Töfralausn Evrópusambandssinna virkar ekki á Spáni

Ríkisútvarpið greindi frá því í dag að atvinnuleysi færi hratt vaxandi á Spáni og nú væru í fyrsta sinn yfir fjórar milljónir manna án vinnu. Atvinnuleysi var 17,36% á fyrsta ársfjórðungi og hefur aldrei verið meira. Helmingur þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá misstu vinnuna í fyrra. Um áramót var atvinnuleysið komið upp í 13,9% og var þá það mesta í Evrópusambandinu.

Byggingariðnaðurinn á Spáni hefur tekið mikla dýfu í alþjóða fjármálakreppunni. Síðustu skýrslur stjórnvalda sýna þó að flestir hafa missta atvinnu í þjónustugreinum eins og ferðamannaþjónustu sem eru meðal meginstoða í efnahagslífi Spánar. Atvinna dregst saman í öllum starfsgreinum ekki síst í borgunum Madrid, Barcelona og Valencia.

Spánverjar eru ekki einir innan Evrópusambandsins um að vera í miklum erfiðleikum efnahagslega. Flest ríki sambandsins eiga við gríðarlega erfiðleika að stríða og það jafnvel öflugustu hagkerfi þess eins og Þýskaland. Engu að síður eru þessi ríki ekki aðeins innan Evrópusambandsins heldur ennfremur með evru sem gjaldmiðil.

Heimild:
Yfir 4 milljónir án atvinnu á Spáni (Rúv.is 28/04/09)