Timo Summa lætur af störfum

Á vefsíðu Evrópuvaktarinnar má lesa að starf sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi hefur verið auglýst. Timo Summa sem gegnt hefur embættinu er á förum. Ashton barónessa, utanríkisráðherra ESB, mun eiga síðasta orðið um hinn nýja sendiherra. Hann verður valinn úr hópi embættismanna ESB eða úr hópi manna sem ríkisstjórnir einstakra aðildarríkja tilnefna.

Auglýsingin um hið lausa sendiherraembætti á Íslandi birtist innan ESB í apríl. Timo Summa hefur gegnt embættinu hér í þann árafjölda sem er eðlilegur þjónustutími samkvæmt reglum ESB en hann tók hér til starfa á árinu 2009. Það er þó einnig talið hafa ráðið nokkru um brottför hans héðan nú að framganga hans vegna aðildarumsóknar Íslands hefur sætt mikilli og vaxandi gagnrýni.

Timo Summa hefur í Morgunblaðinu verið sakaður um að brjóta gegn 41. gr. Vínsarsamningsins um stjórnmálasamband ríkja þar sem hann hafi blandað sér í umræður um viðkvæm íslensk innanríkismál og deilur um ESB-aðildarumsóknina. Þýski sendiherrann á Íslandi hefur tekið upp hanskann fyrir Summa í opnu bréfi til ritstjóra Morgunblaðsins. Summa hafi fulla heimild til þess að ræða aðildarmálið þar sem íslenska ríkisstjórnin hafi sótt um aðild að ESB og þannig skapað sendiherranum umboð til þátttöku í pólitískum umræðum á Íslandi.

Fyrir fáeinum dögum fór Timo Summa á vegum Evrópustofu, sem starfrækt er fyrir fé frá stækkunardeild ESB, til Ísafjarðar og kynnti sjónarmið ESB. Áður hafði sendiherrann efnt til funda á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík.

Heimildarmaður Evrópuvaktarinnar í Brussel telur líklegt að til starfa á Íslandi í stað Summa veljist embættismaður sem tilnefndur sé af einhverju aðildarríkjanna. Percy Westerlund, forveri Summa, blandaði sér í kosningabaráttuna hér á landi vorið 2009.