Stóru ríkin innan ESB taka ákvarðanirnar

Forystumenn Þýskalands og Frakklands komust að samkomulagi nýverið um það hvernig staðið yrði að því af hálfu Evrópusambandsins að aðstoða Grikki í efnahagsvanda þeirra. Sú aðstoð þykir þó ekki upp á marga fiska og felst í því að ríki sambandsins komi aðeins til aðstoðar í ítrustu neyð. Grikkjum verði þá veitt lán ef þeir fá hvergi lán annars staðar. Þau lán verði að hluta til veitt af ríkjunum og að hluta til af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en aðkoma AGS að málum evrusvæðisins þykir mikill álitshnekkir fyrir það.

Þegar samkomulagið á milli þýskra og franskra stjórnvalda lá fyrir var fjallað um það, bæði af ESB sjálfu og fjölmiðlum, eins og málið væri frágengið þrátt fyrir að það hefði ekki verið tekið fyrir á vettvangi sambandsins með þátttöku allra ríkja þess. Þetta kemur ekki á óvart í ljósi þess að forystumenn stærstu ríkjanna standa iðulega að ákvarðanatöku innan ESB með þessum hætti og geta það í krafti stærðar sinnar.

Þjóðverjar, stærsta efnahagsveldi ESB, hefur verið mjög andsnúið því að veita Grikkjum aðstoð og lögðu áherslu á að AGS kæmi að málum. Þýsk stjórnvöld settu það m.a. sem skilyrði fyrir þátttöku í evrusvæðinu á sínum tíma að þeir þyrftu ekki að axla ábyrgð á skuldum annarra evruríkja. Þá óttast þau að Grikkir séu aðeins forsmekkurinn, fleiri evruríki og stærri eigi eftir að lenda í hliðstæðum vandræðum eins og Ítalía og Spánn.