Svíar betur settir með sænsku krónuna en evru

Útflutningsverðmæti Svía hafa aukist árlega um 30 milljarða sænskra króna (um 450 milljarða íslenskra króna) þar sem þeir hafa kosið að halda í krónuna í stað þess að skipta henni út fyrir evru að sögn aðalhagfræðings Útflutningsráðs Svíþjóðar, Mauro Gozzo. Í samtali við sænska ríkissjónvarpið í morgun sagði hann ennfremur að ef gengi krónunnar hefði verið mjög hátt, eins og gengi evrunnar hefur verið, hefði efnahagskreppan komið miklu harðar niður á Svíum og atvinnuleysi t.a.m. aukist hraðar.

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar í Svíþjóð benda til þess að 47% Svía séu nú hlynnt því að skipta sænsku krónunni út fyrir evru en 45% á móti því. Stuðningurinn nú skýrist af efnahagskreppunni sem herjar á heiminn og hefur haft slæm áhrif á sænskt efnahagslíf eins og annars staðar. Þar til nú höfðu allar skoðanakannanir í Svíþjóð sýnt mikinn meirihluta gegn upptöku evrunnar síðan Svíar afþökkuðu hana með 56% atkvæða í þjóðaratkvæði í september 2003.

Þess má geta að þegar sænsk stjórnvöld ákváðu að halda þjóðaratkvæðið höfðu niðurstöður skoðanakannana ítrekað sýnt meirihlutastuðning við evruna en eftir að andstæðar fylkingar höfðu tekist á um málið snerist það algerlega við. Afleiðing þess var m.a. sú að þáverandi forsætisráðherra Svía, Göran Persson, lýsti því yfir nokkru síðar að ekki yrði kosið um Stjórnarskrá Evrópusambandsins (sem nú kallast Lissabon-sáttmálinn).

Fram kemur í frétt hjá sænska ríkisútvarpinu í dag að aðeins einn sænskur stjórnmálaflokkur sé hlynntur því að halda nýtt þjóðaratkvæði um evruna, Frjálslyndi þjóðarflokkurinn, sem vill að það fari fram á næsta ári, en flokkurinn fékk 7,5% fylgi í þingkosningunum 2006.

Heimildir:
Miljardvinster på att stå utanför euron (Svt.se 20/04/09)
“JA till euron” (Svt.se 20/04/09)