn?!?
„Ekki gera sömu mistök og við gerðum!“
Evrópusambandið hefur lokaorðið