Traust á samtökum gegn ESB-aðild

Samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent gerði á dögunum um Evrópumál eru hagsmunasamtök gegn aðild að Evrópusambandinu í fjórða sæti af 13 yfir þá aðila sem fólk treystir til þess að upplýsa og fræða sig um kosti og galla slíkrar aðildar. Athygli vekur að hagsmunasamtök með aðild að ESB eru hins vegar í áttunda sæti á listanum.

Ofar á listanum en hagsmunasamtök gegn aðild að ESB eru fræðimenn, hagsmunasamtök launþega og innlendir fjölmiðlar. Neðar á listanum eru hins vegar erlendir fjölmiðlar, hagsmunasamtök atvinnurekenda, íslenskir embættismenn, hagsmunasamtök með aðild, stofnanir ESB, áhugafólk um Evrópumál, stjórnmálamenn, listamenn og svo aðrir.

Ef aðeins er miðað við þá sem fólk treystir best til þess að upplýsa sig um Evrópumálin þá eru samtök gegn aðild að ESB í öðru sæti á eftir fræðimönnum og hagsmunasamtök með aðild í þriðja sæti ásamt hagsmunasamtökum atvinnurekenda.

Þess má geta að í umræddri skoðanakönnun var sérstaklega minnst á Heimssýn innan sviga á eftir valmöguleikanum hagsmunasamtök gegn aðild að sambandinu.

Heimild:
Þekking og upplýsingagjöf um kosti og galla Evrópusambandsaðildar (Capacent.is 06/07/09)