Stúdentar gera úttekt á framboðum

Herjan – félag stúdenta gegn ESB-aðild, hefur gert úttekt á afstöðu flokkana í Evrópumálum. Hana má finna hér fyrir neðan:

Framsóknarflokkurinn:“ Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu”

Sjálfstæðisflokkurinn: “Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.”

Vinstri hreyfingin grænt framboð: “Landsfundur Vinstri grænna telur að Íslandi sé best borgið utan ESB en vill ljúka aðildarviðræðum við ESB og setja ferlnu tímamörk til dæmis 1 ár frá kosningum. Þjóðin kjósi síðan um niðurstöður aðildarviðræðanna.”

Samfylkingin: “Samfylkingin fagnar þeim áföngum sem hafa náðst hafa í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Mikilvægt er að engir hnökrar verði á samningaferlinu. Þjóðin á þá kröfu að fá fullgerðan samning í hendur til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu.”

Hægri Grænir: “Flokkurinn er á móti inngöngu Íslands í ESB, og telur Íslendinga betur borgið utan ESB af pólitískum ástæðum. Í ljósi þess að hægt hefur verið á þessu ferli og til að skapa meiri framtíðar sátt um málið eftir kosningar, vill flokkurinn þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðanna innan 6 mánaða frá kosningum.”

Píratar: “Viðræður um stærstu og umdeildustu málin eru þó ekki hafnar. Þar má m.a. nefna sjávarútveg, matvælaöryggi og landbúnað og það er hreinlega ekki hægt að gera sér upp upplýsta skoðun um inngöngu nema að viðræðum sé lokið um þau mál, þess vegna ætti að halda viðræðum áfram og ljúka þeim á skynsaman hátt og setja síðan samninginn í þjóðaratkvæði eftir upplýsta umræðu.”

Björt Framtíð:  “Löndum góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.”

Dögun: „Við leggjum áherslu á opið og lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni. Ef aðildarviðræðum verður ekki lokið fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár og þjóðin ákveður að hætta aðildarviðræðum í samræmi við 66. grein frumvarps Stjórnlagaráðs, munum við styðja þá niðurstöðu. Að öðrum kosti verði aðildarviðræður við Evrópusambandið kláraðar og niðurstaðan borin undir þjóðaratkvæði.“

Lýðræðisvaktin: “Samningaviðræður við ESB standa yfir og þeim ber að ljúka, svo unnt sé að halda áfram innan eða utan ESB í samræmi við vilja þjóðarinnar”

Alþýðufylkingin: “Alþýðufylkingin berst skilyrðislaust gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, NATO og öðrum bandalögum heimsvaldasinna. Alþýðufylkingin beitir sér gegn óheftum fjármagnsinnflutningi til landsins og hvers konar skerðingu á fullveldi þjóðarinnar.”

Flokkur Heimilanna: ” Telur ESB ekki vera sérstakt kosningamál, vill klára aðlögunarferlið og setja niðurstöðuna í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.”

Regnboginn: “Fullveldi Íslands verði tryggt. Sem alþjóðasinnar höfnum við aðild Íslands að Evrópusambandinu og viljum tafarlaus viðræðuslit og stöðvun á því aðlögunarferli sem nú á sér stað.”

Landsbyggðarflokkurinn (tók ekki afstöðu til málsins með beinum hætti), Húmanistaflokkurinn og Kristin stjórnmálasamtök.

Voru ekki með formlega heimasíðu og þar að leiðandi var ekki hægt að finna neina stefnuumörkun í þessu máli. Við vonum að framboð þessi taki sig til og komi upp heimasíðum um stefnumál sín í aðdraganda kosninga. Vonandi hjálpar þessi yfirferð einhverjum kjósendum sem ganga að kjörkössunum.

Herjan heldur úti heimasíðu og facebook síðu.